Deila

Fimm og hálft ár fyrir að nauðga tveimur stúlkum

18 ára piltur hlaut fimm og hálfs árs fangelsisdóm fyrir að nauðga tveimur fimmtán ára stúlkum í sumar. Foreldrar piltsins fóru með hann á geðdeild eftir fyrri nauðgunina. Hann var ekki lagður inn og nauðgaði aftur sex dögum síðar. Ekki var farið fram á gæsluvarðhald heldur.

Pilturinn hlaut fimm og hálfs árs fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness fyrir skömmu. Hann nauðgaði fimmtán ára stelpu á heimili sínu í Reykjanesbæ í lok júlí og var handtekinn í kjölfarið. Stelpan lýsti hrottalegri líkamsárás, hvernig pilturinn tók hana kverkataki, sparkaði og sló, steig ofan á háls hennar, hótaði að drepa hana og nauðgaði henni tvívegis.

Pilturinn reyndi að afmá sönnunargögn með því að losa sig við rúmföt.
Mikil reiði var innan lögreglunnar yfir því að piltinum hafi verið sleppt eftir nokkra klukkutíma og að ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald yfir honum eftir að fyrra málið kom upp.
„Mér fannst málið strax það alvarlegt að full ástæða hefði verið til að fara fram á gæsluvarðhald,“ segir Sigurður Freyr Sigurðsson, réttargæslumaður stelpunnar, sem varð fyrir fyrri nauðguninni.
Í dómnum kemur fram að foreldrar piltsins hafi því næst farið með hann á geðdeild og óskað eftir aðstoð. Þau hafi undrast að hann hafi ekki verið lagður inn. Sex dögum síðar nauðgaði hann annarri 15 ára stelpu með hrottalegum hætti. Sá atburður átti sér stað í austurbæ Reykjavíkur og kölluðu vitni lögreglu á staðinn. Stelpan var flutt illa leikin á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Ef maðurinn hefði verið í gæsluvarðhaldi, eða vistaður á geðdeild, hefði seinna málið aldrei komið upp.

Auglýsing

Þolandi seinni nauðgunarinnar lýsti því fyrir dómi að eftir atburðinn hefði hún einangrast frá gamla vinahópnum sínum. Móðir hennar studdi frásögnina.
Við geðrannsókn á piltinum kom fram að hann væri reiður, ætti erfitt með að finna til með öðrum og axla ábyrgð. Hann væri hinsvegar sakhæfur.
„Málið er sérstakt því brotin eru gróf og gerandinn er ungur með engan saka- eða ofbeldisferil. Það sjáum við ekki á hverjum degi. Mér finnst dómurinn ásættanlegur fyrir ákæruvaldið en ríkissaksóknari tekur ákvörðun um hvort honum verði áfrýjað,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.

UPPFÆRT: Fréttin var uppfærð kl. 11.53.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.