Deila

GAMMA í átta milljarða viðskiptum með leigufélög sín

Leigufélagið undirbúið fyrir skráningu á hlutabréfamarkað. Átta milljarða eignir settar inn í Almenna leigufélagið. GAMMA er fyrsta fyrirtækið sem á tækifæri í stórfelldum uppkaupum á íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Á milli þrjú og fjögur þúsund manns, um eitt prósent af íslensku þjóðinni, býr í íbúð frá GAMMA.

Sjóðsstýringarfyrirtækið GAMMA metur hlutafé félaganna sem eiga íbúðirnar sem fyrirtækið hefur keypt í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum á rúmlega 8 milljarða króna. Þetta kemur fram í þinglýstu skjali frá stjórn félagsins sem heldur utan um íbúðirnar fyrir Gamma, Almenna leigufélaginu ehf. Um er að ræða átta eignarhaldsfélög í heildina. Ákvörðunin um hlutafjáraukninguna var tekin í desember síðastliðnum.

GAMMA var fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem sá viðskiptatækifæri í stórfelldum uppkaupum á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu árið 2013 og byrjaði það þá að safna að sér íbúðum. Í kjölfarið hafa orðið til önnur leigufélög eins og Heimavellir, BK Eignir og Ásbrú ehf. sem hafa keypt upp samtals vel á þriðja þúsund íbúðir. GAMMA hefur á liðnum árum keypt um 1100 íbúðir og má á áætla að rúmlega 3000 íbúar búi í þessum leiguíbúðum. Ómögulegt er að sjá í opinberum gögnum hverjir það eru sem eiga Almenna leigufélagið og tengd félög þar sem um er að ræða eignarhald í gegnum sjóði sem GAMMA heldur utan um.

GAMMA, fyrirtækið sem Gísli Hauksson (sem sést á aðalmyndinni) stýrði sem forstjóri þar til nýlega, undirbýr Almenna leigufélag sitt undir skráningu á markað og hækkaði nýlega hlutafé fyrirtækisins með 8 milljarða króna fasteignasafni.
GAMMA, fyrirtækið sem Gísli Hauksson (sem sést á aðalmyndinni) stýrði sem forstjóri þar til nýlega, undirbýr Almenna leigufélag sitt undir skráningu á markað og hækkaði nýlega hlutafé fyrirtækisins með 8 milljarða króna fasteignasafni.

 

Auglýsing

Viðskipti GAMMA og hinna leigufélaganna hafa verið mjög umdeild þar sem um er að ræða fjársterk stórfyrirtæki, þar sem lífeyrissjóðir eru meðal annars hluthafar í tilfelli GAMMA, sem eiga í samkeppni við einstaklinga á íbúðamarkaði. Hlutdeild þessara leigufélaga á höfuðborgarsvæðinu telur nú nokkur þúsund íbúðir. Þau fjögur stærstu eiga rúmlega 4000 íbúðir víðs vegar um landið, mest á höfuðborgarsvæðinu. Þegar litið er til þess að árið 2016 voru 136 þúsund íbúðir á öllu landinu þá er þessi tala ekki svo há, tæp 3 prósent, en miðað við hversu stutt slík leigufélög hafa starfað á Íslandi – rúmlega þrjú ár – þá er þetta ansi há tala.

Upplýsingarnar eru í skjali þar sem greint er frá því að Almenna leigufélagið hafi í árslok í fyrra tekið ákvörðun um að hækka hlutafé sitt um rúmlega 600 milljónir króna að nafnverði með því að móðurfélag þess, Almenna leigufélagið eignarhaldssjóður, lagði fram eignir átta eignarhaldsfélaga sem halda utan um íbúðirnar sem GAMMA hefur keypt. Þetta hlutafé var svo selt á genginu 10 eða á ríflega 6.4 milljarða króna í heildina. Jafnframt tók Almenna leigufélagið yfir skuldir upp á ríflega 1200 milljónir króna og veitti 400 milljóna króna víkjandi lán.

Almenna leigufélagið er fyrir vikið miklu sterkara fyrirtæki en ella þar sem hlutafé félagsins er nú nærri fjórfalt hærra en það var fyrir. Gísli Hauksson, þáverandi forstjóri GAMMA og núverandi stjórnarformaður, sagði við Fréttatímann í árslok í fyrra að til stæði að skrá Almenna leigufélagið á markað á þessu ári og að leigutími íbúða félagsins yrði hækkaður upp í fimm ár. Aðspurður um hlutafjáraukninguna segir Gísli í svari í tölvupósti að hann sé í fríi og geti því ekki svarað spurningum um málið.

Sérfræðingur á fjármálamarkaði, sem Fréttatíminn bar hlutafjáraukninguna undir, segir að líklegast sé að Gamma sé með þessu að safna mörgum fjárfestingum saman í eina stóra fjárfestingu, í þessu tilfelli Almenna leigufélagið. Hann segir að aðgerðin sé liður undirbúningi að skráningu Almenna leigufélagsins á markað þar sem uppbygging félagsins verði einfaldari fyrir vikið. Sérfræðingurinn segir að líklegt sé að Almenna leigufélagið verði svo endurfjármagnað með útgáfu skuldabréfa til að lækka vaxtakostnað fyrirtækisins. Þegar fyrirtækið verður skráð á markað munu hluthafar þess svo geta selt hluti sína í félaginu og eftir atvikum grætt háar fjárhæðir á íbúðaviðskiptunum.

Stærstu leigufélög Íslands:

Nafn                                                                 Fjöldi íbúða                              
Heimavellir:                                                       2100 – 308 eru í byggingu
Almenna leigufélagið GAMMA:                    1100 íbúðir
Ásbrú ehf:                                                           470 íbúðir
BK Eignir:                                                          400 íbúðir
                                          
Samtals:                                                        4070 íbúðir

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.