Deila

Gott að skila skömminni til lögreglunnar

„Þetta var ekkert annað en ofbeldi,“ segir Guðmundur R. Guðlaugsson en honum voru dæmdar 2 milljónir í skaðabætur í Hæstarétti í gær vegna ólögmætrar handtöku og gæsluvarðhalds. „Ég gat ekki gert að því að ég glotti þegar ég sá einn þessara lögreglumanna leiddan fyrir héraðsdóm vegna spillingarmála.“

„Upphaflega var ég fullur af reiði og hatri, núna finnst mér lögreglumennirnir sem komu svona fram við mig vera aumkunarverðir menn,“ segir Guðmundur R. Guðlaugsson sem sat saklaus í 11 daga í gæsluvarðhaldi og einangrun á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í apríl 2010.

Hæstiréttur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða honum tvær milljónir í skaðabætur, enda hafi vistunin verið vanvirðandi, valdið andlegum þjáningum og leitt til alvarlegs álitshnekkis. Þá hafi lögreglan brotið á honum með saknæmum hætti þegar hann var settur tvívegis í handjárn þótt ekkert benti til þess að hann myndi sýna mótþróa.
Guðmundur er fráskilinn faðir þriggja drengja. Sá í miðið hafði átt erfitt frá barnsaldri vegna ofvirkni og leiddist seinna út í misnotkun fíkniefna. Sonurinn hafði þó haldið sig frá vandræðum um nokkurt skeið þegar lögreglumenn börðu upp á heima hjá föður hans eitt kvöldið: „Ég man að ég hugsaði, hvaða bölvuðu vandræði er strákurinn núna búinn að koma sér í.“
Handtakan kom honum algerlega í opna skjöldu. Hann fékk heldur aldrei að sjá nein gögn fyrr en fimm vikum eftir handtökuna.”Mér var bara  hent inn í sex fermetra grænmálaðan kassa, sem er byggður þannig að það er hægt að smúla hann eins og skipsdekk.“

Guðmundur lýsti því fyrir dómi hvernig það hefði verið að vera samfellt í einangrun í ellefu daga á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, í gluggalausum klefa, þar sem ljós logaði allan sólarhringinn og hávaði barst að utan frá ölvuðu fólki sem var verið að færa í fangageymslur. „Ég fór aldrei út undir bert loft allan þennan tíma, en ég fékk að reykja nokkrum sinnum á dag, á þröngum gangi. Ég vissi varla mun á nóttu eða degi, nema vegna hávaðans sem barst inn á næturnar, Það var öskrandi eða grátandi fólk sem lamdi og sparkaði í hurðir. Þá hrökk ég upp ef ég hafði náð að festa svefn á annað borð.“

Auglýsing

Hann segir að margir fangaverðirnir hafi örugglega verið ágætis fólk sem hafi reynt að gera sitt besta. „En það er enginn sem talar við þig. Ég sat þarna meira og minna einn, í grænmáluðum klefa, á steinsteyptum bedda með fimm millimetra gúmmídýnu og einfalt teppi til að breiða yfir mig. Ég reyndi bara að anda rólega inn og út og hugsa ekki neitt. Þegar ég fékk matinn þurfti ég að borða hann á beddanum eða sitja á gólfinu, oft var honum bara rennt inn til mín á bakka. Öll samskipti voru í lágmarki. Þetta voru skelfilegar aðstæður og í raun ekkert annað en pyntingar.“

32612 Gudmundur 03605
Samkvæmt dómi Hæstaréttar hefði einungis verið heimilt að halda honum í sólarhring við þessar aðstæður. Þá hefði lögreglan getað gengið úr skugga um það með einföldu forprófi að hann væri ekki flæktur í málið. Honum hafi því verið haldið föngnum í átta daga að ósekju, Þetta sé algerlega óverjandi og vafi leiki á því hvort yfirhöfuð sé heimilt að vista gæsluvarðhaldsfanga við þær aðstæður sem séu á Hverfisgötu. Guðmundur segist hafa spurt lögreglumennina hvað eftir annað, af hverju þeir væru að halda sér í fangelsi, en þeir hafi svarað. „Þú hlýtur að vita það sjálfur.“ Blöðin skrifuðu um gæsluvarðhaldið og kókaínmál sem feðgarnir áttu að vera flæktir í og nafngreindi þá báða. „Sonur minn var 23 ára, hann er ekki með milljarða veltu í eiturlyfjabransanum. Þetta var orðið súrrealískt,“ segir Guðmundur. Lögreglan náði ekki í soninn og hélt föðurnum inni til að ná til hans. Þeir spurðu mig aldrei út í nein fíkniefnaviðskipti enda var ég greinilega aldrei grunaður um nein tengsl við málið.”

Guðmundur, sem í dag er um sextugt, var í góðu starfi sem framleiðslustjóri en í kjölfar málsins gerði hann hinsvegar starfslokasamning. Þáverandi yfirmaður hans bar fyrir dómi að ástæðan hafi verið handtaka og gæsluvarðhaldi vegna gruns um fíkniefnamisferli. Tveimur mánuðum síðan felldi lögreglan málið gegn honum niður.„Það blasti við mér allt önnur veröld þegar ég kom úr fangelsinu, ég var atvinnulaus, hræddur við fólk og fullur af skömm. Ég gat ekki horfst í augu við nágrannana og hélt mig meira eða minna út af fyrir mig, þar til ég neyddist til að flytja í íbúð á vegum félagsþjónustunnar af fjárhagsástæðum.“ Hann hefur verið frá vinnu síðan þetta gerðist og glímt við alvarlega andlega vanlíðan. „Smám saman varð ég alvarlega kvíðinn og þunglyndur. Í dag er ég greindur með alvarlega áfallastreituröskun og geng til sálfræðings tvisvar í viku.“

Guðmundur segir að aldrei verði hægt að bæta sér það sem fór úrskeiðis. Hæstiréttur hafi auk þess ekki fallist á að bæta honum upp töpuð vinnulaun. „Það er hinsvegar gott að vinna málið og skila skömminni til þessara lögreglumanna sem fóru svona að ráði sínu. Þeir misnotuðu stöðu sína og beittu mig ofbeldi í langan tíma án þess að ég gæti varist. Það er viðurkennt með dómi að þeir fóru fram gegn mér með ólögmætum og saknæmum hætti. Það er talsverður sigur.“

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.