Deila

Hægt að veðja um allt í íslenskum fótbolta

Áhugi erlendra veðmála-netsíðna á íslenskri knattspyrnu er heilmikill og eykst ár frá ári. Nýleg rannsókn á þátttöku leikmanna íslenskra leikmanna félagsliða í knattspyrnu leiðir í ljós að nokkur hópur leikmanna stundar veðmál reglulega og veðjar jafnvel á úrslit í eigin deild og á eigin leiki.

Daníel Þór Ólason, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands, hefur stundað rannsóknir á þátttöku Íslendinga í peningaspilum frá árinu 2002, en þær rannsóknir hafa beinst bæði að unglingum og fullorðnum. „Þessar rannsóknir hafa sýnt að það er ákveðinn hluti Íslendinga sem á við verulegan spilavanda að stríða og síðasta rannsókn frá 2011 benti til að það væri um tvö og hálft prósent þjóðarinnar,“ segir Daníel Þór.

Daníel Þór Ólason hefur í rannsóknum fylgst með þátttöku landsmanna í peningaspilum. Hann segir mikilvægt fyrir knattspyrnuhreyfinguna að vera á varðbergi þegar kemur að trúverðugleika íþróttarinnar. Mynd: Hari.
Daníel Þór Ólason hefur í rannsóknum fylgst með þátttöku landsmanna í peningaspilum. Hann segir mikilvægt fyrir knattspyrnuhreyfinguna að vera á varðbergi þegar kemur að trúverðugleika íþróttarinnar. Mynd: Hari.

Nýja pókerfárið

Nú hafa Daníel Þór og samstarfsmenn hans unnið rannsókn sem sérstaklega snýr að knattspyrnumönnum íslenskra félagsliða í meistaraflokki og þátttöku þeirra í peningaspilum. „Fyrri rannsóknir okkar hafa sýnt að spilavandi er almennt algengari hjá ungu fólki og unglingum. Erlendis, til dæmis á ráðstefnum, hefur maður síðan orðið var við að undanförnu að íþróttaveðmálum hefur vaxið mjög fiskur um hrygg. Það er gríðarleg aukning á þessu sviði og þannig er hægt í rauntíma að veðja um einstök atvik í ýmsum íþróttagreinum, en knattspyrnan er vinsælust. Ég hef stundum talað um að þetta sé „nýja pókerfárið“ og sambærilegt við það þegar netpóker naut gríðarlegra vinsælda eftir aldamótin, en það fár virðist vera á nokkru undanhaldi.“

Auglýsing

Áhugi á íslenskri knattspyrnu

Daníel segir að íslensk knattspyrna í öllum deildum meistaraflokks karla og kvenna og jafnvel líka í öðrum flokki sé vinsæl þegar kemur að netveðmálum. „Þetta helgast ekki síst af þeirri staðreynd að hér er leikið á sumrin á meðan leikmenn í mörgum öðrum knattspyrnudeildum eru í fríi.

Í rannsókninni reyndum við að ná til sem flestra af þeim rúmlega tvö þúsund leikmönnum sem eru í öllum fimm karladeildum íslenska fótboltans í meistaraflokki og kvennadeildunum tveimur. Leikmenn á leikskýrslum, átján ára og eldri, skilgreindum við sem þýði og að lokum fengum við gild svör við könnun okkar frá 725 leikmönnum, en þar af voru 547 karlar og 178 konur. Meðalaldur þátttakenda var 23 ár.“

Daníel segir markmið rannsóknarinnar hafa verið þríþætt: að kanna algengi spilavanda hjá leikmönnum, kanna umfang veðmála hjá þessum hópi á leiki í eigin deild eða jafnvel leiki sem viðkomandi tók þátt í sjálfur og loks að kanna hvort leikmenn hafi veitt upplýsingar um leiki og lið til þriðja aðila.

„Mér skilst að Evrópska knattspyrnusambandið hafi nokkrar áhyggjur af hagræðingu úrslita í fótboltaleikjum. Í ljósi þess að víða um heim er verið að veðja á leiki í íslenskri knattspyrnu þótti okkur vert að kanna þessi atriði.“

Karlarnir veðja

Þegar kemur að því að veðja á úrslit íþróttakappleikja eru það fyrst og fremst karlar í leikmannahópnum sem að virðast stunda þau veðmál hér á landi. „Meðal leikmanna eru knattspyrnuveðmál vinsælustu peningaspilin ólíkt því sem gengur og gerist hjá almenningi, sem velur frekar lottó og happdrætti. Það er kannski eðlilegt í ljósi þess að þessi hópur telur sig hafa nokkurt vit á þessum málum,“ segir Daníel Þór.

„Leikmenn nota fyrst og fremst erlendar vefsíður en ekki Íslenska getspá til að veðja á íslenska og erlenda leiki, en fleiri hundruð slíkar síður má finna á netinu. Þar er úrval af leikjum meira og hægt að veðja um fleiri einstök atriði í framvindu leiksins.“

Daníel segir niðurstöðurnar sýna að 2,4 prósent leikmanna séu líklega haldnir spilafíkn. „Síðan tökum við saman það sem við köllum „nokkur hætta á vanda“ og þá hækkar þessi tala upp í 9,6 prósent. Þetta eru fyrst og fremst karlar, því að við fundum ekki dæmi um nema eina konu í þeim hópi af þeim 178 sem svöruðu könnuninni. Þetta eru nokkuð hærri tölur hjá leikmönnum en hjá sama aldurshópi, ef horft er á þjóðina alla.“

Hagræðing úrslita

Í könnuninni sagðist um helmingur svarenda vita til þess að leikmenn væru að veðja á úrslit í eigin deild. Þeir voru líka spurðir hvort þeir vissu til þess að leikmenn væru að veðja á úrslit eigin leikja og þá sögðust 23 prósent svarenda vita til þess.

„Þegar leikmenn sem veðja á úrslit knattspyrnuleikja á erlendum vefsíðum eru spurðir sömu spurninga kemur í ljós í heildina hafa um 7 prósent úrtaks veðjað á úrslit í leikjum sem þeir hafa sjálfir spilað. Ef aðeins hópur þeirra sem stunda veðmál reglulega er skoðaður hækkar þessi tala og þá kemur í ljós að um fimmtungur þeirra sem stunda veðmál á erlendum vefsíðum hefur veðjað á sinn eigin leik. Og þarna eru greinileg tengsl við tíðni þátttöku, því virkari sem menn eru í slíkum veðmálum þeim líklegri voru þeir að hafa veðjað á sinn eigin leik.“

Að íslenskri knattspyrnu steðjar nokkur ógn að slíkum veðmálum, segir Daníel að ljóst megi vera. Rannsóknin, sem kynnt hefur verið KSÍ, sýni jafnframt að útsendarar erlendra vefsíðna séu að leita til íslenskra leikmanna til að gefa upplýsingar um stöðu liða og leikmanna.

„Það er ljóst að það er ákveðin hætta á að menn freistist til að hafa áhrif á leik sem þeir spila sjálfir en eru jafnframt að veðja á. Þarna er hægt að veðja um einstök atriði, jafnvel nákvæm atriði í framvindu leiksins, til dæmis hvort liðið fái fyrstu hornspyrnuna og svo framvegis. Á þessum síðum er hægt að veðja um tugi atvika í hverjum leik og því eru í raun engin takmörk sett hvað mönnum dettur í hug að finna sem tilefni veðmáls.

Þarna geta leynst freistingar og geta jafnvel grafið undir trúverðugleika íþróttarinnar ef knattspyrnuhreyfingin er ekki á varðbergi,“ segir Daníel Þór en bendir jafnframt á að niðurstöður rannsóknarinnar segi ekkert til um hvort hér hafi hagræðing úrslita átt sér stað. „Hins vegar er full ástæða til að taka niðurstöðurnar alvarlega og brýnt að þeir sem vinna á þessu sviði árétti fyrir leikmönnum að vera ekki að veðja á eigin leiki eða leiki í eigin deild.“

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.