Deila

Hafa kvartað við Ikea í mörg ár út af meðferð Samskipa á flutningabílstjórum

Verkalýðsfélög í Svíþjóð hafa þrýst á Ikea um árabil vegna vinnuaðbúnaðar vörubílstjóra hjá undirverktökum fyrirtækisins

Verkalýðsfélög í Svíþjóð hafa kvartað og gagnrýnt húsgagnafyrirtækið Ikea í mörg ár út af vinnuaðstæðum og lágum launum flutningabílstjóra sem vinna fyrir Ikea. Íslenska flutningafyrirtækið Samskip er eitt af flutningafyrirtækjunum sem keyra vörur fyrir Ikea, ásamt DHL og Bring, og beinist gagnrýnin meðal annars að þessum fyrirtækjum. Þetta kemur fram í sænska blaðinu Dagens Nyheter. Samskip er eitt stærsta fyrirtæki Íslands og er með meira en 90 milljarða tekjur.
Haft er eftir Magnus Falk, hjá verkalýðsfélagi vörubílstjóra í Svíþjóð, að tveggja ára tilraunir félagsins til að fá Ikea til að reyna að bæta vinnuaðstöðu vörubílstjóranna, sem margir koma frá fátækum löndum í Austur-Evrópu eins og Rúmeníu, hafi engum árangri skilað. Eins og greint var frá í fjölmiðlum í byrjun mars hefur stærsta verkalýðsfélag Hollands kært Samskip fyrir að greiða flutningabílstjórum laun sem eru langt undir löglegum lágmarkslaunum.
Í máli Magnus Falk kemur fram að skýringar Ikea séu meðal annars á þá leið að erfiðlega geti gengið fyrir fyrirtækið að vita hvernig vinnuaðstæður séu hjá undirverktökum eins og Samskipum sem ráðnir eru til verka. „Ikea ræður flutningsfyrirtæki sem vinnur svo með undirverktökum. Við höfum dæmi um keðjur af undirverktökum þar sem eru 10 aðilar. Það er alveg ljóst að Ikea getur ekki haft eftirlit með hverjum aðila, jafnvel þó Ikea borgi hátt verð fyrir þjónustuna þá er ekki mikið eftir þegar peningarnir hafa farið í gegnum 7 til 8 undirverktaka.“
Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, segist ekki vita til þess að Ikea hafi verið í sambandi við Samskip út af gagnrýni verkalýðsfélaganna. Hann segir að Ikea hafi gert innri úttekt á starfsemi Samskipa áður en samið var við fyrirtækið. „Ikea er með sína innri verkferla til að tryggja að þeirra undirverktakar, meðal annars við, uppfylli þeirra kröfur. Við erum með vottorð frá Ikea um að við stöndumst slíkar kröfur frá þeim.“

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.