Heilsutíminn

Að „berjast“ við aldurinn

Það er ljóst að öll eldumst við, en það er ekki sama hvernig við förum að því. Sumir verða gamlir fyrir aldur fram, aðrir eru alltaf ungir, burtséð frá hrukkunum og hrörnuninni sem á sér stað með tímanum. Þá eru þeir sem eru svo heppnir að halda heilsu og vera virkir, á meðan hinir slitna og veikjast. Allt er þetta hluti af lífinu, en það er líka val hvers og eins upp að vissu marki. Samspil andlegrar og líkamlegrar vellíðunar er flestum augljóst og óteljandi atriði sem geta haft áhrif á hvoru tveggja. Það er eitthvað fallegt við það sjá fólk njóta lífsins, sama á hvaða aldri það er. Því fylgir líka oft öfund og vanlíðan hjá þeim sem annars vegar ekki tekst það og svo hinum sem geta það ekki einhverra hluta vegna. Svo eru það sigurvegararnir sem láta ekki brjóta sig niður og neita að gefast upp þótt á móti blási. Heilsan skiptir okkur öll gríðarlegu máli og okkur hættir til að þykja það sjálfsagt að geta gengið, borðað, talað, sofið og hugsað skýrt. Það er ekki fyrr en við missum eitthvað sem við áttum okkur á því hversu mikilvægt það var okkur. Hluti af því að taka stjórn á eigin lífi og líðan felst í núvitund og æðruleysi auk þess að láta gott af sér leiða sem oftast. Það þarf ekki að vera merkilegt, oft er nóg að sýna áhuga, spyrja spurninga, brosa, taka utan um náungann og hrósa. Nýta þau tækifæri sem gefast til að hlæja og varðveita barnið í sjálfum sér. Þessi einföldu atriði skipta máli til viðbótar við mataræði og hreyfingu að sjálfsögðu.

Heilsuumfjöllun í Fréttatímanum eflist

Umfjöllun um heilsu í Fréttatímanum mun aukast með haustinu. Fréttatíminn hefur hafið samstarf við sjónvarpsstöðina Hringbraut og doktor.is. Sjónvarpsþátturinn Heilsutíminn verður sýndur á mánudagskvöldum á Hringbraut í vetur. Auk þess mun Teitur Guðmundsson læknir ganga til liðs við Heilsutímann og vera með fasta pistla í blaðinu og í sjónvarpsþættinum. Heilsutíminn verður hér eftir í Fréttatímanum eins og áður og á heimasíðu Fréttatímans. Sjónvarpsþátturinn verður frumsýndur á mánudagskvöldum klukkan 20 og endursýndur nokkrum sinnum í vikunni. Umsjónarmaður með þáttunum er Gígja Þórðardóttir sjúkraþjálfari. Hún mun einnig hafa yfirumsjón með Heilsutímanum í Fréttatímanum. Í Heilsutímanum verður fjallað um allt það nýjasta í heilsurækt og hvað fólk getur gert til að efla sjálft sig. „Þar verður meðal annars farið yfir nýjar rannsóknir í heilsugeiranum, viðtöl við fagfólk og gefin góð ráð til lesenda varðandi mataræði, hugarfar, hreyfingu og margt fleira,“ segir Gígja. „Við munum einnig kynnast ýmsum heilsueflandi námskeiðum og fjalla nánar um heilsutengd efni sem við höfum tekið fyrir í blaðinu, líkt og heilsu móður og barns, svo dæmi sé tekið.“

Tengsl milli mígrenis og aukinnar dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma

Mígreni er sérstök tegund höfuðverkja og talið er að um 6% karla og 18% kvenna þjást af mígreni hér á landi. Ekki er um hefðbundinn höfuðverk að ræða heldur ákafan verk sem getur haft áhrif á lífsgæði og vinnufærni. Mörgum spurningum er ósvarað um orsakir mígrenis og hafa margar rannsóknir sýnt fram á tengsl mígrenis við aðra sjúkdóma. Lárus Steinþór Guðmundsson, doktor í líf- og læknavísindum frá Læknadeild Háskóla Íslands, hefur rannsakað og sýnt fram á tengsl mígrenis við dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Í doktorsritgerð hans frá árinu 2010 kemur fram að mígreni sé þó vægari áhættuþáttur en til dæmis reykingar, sykursýki og háþrýstingur. 

Erum að vakna til meðvitundar

„Offita er áhættuþáttur og sjúkdómur sem við þurfum að bregðast við. Offita er fyrst og fremst heilsufarsvandamál sem leiðir til margra annarra sjúkdóma.“ Þetta segir Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir og formaður Félags fagfólks um offitu, en hún segir að með aukinni þátttöku á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar sé hægt að ná tökum á þeirri miklu heilsufarsógn sem offita er.

Yfir milljón í krabbameinskostnað á einu ári

Líf hjónanna Jóns Þórs Guðbjörnssonar og Guðnýjar Óskar Þórsdóttur tók stakkaskiptum á örfáum mánuðum þegar Jón Þór greindist með krabbamein sem þurfti að meðhöndla fljótt. Á einu ári greiddu þau yfir milljón í margvíslegan kostnað. Þau segja að mikil þörf sé á að endurskoða greiðsluþátttöku krabbameinssjúkra í heilbrigðiskerfinu.

Karlmenn þurfa líka að gera grindarbotnsæfingar

Haukur Guðmundsson starfar sem sjúkraþjálfari hjá Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Hann segir sífellt fleiri karlmenn sækja endurhæfingu í Ljósið. Þar sé líkaminn byggður upp en ekki sé síður mikilvægt að karlmenn hafi vettvang til að ræða opinskátt meðal jafningja um viðkvæm málefni. Sumir karlmenn eigi erfitt með að ræða við maka sinn sem getur valdið togstreitu í samböndum.

Karlar fái sama rétt og konur

Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein karla og á hverju ári greinast um 210 íslenskir karlar með sjúkdóminn. Hannes Ívarsson greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli fyrir tveimur og hálfu ári. Hannes fór fljótlega í vel heppnaða aðgerð þar sem kirtillinn var fjarlægður. Í endurhæfingunni fór Hannes hins vegar að rekast á ýmis atriði sem honum fannst óásættanleg. Meðal þess sem hann komst að var að karlar hafa ekki sömu réttindi og konur þegar kemur að niðurgreiðslu lyfja eftir krabbameinsmeðferð. Hann hefur því ákveðið að fara í mál við ríkið og vonast til þess að karlmenn fái sömu réttindi og konur í þessum efnum.