Deila

Hungurverkfall í 19 daga

„Hann hefur breyst, hann er þögull og liggur bara í rúminu allan daginn,“ segir vinur Abdolhamad Rahami frá Afganistan. Abdolhamad hefur verið í hungurverkfalli í 19 daga frá því ljóst varð að honum yrði vísað aftur til Grikklands. Þar var hann í mörg ár, fyrst í flóttamannabúðum, sem eru nánast fangelsi, víggirt með vopnuðum vörðum, en síðan á götunni.

Staða Abdolhamid Rahmani er hræðileg og hann á enga von um að neitt breytist því miður, þar sem hann var þegar með hæli í Grikklandi,“ segir Eva Dóra Kolbrúnardóttir, lögmaður hans. Hún segir fjölda fólks í þessum sporum og í sífellu sé verið að senda fólk til Grikklands, Ítalíu eða Ungverjalands þar sem það fái enga aðstoð, engan stað að búa og enga framfærslu. Það lendi í hryllilegum flóttamannabúðum eða á götunni.
Lögreglan hefur þegar haft samband við hann, líklega til að segja honum að það standi til að flytja hann úr landi en það getur hann ekki vitað því hann skilur enga ensku. „Við erum að reyna að láta hann drekka vatn á hverjum degi,“ segir vinur hans. „Meira getum við ekki gert en honum líður ákaflega illa.“
Abdolhamid kom hingað í ágúst í fyrra en fyrir þann tíma hafði hann dvalið um árabil í Grikklandi við illan kost. Útlendingastofnun synjaði beiðni hans um hæli í október 2016, málið var kært en úrskurðarnefndin staðfesti synjunina í nóvember. Lögmaður hans bað um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndarinnar, til að skoða hvort hægt væri að reka málið fyrir dómstólum. Því var einnig synjað í febrúar og hans bíður nú bara brottflutningur úr landi.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.