Deila

Íslendingar geta líka verið öðruvísi

Ljósmyndarinn Georg Leite vinnur nú að ljósmyndabók þar sem hann myndar blandaða Íslendinga með annað foreldrið íslenskt og hitt erlent. Georg, sem hefur búið á Íslandi í 19 ár, vonast með þessu að sér takist að sýna fjölbreytileika Íslendinga.

„Ég er alltaf að fá spurningar um hvaðan ég sé og það er ekkert mál því ég er frá Brasilíu. En ég fór að velta fyrir mér hvernig þetta sé fyrir fólk sem á heima í sínu eigin landi en er samt alltaf að fá spurningar um hvaðan það komi,“ segir Georg sem ætlar að mynda 60 einstaklinga fyrir bókina, sem kemur líklega út í sumar. „Allir sem eru í bókinni eru hálf íslenskir og eiga mömmu eða pabba frá öðrum löndum. Ég er að reyna að finna út hver reynsla þeirra er og leita að fólki sem er utan þessarar íslensku steríótýpu.“

Georg er nú þegar búinn að mynda 45 einstaklinga frá 24 mismunandi löndum, þar á meðal Tansaníu, Marokkó, Líbanon, Kólumbíu, Brasilíu, og víðar. Hann tekur líka stutt viðtöl við fólkið um reynslu þess af íslensku samfélagi og leitast eftir að finna út hvort því finnist stundum eins og litið sé á það eins og útlendinga í eigin landi. Bókin, sem kemur út í sumar, mun líklega hljóta nafnið The New Face of Iceland, þó Georg sé ekki enn búinn að taka endanlega ákvörðun um nafngiftina.
Að sögn hans eru nær allir sem hann talaði við aldir upp á Íslandi þó örfáir hafi flutt til landsins síðar meir. „Það er líka eitthvað sem ég er að skrifa um, hvernig þessi menning hefur áhrif á íslenskt samfélag. Hvað þetta fólk og uppruni þess kemur með til Íslands sem er jákvætt.“

32525 Georg 03434

Myndir/Hari

Georg hefur búið hér á landi frá því árið 1998. Hann fór þó heim til Brasilíu árið 2012 og lagði stund á ljósmyndun. Georg á dóttur með íslenskri konu og segist hann því sjálfur taka eftir því hvernig sjálfsmynd dóttur hans breytist vegna hugmynda annarra um uppruna hennar. „Dóttir mín sagði alltaf að hún væri íslensk þegar hún var spurð, en svo tók ég eftir því að hún er farin að segjast vera hálf íslensk og hálf brasilísk og ég fór að pæla í af hverju. Þá sagðist hún ekki nenna að útskýra þetta alltaf fyrir fólki sem væri að spyrja hana.“

Auglýsing

32563 - ruri

Rúrí á grískan föður og íslenska móður. Mynd/Georg Leite
Að sögn Georgs hefur fólkið sem hann hefur myndað þó ólík tengsl við hitt landið. Sumir hafa jafnvel ekki komið þangað en flestir virðast þó tengja sterkt við bæði löndin. „Ég tók viðtal við stelpu sem hafði aldrei farið til föðurlandsins og þegar ég spurði hana út í tengslin við landið sagðist hún ekki hafa nein. Svo fór hún heim og talaði við mömmu sína. Hún hringdi svo í mig tveimur vikum seinna og sagðist vera búin að vera með þessa spurningu í hausnum í tvær vikur og sagðist víst hafa tengingu þangað. Hún hefði áhrif á hvernig hún hagaði sér og hugsaði.“

Georg segist sjá fyrir sér að með bókinni fari fólk að horfa á þetta fólk, sem lítur öðruvísi út, með meiri virðingu. Það sé truflandi að passa ekki inn í boxið í eigin heimalandi. „Það að fólk líti alltaf á þig sem útlending, sem þú ert ekki. Íslendingar geta líka verið öðruvísi.“

 

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.