Deila

Íslenskan heitasta tungumálið

Truenorth framleiðir nýja glæpaþætti eftir bókum Stefáns Mána og áhugi erlendra aðila er mjög mikill

Framleiðslufyrirtækið Truenorth hefur tryggt sér réttinn að sjónvarpsþáttum eftir bókum glæpasagnarithöfundarins Stefáns Mána, sem fjalla um lögreglumanninn Hörð Grímsson. Til stendur að framleiða fleiri en eina seríu og hefjast tökur á næsta eða þarnæsta ári.

Þeir sem hafa lesið bækur Stefáns Mána kannast eflaust við lýsingarnar á stórum og miklum lögreglumanninnum, með úfna rauða hárið, sem klæðist ávallt síðum leðurfrakka.
„Það er ekkert ákveðið hvern við fáum til að leika Hörð en honum er lýst á þann hátt að það koma ekki margir til greina. Við þurfum hins vegar ekki að fylgja lýsingunum alveg eftir. Það breikkar svolítið valið okkar,“ segir Kristinn Þórðarson, framleiðandi hjá Truenorth, en verkefnið er unnið í samstarfi Mystery Productions. „Ólafur Darri er líklega sá eini sem kæmist nálægt Herði í útliti, en þar sem hann er nú í aðalhlutverki í Ófærð þá getum við því miður ekki notað hann. Þó að hann sé frábær leikari. Ég hefði svo sannarlega viljað fá hann, en það gengur ekki að hafa hann í öllum seríum landsins í svipuðu hlutverki,“ segir Kristinn. Það verður því einhver annar leikari sem fær hið verðuga verkefni að túlka Hörð.

1941 stefan_mani037

Aðspurður hvort serían verði sýnd með hefðbundum hætti þar sem einn þáttur kemur í hverri viku í línulegu sjónvarpi eða hvort hún verði öll tekin til sýninga í einu, eins og er orðið vinsælt í efnisveitum eins og Netflix og Sjónvarpi Símans, segir Kristinn það enn óvíst. Enda hefur ekki verið ákveðið hvar þættirnir verða teknir til sýninga.

Auglýsing

Kristinn segist strax finna fyrir miklum áhuga á þáttunum erlendis frá, enda hafi íslenskt sjónvarpsefni verið að sanna sig á erlendum markaði síðustu árin. En það auðveldar fjármögnunina. „Það er gríðarlegur áhugi hjá nokkrum aðilum erlendis á Stefáni Mána og hans verkum. Við höfum talað við franska, breska og þýska aðila með þessa seríu.“

Kristinn hitti einmitt þýskan framleiðanda um daginn og spurði hvort betra væri að gera þættina á ensku eða öðru tungmáli. Svarið kom honum á óvart.
„Hann sagði strax að við ættum að gera þetta á íslensku. Íslenskan selur, sérstaklega eftir Ófærð. Íslenskan er fullkomlega gjaldgeng núna. Ég hef aldrei heyrt þetta áður þegar kemur að íslenskunni og við kannski hjálpum bara til við að vernda tungumálið og breiða það út sem víðast.“

 

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.