Deila

Jólatrúnó hjá Kormáki og Skildi og fleiri ómissandi hefðir

Diljá Ámundadóttir, framkvæmdastjóri Þetta reddast ehf. og varaborgarfulltrúi, er annálað jólabarn og vinir hennar og fjölskylda bíða gjarnan eftir því að hún hefji jólaáróðurinn enda smitar hún út frá sér jólagleði alla aðventuna – og er í raun byrjuð löngu fyrr!

Diljá er nýflutt til baka í miðbæinn eftir að hafa búið í Laugardalnum í nokkur ár og ætlar sannarlega að njóta jólastemmningarinnar í bænum til hins ítrasta. Við fengum hana til þess að segja okkur frá eftirlætis miðbæjarrútínunni sinni á aðventunni.

„Þær jólagjafir sem ég versla á Íslandi versla ég á Laugaveginum. Ég versla þar sem ég vil sjá verslun. Á aðventunni fer ég inn í búðir sem ég annars fer ekki oft inn í og þar af leiðandi svolítið jólalegt að kíkja í þær. Þetta eru búðir eins og Þorsteinn Bergmann, Tösku & hanskabúðin og Kúnígúnd svo einhver dæmi séu tekin.“

Ein vel kæst á Höfninni

Auglýsing

Diljá heldur í margar hefðir tengdar mat á aðventunni. „Það er ekkert bara verið að borða á sig gat á jólunum sjálfum, heldur er þetta meira og minna frá fyrsta í aðventu. Fyrst ber að nefna árlega ferð fjölskyldunnar á jólahlaðborð á veitingastaðinn Höfnina við gamla hafnarsvæðið. Fyrir utan góðan mat þá finnst mér líka gott að fá matinn á borðið á bökkum en ekki þurfa að standa í röð og enginn að borða á sama tíma. Við fjölskyldan förum líka í skötu á sama stað á Þorláksmessu. Það koma ekki jól nema við fáum okkur eina vel kæsta á Höfninni,“ segir Diljá en einnig hefur skapast hefð hjá vinkonuhópnum að fara í jólabröns á Bergsson RE út á Granda. „Þar sitjum við í hálflokuðu rými sem við höfum út af fyrir okkur og erum með útsýni yfir alla höfnina og miðborgina.“

Að hitta Eirnýju er hátíð

„Mér finnst æðislegt hvað miðborgin er að stækka og teygir sig nú út á Granda. Fyrir litlu jól saumaklúbbanna versla ég osta í Búrinu sem er við Grandagarðinn. Að hitta á Eirnýju eiganda er hátíð út af fyrir sig. Hún leyfir mér að smakka og kennir mér á ostanna og með hverju þeir passa best.“ Diljá segir Þorláksmessu síðan vera nánast heilagri fyrir henni en sjálfur aðfangadagur. „Fyrir utan skötuna þá fer ég alltaf með æskuvinkonum mínum á Laugaveginn og eigum við yfirleitt eina gjöf eftir sem við geymum sérstaklega fyrir þessa ferð. Svo förum við í Þorláksmessuleikinn™ – en ég vil síður fara út í flóknar leikreglur hér og nú. Leikurinn á sér alltaf stað á Laugaveginum sjálfum. Yfirleitt er endað í Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar í einum Bríó eða púrtvínsstaupi. Þar læt ég Maísól (Ragnheiður Maísól Sturludóttur) og Mokka (Margréti Erlu Maack) pakka inn eins og einni gjöf fyrir mig. Og fer á jólatrúnó við fólkið sem er með sömu hefð og ég – að kíkja undir lokin á Þorláksmessu í verslunina góðu.“

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.