Deila

Lab Loki í Tjarnarbíó: Rússíbani í klukkutíma

Tveir leikarar, sem líka eru gamlir vinir, fjalla um dásamlegt tilgangsleysi lífsins í leikhúsgjörningi í Tjarnarbíói.

„Við Árni Pétur fórum tveir saman til Tenerife og byrjuðum að gera allskonar gjörninga og uppákomur á ströndinni og víðar. Þannig byrjaði þessi sýning,“ segir leikstjórinn Rúnar Guðbrandsson sem frumsýndi í vikunni leikverkið Endastöð – Upphaf í Tjarnarbíói. Verkið skrifaði hann ásamt aðalleikaranum og góðvini sínum, Árna Pétri Guðjónssyni, til að fagna afmæli leikhópsins Lab Loka, sem þeir félagar stofnuðu fyrir 25 árum. Verkið fjallar um lífshlaupið og hið guðdómlega tilgangsleysi tilverunnar og við sögu koma ekki minni viðfangsefni en upphafið, ástin og dauðinn. Til að miðla sögu sinni nota þeir félagar efni úr heimsbókmenntunum og sígildum kvikmyndum í bland við sínar eigin upplifanir og tengja þetta allt saman í mósaíkfrásögn. Sýningin verður þó aldrei alveg eins. Frumsýningin endaði til dæmis með því að líkamar þeirra voru étnir, og það gerist kannski ekki aftur.
„Þetta er eiginlega frekar sviðlistaviðburður en hefðbundin leiksýning,“ segir Rúnar. „Við stöndum á tímamótum og erum að líta til baka og horfa fram á við. Við notum vídeó, myndlist, tónlist, hljóðverk, dans og hreyfilist. Við leyfum okkur að brjóta upp öll lögmál og vinnureglur og bregðum á leik og leyfum hlutunum að gerast,“ segir Rúnar sem vonast til að tímamótin verði upphafið að einhverju nýju. „Þessi sýning er ekkert búin. Það verða uppákomur út árið, þetta er allt partur af einhverju ferli.“

euu
En af hverju ætti fólk að mæta?
„Af því að þetta er hörkuupplifun. Rússíbani í klukkutíma og af nógu að taka. Ferðalag milli himnaríkis og helvítis og allt þar á milli. Mér sýndist á viðbrögðunum á frumsýningunni í gær að fólk væri að upplifa þetta ansi sterkt og að hver og einn geti túlkað þetta út frá sjálfum sér. Við erum bara að spegla okkur í stóru spurningunum með aðferðum listarinnar.“

Auglýsing

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.