Deila

Læknirinn hafði ekki tíma til að skoða sjúklinginn

Jón Örn Pálsson liggur á Landspítanum í stífri meðferð vegna alvarlegrar liðsýkingar í hné og á þaðan ekki afturkvæmt næsta mánuðinn. Hann sér fram á að geta jafnvel endað með staurfót. Hann rekur veikindin til læknamistaka í Orkuhúsinu og segist vona að þetta sé ekki dæmi um heilbrigðiskerfið almennt á tímum vaxandi einkavæðingar.

„Um miðjan desember fór ég að finna fyrir verkjum í hné, ég hafði tekið vel á í ræktinni og datt í hug að þetta væri eitthvað álagstengt,“ segir Jón Örn Pálsson frá Tálknafirði. sem leitaði til læknis í Orkuhúsinu sem gerði á honum litla skurðaðgerð, svokallaða liðspeglun á hné. Jón Örn er 57 ára, líkamlega vel á sig kominn, þótt hann sé yfir kjörþyngd. „Ég stunda reglulega líkamsrækt, sjósund, hestamennsku og baða mig upp úr snjó þegar færi gefst. Það verður bið á því á næstunni. Ég á núna mínar verstu stundir en ég ætla að komast í gegnum þetta.“
Venjulega eru menn vinnufærir eftir fáeina daga að lokinni liðspeglun. Allt leit vel út fyrsta sólarhringinn en á öðrum degi vaknaði Jón Örn við mikinn sársauka í hnénu, sem reyndist vera stokkbólgið.

Fjallaloftið lagar ekki bólgur

„Ég hafði samband við bæklunarskurðlækninn en hann sagði mér að koma til sín, hann myndi reyna að hitta mig milli aðgerða enda var ég viðþolslaus af sársauka. Hann lét mig bíða á biðstofunni í þrjá klukkutíma, skoðaði mig síðan í nokkrar mínútur inni í einhverri myrkrakompu þar sem hann skrifaði upp á morfín og sagði mér að nota kælipoka og teygjusokk til að draga úr bólgunni. Hann taldi ekki ráðlegt að tappa af hnénu eða taka liðvökvasýni, því fylgdi svo mikil sýkingarhætta. Ekki grunaði hann að ég gæti þá þegar verið kominn með sýkingu. Nei, hann ráðlagði mér bara að fara heim til Tálknafjarðar, því sennilega hefði bara blætt inn á hnéð og það myndi lagast. Á Tálknafirði er enginn læknir og þótt fjallaloftið sé gott, lagar það ekki bólgur og verki. Eftir sex daga frá speglun varð ég því að snúa suður aftur, með óheyrilegar kvalir í fætinum.“

Auglýsing

Átti að bíða og bíta á jaxlinn

Jón Örn sneri sér aftur til læknisins í Orkuhúsinu sem sagði að það væri hætta á blóðtappa og best væri að hann kæmi suður. Þegar Jón Örn var kominn til Reykjavíkur hafði læknirinn samt engan tíma til að skoða hnéð og meta ástandið. „Það kom á óvart, en staðfesti bara að hann gerði sér enga grein fyrir hve ástand mitt var alvarlegt. Hans biðu jú sjúklingar á færibandi og mig hafði hann ekki tíma til að skoða kauplaust í annað sinn. Hann sendi mig hinsvegar í ómskoðun í Orkuhúsinu, til að ganga úr skugga um að ég væri ekki með blóðtappa en það leiddi ekkert í ljós um orsök þessa ástands. Hann gaf sér svo tíma til að hringja í mig og ráðleggja mér að vera duglegur að nota teygjusokk og taka morfínpillurnar. Ég átti að bíða og bíta á jaxlinn.“

32559 Jon 03308

Miklar líkur á staurfæti

Það var ekki fyrr en átta dögum eftir aðgerðina sem Jón Örn gafst loksins upp á því að hlíta ráðum skurðlæknisins. „Tengdafaðir minn studdi mig á slysadeildina, morfíndópaðan og ráðvilltan. Þar tók á móti mér læknir, kona. Eftir að hafa skoðað mig í nokkrar mínútur sagðist hún halda að ég væri með mjög alvarlega ígerð í fæti og kæmist varla heim til mín fyrr en í fyrsta lagi eftir 5 til 6 vikur. Hún tappaði miklum vökva af fætinum og greftri. Þá fékk ég sýklalyf í æð. Bakterían reyndist vera mjög hættuleg og éta bæði brjósk og bein. Það kom fljótlega í ljós að það væri kraftaverk ef tækist að bjarga hnénu. Það væru miklar líkur á staurfæti.“
Jón Örn segist vona að þetta sé ekki lýsandi fyrir ástandið í heilbrigðisgeiranum. „Vonandi er þetta ekki bara enn eitt dæmið um að einkavæðingin sé farin að ríða húsum í heilbrigðisgeiranum. Færibandavinna, afköst og enginn tími í heila hugsun. Sjálfsagt getur það komið fyrir að sjúklingar fái ígerð eftir aðgerðir en það er algerlega makalaust að sjúklingar fái að verða svona veikir og ástandið svona alvarlegt án þess að menn gefi sér tíma til að hitta sjúklinginn og meta ástandið.“

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.