Deila

Loftslagsmál Bandaríkjanna í algjöru uppnámi

Fulltrúar allra aðildarríkja Parísarsamkomulagsins eru nú samankomnir á ráðstefnu í Marokkó. Íslenskur samningamaður á staðnum segir algjöra óvissu ríkja um umboð bandarísku sendinefndarinnar á staðnum. Viðsnúningur hefur orðið á afstöðu Bandaríkjanna til samningsins því Trump trúir ekki á hlýnun jarðar og hefur hótað að draga Bandaríkin út úr samningnum.

hrund-hafsteinsdottir-30235
Hrund Hafsteinsdóttir í Marokkó

Obama Bandaríkjaforseti hefur á undanförnum tveimur árum beitt sér af mikilli hörku gegn hlýnun jarðar og hann átti stóran þátt í að 195 þjóðir undirrituðu hið sögulega Parísarsamkomulag sem tók gildi 4. nóvember. Í fyrra tilkynnti Obama að landsframlag Bandaríkjanna yrði að draga úr losun gróðurhúslofttegunda um 26-28% fyrir árið 2025. Donald Trump er hinsvegar mjög andsnúinn Parísarsamkomulaginu og hefur ítrekað sagt að hann muni draga Bandaríkin út úr því. „Þess vegna ríkir óvissa eftir kjör Trumps. Nú þarf að bíða átekta og sjá hvort hann standi í alvöru við að draga Bandaríkin út úr samningnum. Hann getur líka haft neikvæð áhrif á loftslagsmálin með öðrum hætti, til dæmis með því að stöðva greiðslur til umhverfisvænna verkefna innan Sameinuðu þjóðanna,“ segir Hrund Hafsteinsdóttir, samningamaður í loftslagsmálum fyrir hönd utanríkisráðuneytisins. Hún er stödd á ráðstefnunni í Marrakesh.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, er einnig í Marrakesh og óttast viðsnúning Bandaríkjanna. „Trump er með vægast sagt fjandsamleg viðhorf til samkomulagsins og afneitar loftslagsvísindunum algjörlega. Þó Obama hafi gegnt forystuhlutverki í baráttunni er hefð fyrir því að sitjandi forseti fari ekki gegn stefnu nýkjörins forseta. Þessvegna vita allir að það sem samninganefndin gerir hér á ráðstefnunni gildir bara til 20. janúar þegar Trump tekur við embættinu. Stefna þeirra er í uppnámi. Trump getur valdið talsverðum vandræðum með afstöðu sinni og einmitt þess vegna var Parísarsamkomulagið virkjað áður en forsetakjörið fór fram. Það ríki sem hefur fullgilt samninginn verður að standa við hann í allt að þrjú ár. Trump getur skaðað baráttuna með margvíslegum hætti, meðal annars með því að tala gegn loftslagsmálum.“

arni-finnssonÁrni rifjar upp að þegar George Bush var kosinn Bandaríkjaforseti árið 2000 hafi hann haft neikvæð áhrif á Kyoto-bókunina. „Þó Bandaríkin hafi verið aðilar að Kyoto-bókuninni frá 1997 dró Bush Bandaríkin út úr því ferli eftir að hann var kjörinn forseti. Kyoto-bókunin varð að alþjóðalögum þó að Bandaríkin hafi dregið sig út úr henni en það hafði veruleg áhrif á baráttuna. Trump er hinsvegar miklu hættulegri en Bush. Yfirlýsingar hans benda til að hann vinni gegn samkomulaginu og þá getum við stað frammi fyrir öðrum 5-10 árum þar sem ekkert stórvægilegt gerist í þessum efnum. Þá er baráttan töpuð og jörðin farin. Nógu tæpt stendur það núna,“ segir Árni.

Auglýsing

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.