Deila

Logi Pedro samdi J-pop tóna í Tókýó

Tónlistarmanninum Loga Pedro fannst hann vera á kominn á aðra plánetu.

„Mér leið oft eins og ég væri að krydda lögin með smá af Mezzoforte,“ segir Logi Pedro Stefánsson tónlistarmaður sem er nýkominn heim úr ferð frá Japan þar sem hann samdi svo kallað J-pop með japönskum tónlistarmönnum.

„Úton auglýsti eftir því hvort einhver hefði áhuga á að fara til Japans og semja tónlist með japönskum tónlistarmönnum og ég gat ekki látið tækifærið framhjá mér fara.“ Að sögn Loga er mikil munur á að semja fyrir íslenska og japanska tónlistarmenn. „Það eru allt aðrar pælingar í gangi hvað hrífur fólk og hvað er grípandi. Ég þurfti að rannsaka mikið áður en ég fór til þess að öðlast einhverja þekkingu á tónlistarmenningunni.“

Loga fannst magnað hvað umhverfi Japans var ólíkt Íslandi. Mynd/Rut.
Loga fannst magnað hvað umhverfi Japans var ólíkt Íslandi. Mynd/Rut.

Skildi ekki lagatextana

Auglýsing

Logi vann samkvæmt japanskri tónlistarhefð og vann mikið í hinum svokallaða J-Pop stíl.
„Tónlistarstefna eins og J-pop er seld í bílförmum í Japan. Þetta eru ákveðnir stílar og stefnur sem eru líkar vestrænni popp-menningu en samt mjög ólíkt á sama tíma. Það er vinsælt að skeyta inn enskum orðum, stundum eru heilu viðlögin á ensku. Ég skildi ekki alltaf textana á lögunum en ég fékk alltaf stikkorð og smá sögustund um hvað málið snérist.“

Ólík samskiptamynstur

„Það er magnað hvað umhverfið er öðruvísi en á Íslandi, mér fannst ég stundum vera á annarri plánetu. Ég hef ferðast mikið en hef aldrei lent í því að skilja bara ekki neitt. Allar hefðir voru öðruvísi en ég hafði kynnst áður og umhverfið líka. Ég lenti oft í því að panta mér mat en ég vissi ekkert hvað ég var að borða.“ Loga þótti vænt um að kynnast nýjum hefðum og tók sérstaklega eftir hversu mikil munur var á samskiptamynstri Japana og Íslendinga. „Eitt það merkilegasta við landið er hvað samskiptin eru allt öðruvísi. Allir voru svo hlýir og kurteisir og mér þykir mjög vænt um fólkið sem ég var að vinna með þrátt fyrir að við unnum bara saman í fimm daga.“

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.