Deila

Breytti um lífsstíl og losnaði við lyfin

Sólveig var orðin alltof þung og mjög veik af MS sjúkdómnum þegar hún breytti um lífsstíl. Hún er nú 50 kílóum léttari en þegar hún var hvað þyngst, en mestu máli finnst henni skipta að hafa öðlast nýtt líf án lyfja. Kílóin sem fuku voru bara bónus.

Fyrir tæpum fimm árum var Sólveig Sigurðardóttir alltof þung og mjög veik af MS sjúkdómnum. Hún var föst í vítahring sem hún kunni ekki að koma sér út úr þegar hún sá umfjöllun um Heilsuborg í sjónvarpinu. Hún sá að þar var boðið upp á heildstæða þjónustu fagaðila og leið að betri heilsu. Hana langaði að skrá sig og mæta á kynningarfund, en þorði það ekki. Þetta var stórt skref fyrir hana.

„Ég skráði mig á endanum og mætti, en guð minn góður ég skammaðist mín svo mikið. Mér fannst þetta hræðilegt. Ég átti engin leikfimiföt og þau voru ófáanleg í svona stórum stærðum. Ég var ekki komin þangað í megrun, ég fékk strax að vita það. Þegar maður er orðin svona þungur og veikur þá þarf maður allt öðruvísi hjálp heldur eitthvert átak. Ég þurfti að læra hlutina upp á nýtt og hjá Heilsuborg hafði ég aðgang að læknum, hjúkrunafræðingum, næringarfræðingum og sálfræðingum,“ útskýrir Sólveig.

Þetta átti ekki að vera hægt

Auglýsing

Þetta var akkúrat það sem hún þurfti. Henni tókst að breyta algjörlega um lífsstíl og hefur náð að viðhalda honum síðustu ár ásamt því að bæta sífellt við sig meiri þekkingu. Nú er hún sjálf farin að starfa fyrir Heilsuborg og breiðir út boðskapinn um heilbrigðan lífsstíl á bloggsíðu sinni og facebook ásamt því að vera í sjúklingasamtökum EASO – European Association for the study of obesity.

„Það eru fimmtíu kíló sem eru farin, en það sem mér finnst best við að hafa breytt um lífsstíl, það er að hafa eignast nýtt líf og verða lyfjalaus. Ég var á mörgum lyfjum út af MS sjúkdómum. Meðal annars til að halda mér vakandi, svo ég gæti sofið og sérstökum MS lyfjum sem ég þurfti að sprauta mig með einu sinni í viku. Svo tók ég verkjalyf alla daga til að halda verkjunum í skefjum. Í dag tek ég ekki neitt af þessum lyfjum. Það er svo frábær tilfinning að hafa byggt upp líkama sem var nánast ónýtur. Þetta átti ekki að vera hægt.“

Sólveig hafði reynt ýmsar lausnir áður en hún tók skrefið og fór í Heilsuborg, en fannst ekkert virka. „Ég keypti mér reglulega líkamsræktarkort, eins og svo margir, og var búin að prófa allt. Ég er meistari í megrunum og byrjaði snemma. Sem ég lítið barn þá fór ég með mömmu í megrunarmiðstöðina Línuna þar sem maður var vigtaður og púað eða klappað eftir því hvort grömmin höfðu farið upp eða niður.“

31404-solveig-06915

Fór að þyngjast eftir slys

Sólveig segist þó í raun alls ekki hafa verið feitur krakki. Það var ekki fyrr en hún lenti í bílslysi þegar hún var 10 ára og það brotnuðu þrír hryggjarliðir í bakinu á henni að hún fór að þyngjast, enda var hún látin liggja mikið fyrir og mátti lítið gera. Nokkrum árum síðar, þegar hún var farin að geta hreyft sig meira, lenti hún svo í skíðaslysi þar sem annað hnéð brotnaði og hinn fóturinn brákaðist. Þá tók við enn meiri hvíld og kílóunum fjölgaði.

„Upp frá því var ég alltaf mjög þung. Mér tókst reyndar að fara upp og niður og náði kílóunum af mér með því að svelta mig í megrunarkúrum. En þegar ég lít til baka þá finnst mér þetta hafa verið ofbeldi. Það er ógeðsleg aðferð að létta sig með þessum hætti.“

Sólveig greindist með MS sjúkdóminn þegar hún var þrítug og þurfti þá aðeins að fara að hlusta á líkamann. Hún þurfti að minnka við sig vinnu og hvílast vel. „En þá fór ég að hlaða meira á mig. Ég gat lítið hreyft mig og varð rosalega veik af sjúkdómnum í langan tíma. Ég var föst í vítahring sem ég kunni ekki að koma mér út úr. Ég kunni bara að fara í megrun. Ég kunni ekkert annað.“

Þá hefur Sólveig glímt við rósroða sem getur blossað upp af slæmu matarræði. „Ég var alltaf eldrauð í framan. Stundum var ég svo slæm að það lak vökvi úr andlitinu á mér. Það var eins ég hefði brunnið. Ég var alltaf á sýklalyfjum út af þessu. En ég fæ þetta ekki lengur.“

Gat ekki staðið upp sjálf

Þegar Sólveig var á námskeiðinu hjá Heilsuborg fór áhugi hennar á hreinum og hollum mat að aukast og hún fór sjálf að afla sér þekkingar á því sviði. Sótti meðal annars matreiðslunámskeið bæði hér heima og erlendis. Nú ræktar hún sitt eigið grænmeti og kryddjurtir í garðinum sínum. „Það er ótrúlegt hvað matur getur hjálpað til. Maður getur borðað af sér kílóin og ég gerði það einmitt. Þetta hefur líka haft ótrúlega góð áhrif á fjölskylduna.
Sonur Sólveigar, sem er þrettán ára og þjáist af flogaveiki, var líka of þungur. Þegar hún var búin að stunda breyttan lífsstíl í ár þá var hann tilbúinn til að prófa. „Hann er grannur strákur í dag og þarf ekki lengur að taka flogaveikilyfin, samkvæmt læknisráði. Hann hefur ekki fengið flog núna í tæp tvö ár.“

Þegar Sólveig byrjaði í Heilsuborg gat hún ekki lagst á gólfið og staðið sjálf aftur upp. Hún æfði sig heima. Lagðist niður og skreið meðfram húsgögnunum aftur upp. Mánuði síðar gat hún lagst niður og staðið upp án stuðnings. Í dag æfir hún að minnsta kosti fimm sinnum í viku, lyftir þungum lóðum án þess að blása úr nös og gerir burpees æfingar. „Þetta sýnir bara að það er allt hægt,“ segir hún kímin.

31404-solveig-06914

Myndir/Hari

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.