Deila

Markaðsleyfi Icepharma kostar almenning 60 milljónir á ári

Heilbrigðisstofnanir þurfa að greiða 62 milljónir á þessu ári fyrir B-vítamín í sprautuformi en greiddu áður 1,5 milljónir. Reyndar var upphæðin 75 milljónir í fyrra en lækkaði vegna megnrar óánægju viðskiptavina.

Fyrirtækið Parlogis flutti inn B-vítamín sprautulyf samkvæmt undanþágu og seldi á 525 krónur skammtinn án virðisauka. „Við fluttum þetta inn frá Þýskalandi, fyrst að beiðni Landspítalans og síðar fleiri heilbrigðisstofnana og SÁÁ,“ segir Ólafía Elísabet Þórðardóttir, innkaupastjóri hjá Parlogis, en fyrirtækið seldi rúmar 3000 pakkningar í fyrra fyrir 1,3 milljónir. Núna greiða heilbrigðisstofnanir 62 milljónir fyrir sama magn.

Icepharma sótti um markaðsleyfi fyrir lyfið Tiacur, sem er B-vítamín í sprautuformi, en samkvæmt lögum ganga slík lyf fyrir í innkaupum og því hefur Parlogis hætt að flytja inn vitamin b1. Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjagreiðslunefnd var tekin ákvörðun um verð lyfsins með hliðsjón af meðalverði á Norðurlöndum, eins og verklagsreglur gera ráð fyrir. Icepaharma seldi því skammtinn á um 25.113 fyrst eftir að það fékk markaðsleyfi en lækkaði verðið í kjölfar gagnrýni í 20.097. Parlogis keypti lyfið frá Þýskalandi  samkvæmt undanþágu og seldi skammtinn á 525 krónur eins og fyrr sagði. Lyfið er framleitt af Abkur í Svíþjóð og er selt úr apóteki í Noregi á 1619 krónur norskar eða rúmar 24.000 krónur.

 

Auglýsing

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.