Fréttatíminn

image description
29.07 2011

Gleðilegan ramadan

Í Marokkó er harira-súpa ómissandi hluti ramadan. Ljósmynd/StockFood
Í Marokkó er harira-súpa ómissandi hluti ramadan. Ljósmynd/StockFood
Gunnar Smári Egilsson og Þórir Bergsson
Gunnar Smári Egilsson og Þórir Bergsson

Gunnar Smári Egilsson og Þórir Bergsson skrifa um mat og menningu

Um það leyti sem sólin hefur hitað tjöldin í Herjólfsdal nægjanlega til að vekja jafnvel þá sem fóru seinastir að sofa eða voru undir mestum eituráhrifum þegar þeir lognuðust út af, verður runninn um ramadan, helgur föstumánuður íslamstrúarmanna. Þá ber sanntrúuðum múslimum að neita sér um allt matarkyns frá sólarupprás til sólarlags – sem kann að hljóma sem eðlileg ráðstöfun í eyrum þess sem vaknar útlifaður og úttaugaður eftir þriggja daga svall á þjóðhátíð í Eyjum.

Langir auka-klukkutímar

En ramadan hefur líka ókosti. Til dæmis þann að í raun er óheimilt að ferðast lengra en 23 kílómetra á dag. Þau sem vakna upp í Herjólfsdal væru þá sjö daga að koma sér í bæinn. Annar og stærri ókostur við að halda ramadan á Íslandi er að sólin kemur snemma upp og hangir lengi uppi. Á meðan fastan varir í tólf tíma við miðbaug teygist hún í sautján tíma 1. ágúst í Reykjavík. Og þessir fimm aukatímar leggjast ofan á tólf tímana. Þeir eru extra svangir klukkutímar – ekki meðaltals svangir.

Og þar sem ramadan færist fram um ellefu daga hvert ár sjá íslenskir múslimar fram á æ lengri föstudaga næstu árin. Það verður ekki fyrr en 2021 (1442 samkvæmt íslömsku almanaki) sem ramadan er allur kominn inn í apríl. 2015, 2016 og 2017 verður stysti dagur ársins innan ramadan – 21 langur klukkutími án matar og aðeins þriggja tíma Iftar, hlaðborð kræsinga til að seðja espaða matarlystina.

Reyndar er þetta ekki svona. Þegar trúin breiddist norðar og menn biðu þess hungraðir að sólin settist útbjuggu klerkar þeirra til viðmiðunarsól, sem bæði reis og settist á skikkanlegri tíma. Samt eru þeir til sem vilja ekki treysta á að þeirra Allah hafi heyrt af þessari viðmiðunarsól og stóla því bara á þá sem þessi sami Allah setti á himininn og spámaðurinn hans át og fastaði eftir.

Sjálfsagi og vinarþel

En fyrir utan þetta með langa sólarganginn er ekki hægt annað en mæla með því að sem flestir fasti á ramadan. Þeir sem eru undanþegnir, samkvæmt bókstafnum, eru sjúkir og aldraðir, vanfærar konur og konur með börn á brjósti og ung börn. Allir þessir mega þó fasta ef þeir treysta sér til. Ef þeir treysta sér illa til föstunnar en eru efins – er sérhlífnin kannski að narra þá? – geta þeir tryggt sig með því að gefa fátækum að borða fyrir hverja máltíð sem þeir neyta á föstunni.

En það er öllum hollt að neita sér um eitthvað – eiginlega hvað sem. Fátt af því sem við neytum er svo gott að það sé ekki enn betra að neitað sér um það. Og þegar þið þurfið bara að neita ykkur um það frá sólarupprás til sólarlags verður þetta leikur einn. Og svo þegar sólin sest getið þið bætt ykkur upp það sem þið fóruð á mis við eða verðlaunað ykkur fyrir seigluna.

En ramadan er ekki íþrótt og enn síður megrun, hvað þá einhvers konar detox. Það er ætlast til að fólk fari sér hægt á ramadan, dragi úr æðibunugangi, beiti sjálft sig aga, þjálfi sjálfstjórn en hugsi um aðra; geri góðverk, sýni vinarþel og sé rausnarlegt í huga og hjarta. Og þegar sólin loksins sest býður fólk ættingjum sínum og vinum til veislu, situr lengi undir borðum og nýtur þess sem lífið hefur best upp á bjóða; vinskap og góðar veitingar.

Til baka

Kaupstaður