Fréttatíminn

image description
27.05 2011

Hófsemdarkúrinn; megrunarkúr fyrir fólk í alnægtarsamfélögum

Hófsemd er ekki lífsafneitun. Hófsemdin lengir lífir og auðgar það.
Hófsemd er ekki lífsafneitun. Hófsemdin lengir lífir og auðgar það.

Við beygjum okkur undir þessa staðreynd og hér er okkar fyrsta tilraun: Hófsemdarkúrinn; losnið við hálft kíló á viku! Eða fyrir þá áköfu: Kraftaverkakúrinn; losnið við 26 kíló á einu ári! Pollýanna var góður kennari í hófsemd. Með hennar aðferðum geturðu sagt næst þegar þú verður svöng; O, það eru nú örugglega margir svengriri en ég. Þetta gefur þér eilítið andrúm til að velta fyrir þér mun á milli góðrar matarlystar, græðgi og hungurs. Og með æfingunni munt þú læra að innbyrða mat með mismunandi hætti eftir því hvað við á: Þú gælir við matarlystina, seður hungrið en segir græðginni að halda kjafti. Og þar sem þú ert í raun aldrei hungruð þá færast matarsiðir þínir hægt og bítandi yfir á svið gælanna. Það er hin eiginlega lífsnautn. Að fá að gera allt vel og gera allt fallega.

Erfðir og umhverfi, matur og hreyfing


En samkennd Pollýönnu hálpar okkur líka að setja hluti í samhengi. Ef þú ert of feit ertu líklega of feit af sömu ástæðu og flestir aðrir eru of feitir. Það eru nánast engar líkur til þess að efnaskiptin í þér séu öðruvísi en hjá öðru fólki svo að það tekur því ekki að eyða orðum á það. Við skulum gera samning: Skoðaðu allar myndir sem þú kemst yfir úr fangabúðum nasista og þegar þú hefur fundið einn feitan fanga skaltu opna fyrir þann möguleika að vegna brenglaðra efnaskipta fitnir þú, sama hversu lítið þú borðar.


Fólk á Íslandi hefur fitnað mikið og ört síðustu þrjá áratugi. Holdafar ræðst af tvennu; erfðum og umhverfi. Í þróunarsögu mannsins eru þrír áratugir aðeins leiftur. Það eru engar líkur til þess að rekja megi fitusöfnunina til stökkbreyttra gena. Sökin liggur í umhverfinu; neyslunni.
Fitusöfnun er samspil tveggja þátta; of lítillar hreyfingar eða brennslu og of mikillar neyslu á mat. Og þar sem þú ert meira og minna nákvæmlega eins og annað fólk – og þar sem fólk fór almennt að fitna upp úr 1980 – geturðu beitt tiltölulega einfaldri mælistiku á hreyfingu þína og matarneyslu; færðu þetta aftur um 30 ár.


Aftur til fortíðar


Horfðu á heimili þitt: Eru sófarnir dýpri en þeir voru hjá ömmu? Borðar þú kannski í sófunum? Eru diskarnir stærri en hjá ömmu? Er ískápurinn fullur af mat sem þú endar oftast með að henda?
Fylgstu með daglegri virkni: Notar þú lyftu oftar en amma? Styður þú þig við handrið á leið niður stiga, ferðu á bíl út í búð, syndirðu í sundi eða siturðu bara í heita pottinum?


Skoðaðu innkaupakörfuna: Hversu mikið af eldamennskunni hefur þú flutt af heimilinu og til iðnaðareldhúsa? Náðu þessari eldamennsku aftur heim til þín. Þú þarft að byggja upp heilbrigðar samvistir við mat. Þær færðu ekki nema með því að kynnast mat og kunna að fara með hann. Kauptu aðeins hráefni til eldamennsku. Og áttaðu þig á hversu lítinn hluta verslunarinnar þú notar. Afgangurinn af hilluplássinu er matur sem var ekki til fyrir 1970 – og mest af honum ekki heldur fyrir 1980. Þetta er maturinn sem fólk er almennt að fitna af. Og þetta er umfang hans; hann tekur um 85 prósent af hillunum. Þú verður því að eyða þeirri hugsun að þú getir borðað eins og hinir gera almennt. Þú verður að setja þér þín eigin mörk.


Hættu
Þegar neyslubreytingar síðustu þriggja áratuga eru skoðaðar sést gríðarleg aukning í gosdrykkju og sætindaáti. Ef þetta hefur almennt þyngt fólk þá á það einnig við um þig. Hættu því að drekka gos og borða nammi og þú munt missa hálft kíló á viku þar til þú sígur inn fyrir kjörþyngd.
Lærðu af drykkjusjúklingum og reyndu ekki að trappa niður neysluna. Hættu alveg. Þegar þér hefur tekist að halda þig frá nammi og gosi í þrjá mánuði áttar þú þig á að þú saknar þess ekki. Þér finnast þær málamiðlanir sem þú vilt gera í dag hlægilegar.

 

Til baka

Kaupstaður