Menning

Geimverur í nýju sólkerfi: Innrásin frá TRAPPIST-1

Nú hefur hópur stjörnufræðinga fundið áður óþekkt sólkerfi sjö reikistjarna á stærð við jörðina í kringum dvergstirnið TRAPPIST-1. Þrjár reikistjarnanna hafa mögulega fljótandi vatn á yfirborði sínu sem þýðir að þar gæti verið líf. Nasa birti þessa teiknuðu mynd af mögulegu landslagi reikistjarnanna á vefsíðu sinni í vikunni. En hvernig gæti lífið á reikistjörnunum litið út, í ljósi fyrri hugmynda okkar um líf á öðrum hnöttum? Koma þaðan vélmenni sem vilja vinna í samstarfi við jarðarbúa eða jafnvel ósýnilegar öreindir sem vilja yfirtaka líkama okkar? Við því er enn ekkert svar en sé litið til kvikmyndasögunnar veltur það allt á pólitísku landslagi okkar eigin heimkynna.

Það séríslenska er ekki til

Það var boðið upp á íslenska tónlist í Hamborg í Þýskalandi á dögunum, í glænýju tónlistarhúsi sem opnað var nýlega þar í borg. Í þessu tilviki skipti miklu máli að tónlistin væri einmitt íslensk, því hún var sett undir þann þjóðernishatt á tónlistarhátíðinni sem hét Into Iceland. Íslensk tónlist naut þannig góðs af sviðsljósinu sem fylgdi opnun hússins en þar á bæ þótti tengingin liggja beint við því að Þjóðverjar kunna vel að meta Ísland. Landið er vinsæll áfangastaður ungra Þjóðverja og þessari stóru evrópska menningarþjóð líkar margt það sem íslenskt er.

Saga karla upphafin á kostnað kvenna

„Ég held að það þurfi að vera meiri umræða um þetta, þá fer fólk inn á söfn með þetta hugarfar og er meðvitaðra um misskiptingu,“ segir Berglind Gréta Kristjánsdóttir, nýútskrifaður safnafræðingur, um kynjahalla á íslenskum sýningum. Berglind skoðaði kynjahalla á tveimur sýningum hér á landi í lokaverkefni sínu í meistaranámi í safnafræði og skoðaði með hvaða hætti valdakerfi feðraveldisins birtist innan safnanna. Samkvæmt upplýsingum Berglindar hafa rannsóknir leitt í ljós að söfn séu karllægar stofnanir sem draga úr sögu og menningu kvenna og gera sögu karla miðlæga.

Fólk verður að geta látið drauma sína rætast

„Hér reynum við að búa til umhverfi þar sem sviðslistafólk hefur frelsi til að skapa,“ segir Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Tjarnarbíós. „Húsið var opnað af Sjálfstæðu leikhúsunum árið 2010 og kannski má segja að þá hafi viðskiptamódelið að vissu leyti haft yfir sér blæ ársins 2007. Hugmyndin var að reyna að láta reksturinn bera sig með framlögum fyrirtækja og útleigu. Veruleikinn var hins vegar nokkuð annar, fyrirtæki drógu að sér hendur og fjármagn lá ekki á lausu. Á tímabili var útlitið ekki gott og Sjálfstæðu leikhúsin voru komin að því að skila inn lyklunum eftir að fjarað hafði undan rekstrinum.“

Prinsinn tortímir eigin leikriti

„Er ekki bara eitthvað rotið í heiminum?“ spyr Þorleifur Örn Arnarson leikstjóri á línunni frá Þýskalandi þegar hann er inntur eftir því hvort það sé ekki enn „eitthvað rotið í Danaveldi.“ Uppsetning sígildra leikrita er mikil glíma, það þarf að taka afstöðu til verksins á nýjum tímum. „Að vera, eða ekki vera, þarna er efinn,“ veltir hinn raunamæddi Hamlet fyrir sér eins og frægt er. Hugleiðingin er einhvers konar táknmynd leikhússins á Vesturlöndum, eilíf spurning um tilgang, líf og dauða.

Vildi að það væru fleiri staðir eins og Grímsey

„Ég kom fyrst til Íslands 2014,“ segir bandaríski ljósmyndarinn Cole Barash sem hefur tekið myndir í Grímsey í tveimur ferðum síðustu ár. „Ég kom hingað með það fyrir augum að taka myndir í nýtt verkefni sem ég vissi ekki hvert yrði og án þess að vita nokkuð við hverju ég ætti að búast af landinu. Eftir nokkra daga í Reykjavík, þar sem ég tók portrettmyndir af nokkrum tónlistarmönnum, listamönnum og fatahönnuðum, sá ég að ég þyrfti að fara út á land og sjá hið sanna Ísland. Nokkrir vinir mínir komu með og einn daginn þegar við vorum að skoða kort benti ég á kortið og spurði ég hvað þessi litli blettur þarna væri. Þá svaraði einhver að þetta væri Grímsey. Eftir að hafa flett eyjunni upp á netinu var ég fullviss um að þangað þyrfti ég að fara.“

Vináttan: Nafnið varð til í heimilisfræðitíma

„Foreldar okkar beggja eru með puttana í öllu sem við gerum en þau fá bara bjórmiðana okkar í staðinn fyrir allt skutlið,“ segja hinar 15 ára Guðlaug Fríða Helgadóttir Folkmann og Ragnheiður María Benediktsdóttir sem skipa hljómsveitina RuGl. Þær stöllur urðu að eigin sögn bestu vinkonur eftir að hafa kynnst í 7. bekk. „Við höfðum báðar verið að spila og semja tónlist. Þegar Fríða flutti til Íslands urðum við strax óaðskiljanlegar og áttum saman í gegnum tónlistina,“ segir Ragnheiður um upphaf vináttu þeirrar Fríðu, eins og Guðlaug Fríða er gjarnan kölluð. Hljómsveitin RuGl var þó ekki stofnuð fyrr en stelpurnar voru í 9. bekk, þegar þær kepptu í söngvakeppni Hagaskóla og síðar í Músíktilraunum. „Fríðu langaði að taka þátt og spurði hvort ég vildi gera þetta með henni. Við lentum í öðru sæti og ákváðum að taka þátt í Músíktilraunum. Við vorum langyngstar vorum ekkert að búast við neinu en við komumst áfram.“

Teiknimyndir eru fyrir alla

Zootopia  Teiknimyndin kom út í fyrra og féll svo sannarlega í kramið hjá bæði börnum og fullorðnum. Þetta er klárlega teiknimynd sem gaman er að horfa á með afkvæminu eða litla frænda. Myndin gerist í útópíu þar sem dýrin búa í sátt og samlyndi. Þar kynnast áhorfendur kanínunni Judy Hopps sem þráir að verða lögregla. Góður boðskapur og mikill húmor.

Tröllin hirða myndlistina

Egill Sæbjörnsson er hress í bragði á mildum rigningarmorgni í Reykjavík. Hann er með barðastóran hatt og yfir sterkum kaffibolla í miðborginni segist hann spenntur fyrir vorinu og þátttökunni á myndlistarhátíðinni í Feneyjum. „Já, ég hef það bara gott. Þetta leggst vel í mig og ég hef bara sjaldan verið betri,“ segir hann og hlær. Það eru fimm mánuðir til stefnu fram að opnun í Feneyjum og í nógu er að snúast.

Ragnar Jónasson með fjögurra bóka samning í Bandaríkjunum

St. Martin's Press kaupir fyrstu tvær bækurnar í nýrri seríu Ragnars um lögreglukonuna Huldu, Dimmu og Drunga, en einnig tvær bækur hans um lögreglumanninn Ara Þór, Myrknætti og Rof. Áður hafði forlagið tryggt sér Náttblindu en hún var einmitt valin besta þýdda glæpasagan í Bretlandi á liðnu ári.

Hafði bandaríska leyniþjónustan áhrif á íslenskt menningarlíf?

Kalda stríðið átti sér ýmsar hliðar og ein þeirra var menningarleg og snerist um listir og frelsi til tjáningar í þeim. Eftir síðari heimsstyrjöld fóru stórveldin tvö, Sovétríkin og Bandaríkin, að beita sér af auknum þunga í menningarlífi hinna ýmsu landa, bæði með tengslamyndun, menningarsamskiptum, félögum og stofnunum og fjárframlögum. Fræðimenn hafa kallað þetta „kalda menningarstríðið“ (e. Cultural Cold War) en það náði hámarki sínu í Evrópu um miðjan sjötta áratug 20. aldar.

Ljósmyndir Jóhönnu Ólafsdóttur: Leikhús hversdagsins

„Ég sá verkin hennar Jóhönnu á samsýningu í Þjóðminjasafninu fyrir nokkrum árum og hugsaði strax með mér; Hver er þessi kona? Ég verð að setja upp sýningu með verkunum hennar,“ segir Sigríður Kristín Birnudóttir sýningarstjóri yfirlitssýningar á verkum Jóhönnu Ólafsdóttur í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Jóhanna er ein af fáum kvenljósmyndurum sem hefur starfað allan sinn feril við ljósmyndun. Hún var aðalljósmyndari Þjóðleikhússins frá 1971 til 1987 en þá hóf hún störf sem ljósmyndari Árnastofnunar og hefur verið þar síðan. Líkt og sýningarstjórinn bendir á þá hafa ljósmyndir Jóhönnu ekki fengið mikla athygli yfir árin. Hún hefur þó tekið þátt í nokkrum samsýningum og aldrei hætt að mynda sitt nánasta umhverfi þótt dagvinnan hafi tekið mestallan hennar tíma. Á sýningunni gefur að líta brot úr nokkrum myndaseríum sem allar eiga það sameiginlegt að fjalla um fólk. Um mannlífið í allri sinni fjölbreytni og oftar en ekki fólk í hversdagslegum aðstæðum sem virka stundum framandi og óvenjulegar í nálgun Jóhönnu, eins og í seríunni Allaballar í lautarferð eða Menn við pósthólf. Saman mynda ljósmyndirnar heild sem minnir meira á innsetningu í hálfsúrrealísku umhverfi en hversdagslegar athafnir. Sjálf segir Jóhanna áhuga sinn á óvenjulegum aðstæðum venjulegs fólks sennilega koma úr leikhúsinu, hún eigi það til að sjá fólk eins og leikara á sviði hversdagsins. Auk þess að rölta um og skoða mannlífið á veggjum safnsins er hægt að tylla sér niður í lokuðu herbergi og horfa á ljósmyndir Jóhönnu úr leikhúsinu renna yfir skjáinn. Sýningin opnar í dag og stendur þar til í maí.

Hallgrímskirkja gýs

Á skissu virkar dálítið eins og Ingvar Björn ætli að láta Hallgrímskirkju loga á fimmtudagskvöld í næstu viku. „Ég segi það ekki, en þetta verður ansi áhrifaríkt ljósa- og hljóðverk sem við ætlum að setja þarna upp,“ segir Ingvar en hann vinnur hljóðið í verkið ásamt Magnúsi Leifssyni.

Tölvutæknin takmarkast bara af því sem okkur dettur í hug

Tónskáldið Ríkharður Friðriksson gleðst í hvert sinn sem Myrkir músík dagar hefjast í Hörpu, en á hátíðinni er lögð áhersla á fjölbreytta samtímatónlist. „Jú jú, það má alveg segja að ég kætist. Á hátíðinni opnast eiginlega mín deild í tónlistinni. Alveg frá því að ég var í pönkhljómsveitum í gamla dag og gafst upp á því hefur raftónlistin verið málið. Ég spilaði í hljómsveitum í nokkur ár og fékk síðan alveg upp í kok, leiddist rokkið alveg svakalega. Ég grínaðist með að ég hafi gengið í klaustur þegar ég fór að læra tónsmíðar, fór sem sagt alveg á bólakaf á hina hliðina.“

Sonur Sjonna Brink í Eurovision

Lögin sem keppa í undankeppni Eurovision verða kynnt í sérstökum þætti í Sjónvarpinu í kvöld. Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir stjórnar þættinum en þar verða flytjendur kynntir og brot úr lögunum spiluð. Mikil leynd hefur hvílt yfir þeim sem komust í gegnum síu dómnefndar en samkvæmt heimildum Fréttatímans á Svala Björgvinsdóttir eitt laganna og flytur hún það sjálf.