Fréttatíminn

image description
05.04 2012

Bollywood og indverskur Bond

Dohm 2 býður upp á kostulega James Bond-stemningu.
Dohm 2 býður upp á kostulega James Bond-stemningu.

Þótt indverskar bíómyndir séu vægast sagt sjaldséðar í íslenskum kvikmyndahúsum eru Indverjar öflugir þegar kemur að kvikmyndagerð, eiga sér ríka hefð og þar í landi eru framleiddar fleiri kvikmyndir en í Hollywood og Kína. Vinir Indlands og Bíó Paradís hafa nú sameinast um að kynna indverska kvikmyndahefð fyrir íslenskum bíó gestum og blása til kvikmyndahátíðar dagana 11. - 20. apríl í Bíó Paradís við Hverfisgötu.

Þetta verður í fyrsta sinn sem indversk kvikmyndahátíð er haldin á Íslandi. Indverska sendiráðið styður við þetta framtak Vina Indlands og Bíó Paradís sem bjóða upp á fimm myndir á hátíðinni sem er í senn ætlað að kynna Indland og indverska kvikmyndagerð en allur ágóði af hátíðinni rennur til styrktar barnaheimila á Indlandi.

Þessar fimm myndir eru þverskurður þeirra mynda sem framleiddar eru á Indlandi auk þess sem ein þeirra er frá Pakistan. Þær hafa allar hlotið mjög góða dóma eða verðlaun á indverskum kvikmyndahátíðum og verið tilnefndar á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.
Á kvikmyndahátíðinni er reynt að gera öllum stærstu mál- og menningarsvæðum Indlands einhver skil, en stærstu kvikmyndasvæðin hafa fengið gælunafn eftir því tungumáli sem leikið er á svæðinu eða svæðinu sjálfu. Helstu framleiðslusvæðin eru; hindi (Bollywood), tamil (Kollywood), malaylam (Mollywood) og telugu (Tollywood).

<b>Dhoom 2</b> er gaman- og spennumynd í anda James Bond. Lögreglumaður eltist við alþjóðlegan glæpamann sem notar nýjustu tækni við að fremja afbrot sín. Litið er á leikara sem stórstjörnur og þeir sem skara framúr gera margar myndir á hverju ári.
Eitt fremsta leikarapar Indlands, þau Hrithik Roshan og Aishwarya Rai, fara með aðalhlutverkin í Dhoom 2 og Aishwarya Rai fer auk þess með annað aðalhlutverkið í kvikmyndinni Robot.

<b>Robot</b> er vísinda-Bollywoodmynd fyrir alla aldurshópa. Vísindamaður skapar vélmenni í sinni mynd en málin flækjast þegar vélmennið fær tilfinningar og hrífst af ástkonu skapara síns.
Tæknibrellurnar í myndinni þykja sérlega flottar og myndin er sú aðsóknarmesta í Asíu og var frumsýnd í 3000 bíóhúsum samdægurs. Annar aðalleikarinn í Robot heitir Rajinikanth og er svo frægur á Indlandi að leikstjórar þora ekki að láta persónu hans deyja í kvikmyndum af ótta við borgarastyrjöld. Hann er næstlaunahæsti leikari í Asíu.

<b>Madrasapattinam</b> er ástarsaga frá Chennai. Myndin var kölluð Titanic Indlands og segir frá ástum breskrar yfirstéttarstúlku og indverja af lægri stigum. Myndin gerist á þeim tíma þegar Indland var að berjast fyrir sjálfstæði við Breta og þar krauma ástin og pólitíkin.

<b>Band Baaja Baarat</b> er lýst sem yndislegri litaglaðri nútíma Bollywoodmynd með mikilli gleði og tónlist. Ungt par stofnar fyrirtæki sem aðstoðar fólk við að undirbúa og halda brúðkaup. Þau samþykkja að halda einkalífinu og vinnunni aðskildu en það reynist erfiðara en þau héldu.

<b>Bol</b> er dramatísk mynd frá Pakistan og vinsælasta myndin þar í landi frá upphafi og hefur verið verðlaunuð í ýmsum heimshornum. Myndin segir frá ungri konu sem taka á af lífi fyrir morð á föður sínum. Hinsta ósk hennar er að fá að útskýra ástæðuna fyrir glæpnum. Myndin segir frá kvenréttindabaráttu í Pakistan og hefur haft gífurleg áhrif.

 

Til baka

Kaupstaður