Fréttatíminn

image description
20.04 2012

Menningararfur í sjóræningjahöndum

Óli Gneisti hefur sett fornsögur og annað íslenskt efni sem komið er úr höfundarétti inn á Rafbókavefinn.
Óli Gneisti hefur sett fornsögur og annað íslenskt efni sem komið er úr höfundarétti inn á Rafbókavefinn.

Óli Gneisti Sóleyjarson hefur gert íslensk fornrit, Íslendingasögur, fornaldarsögur Norðurlanda, Heimskringlu og fleira, aðgengileg á rafbókaformi á vefnum www.rafbokavefurinn.is. Rafbókavefurinn er hluti af meistarverkefni hans í hagnýtri menningarmiðlun og til þess að reyna að dreifa menningararfinum sem víðast hefur Óli Gneisti sett hann inn á sjóræningjavefinn Pirate Bay. Þeir sem stunda þann vef gera það helst til þess að hlaða ólöglega niður kvikmyndum, tónlist og sjónvarpsefni en dreifing íslenskra fornrita er hins vegar fullkomlega lögleg enda ritin löngu komin úr höfundarétti.

„Þegar ég var kominn með yfir hundrað bækur inn á vefinn fór ég að velta fyrir mér hvernig ég gæti komið þessu sem víðast,“ segir Óli og eftir að hann sá fréttir um ólæsi íslenskra unglingspilta datt honum sjóræningjavefurinn í hug. „Ég spurði mig að því hvar þessir drengir héldu sig helst á netinu og tel víst að þeir séu mikið inni á þessum torrent-síðum. Ég setti bækurnar því inn á Pirate Bay þar sem ég hvet til þess að þessu verði dreift sem víðast. Ég vonast til þess að strákarnir kíki á þetta þegar þetta er í svona þægilegu formi en þeir eru kannski spenntari fyrir rafbókalestri á spjaldtölvum, snjallsímum og sérstökum lesbrettum.“

Óli hefur vitaskuld enn stærri hóp í huga en íslenska unglingspilta og bendir á að strákarnir gætu til dæmis sótt bækurnar fyrir foreldra sína eða annað eldra fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í rafbókavæddu umhverfi. Þá henti þetta form lesblindum einnig mjög vel þar sem hver og einn getur átt við textann og stækkað hann að vild. „Ég sé þarna færi á að nota þessa dreifingaraðferð sem er yfirleitt tengd við ólöglega dreifingu. Ég ætla að gera þessa tilraun og sjá hvort það fari ekki vel um þetta efni í sjóræningjahöndum.“ -þþ


 

Til baka

Kaupstaður