Deila

Nýttu hreyfingu til að fá tíma fyrir sjálfan þig

Rósa Soffía einkaþjálfari gefur byrjendum í ræktinni nokkur góð ráð

„Fyrst og fremst finnst mér mikilvægt að við séum ekki að hugsa um hreyfingu til þess að refsa okkur fyrir óhollt mataræði eða af því að okkur finnst við feit og ætlum að hlaupa af okkur spikið,“ segir Rósa Soffía Haraldsdóttir einkaþjálfari, sem heldur úti síðunni rosafitness.is og snapchatreikningnum: rosasoffia.

„Hreyfingu ætti að nota sem tækifæri til að fá smá tíma út af fyrir þig, hlaða batteríin og hlusta á tónlist. Hugsa. Hreyfing er í rauninni eitt það besta sem við getum gert fyrir okkur sjálf. Hvort sem við förum út að ganga, skokka, hjóla, förum í jóga, lyftum lóðum í ræktinni eða gerum æfingar á dýnu á stofugólfinu. Hver og einn þarf að finna þá hreyfingu sem hann elskar og þá verður það engin kvöð að hreyfa sig,“ segir Rósa og bendir á að Lýðheilsustofnun mæli með að minnsta kosti 30 mínútna hreyfingu á dag. Hér gefur hún byrjendum nokkur ráð:

1. Ekki mæta bara og gera eitthvað. Flestar líkamsræktarstöðvar bjóða upp á fría tækjakennslu með þjálfara þar sem þú færð jafnvel æfingaprógram og þjálfarinn kennir þér aðeins á salinn. Þetta er líka mjög sniðugt að notfæra sér ef þú ert algjör byrjandi í ræktinni og finnst tilhugsunin við að ganga alein í salinn yfirþyrmandi.

Auglýsing

2. Fáðu þér æfingaprógram. Hvort sem þú kaupir það af þjálfara eða býrð það til sjálf/ur, þá er alltaf betra að vera að gera eitthvað markvisst í ræktinni. Annars er alltaf hætta á slugsi eða að fólk sé að gera sömu hlutina dag eftir dag og fái leið.

3. Farðu aðeins út fyrir þægindarammann, þar gerast hlutirnir. Til að fá þessa gleðitilfinningu sem fólk talar um í ræktinni, þá þarf að reyna á sig. Það gerist lítið ef þú gerir bara æfingar sem þér finnst þægilegar og tekur þyngdir sem þú getur lyft með léttum leik. Þú ert komin í ræktina til að fá hjartað til að slá örar, til að svitna og til að styrkja vöðvana, og til þess að það gerist þá þarf að reyna á sig. Stundum þarf að gretta sig og stynja aðeins til þess.

4. Vertu með góðan „playlista“. Ég nota sjálf spotify og á nokkra „playlista“ þar sem ég skiptist á að nota eftir því hvernig skapi ég er í. Stundum er maður í stuði fyrir rokk, stundum fyrir ’90 og þar fram eftir götunum. Góð tónlist gerir góða æfingu ennþá betri.

5. Vertu í þægilegum og fallegum æfingafötum. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt atriði. Það er svo gaman að mæta í ræktina í nýjum fötum og hvetur mann oft til að fara ef maður á falleg æfingaföt sem þarf að nota.

6. Ekki hugsa um hvort aðrir eru að horfa á þig. Lang flestir eru í ræktinni fyrir sjálfan sig og eru ekkert að spá í því hvað aðrir eru að gera. Nema þá kannski einna helst til að fá hugmyndir af æfingum eða dást að flottum æfingafötum. Ef einhverjir eru að mæta í ræktina til að dæma eða gera grín að öðrum, þá myndi ég frekar vorkenna því fólki heldur en að fá minnimáttarkennd gagnvart því. Mættu bara með þitt æfingaplan, með tónlistina í eyrunum og ekki hugsa um hitt fólkið sem er þarna.

7. Finndu þér æfingafélaga eða prófaðu hópatíma. Það getur hjálpað mikið að þurfa að mæta á ákveðnum tíma og að hafa félagsskap. Flestar stöðvar í dag bjóða upp á heilan helling af skemmtilegum og fjölbreyttum hópatímum sem hægt er að prófa.

8. Ef þú hefur kost á þá mæli ég líka eindregið með því að skrá sig í einka- eða hópþjálfun. Þannig lærirðu að æfa almennilega, færð aðstoð með mataræði og þú verður að mæta á æfingu og gera það sem þér er sagt. En ég skil vel að þetta sé ekki möguleiki sem allir hafa kost á og þá bendi ég aftur á atriðin 6 sem ég nefndi hér að ofan.

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.