Kynning
Deila

Ólýsanlegt að losna við hjálpartækin

Hjá augnlæknastöðinni Augljósi er boðið upp á sérhæfða meðferð við sjónlagsgöllum eins og nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju auk þess sem boðið er upp á almenna augnlæknaþjónustu.

Augljós er alhliða augnlæknastöð sem sérhæfir sig í greiningu og meðferð sjónlagsgalla eins og nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju. Stöðin varð fyrst til þess að bjóða upp á svonefndar snertilausar aðgerðir hér á landi, en í þeim aðgerðum vinna lasergeislarnir einir á hornhimnunni og enginn skurðhnífur er notaður. Þrátt fyrir að stöðin sé þekktust fyrir laseraðgerðir er hún opin öllum sem þurfa almenna augnlæknaþjónustu en þar eru greindir og meðhöndlaðir alls kyns augnsjúkdómar, líkt og gláka, ský á augasteini og sykursýkisskemmdir í sjónhimnu svo einhverjir séu nefndir og einnig er tekið á móti bráðatilfellum af öllum toga eftir því sem komið verður við.

Jóhannes Kári Kristinsson er sérfræðingur í augnlækningum og á að baki mikla reynslu í sjónlags- og hornhimnulækningum. „Með leysigeisla er hægt að breyta lögun hornhimnunnar sem er fremri linsa augans og þannig leitast við að bæta sjón svo viðkomandi geti loks verið án hjálpartækja eins og gleraugna og snertilinsa.“

Jóhannes hefur sjálfur farið í svona aðgerð. „Ég veit af eigin reynslu að þetta breytir lífi manns verulega og margir tala um að þetta sé eitt af því besta sem það hefur gert á ævinni. Það að vera laus við hjálpartæki almennt er eitthvað sem er mjög erfitt að lýsa nema maður gangi í gegnum það sjálfur.“

Auglýsing

Jóhannes Kári Kristinsson, sérfræðingur í augnlækningum hjá Augljósi, og María Aldís ­hjúkrunarfræðingur segja að laseraðgerðir á ­augum breyti lífi fólks. Um 800-1000 slíkar ­aðgerðir eru framkvæmdar hjá Augljósi á ári hverju.
Jóhannes Kári Kristinsson, sérfræðingur í augnlækningum hjá Augljósi, og María Aldís ­hjúkrunarfræðingur segja að laseraðgerðir á ­augum breyti lífi fólks. Um 800-1000 slíkar ­aðgerðir eru framkvæmdar hjá Augljósi á ári hverju.

Hann segir um 800-1000 aðgerðir framkvæmdar á stofunni á ári. „Það er hægt að fara í þessar aðgerðir á nokkuð breiðu aldursbili eða á aldrinum frá átján ára til sextugs. Þegar fólk er komið um og yfir sextugt mælum við frekar með augasteinsaðgerð heldur en sjónlagsaðgerð, þá er augasteinninn kominn nær því að fá ský sem gerist hjá flestum upp úr sjötugu og því nærtækara að framkvæma aðgerð á aftari linsu augans, þ.e. augasteininum. Þá er einnig mikilvægt hjá yngri aldurshópunum að sjónlagið sé orðið stöðugt svo að einungis þurfi eina aðgerð til að laga sjónlagið til frambúðar.“

Á milli fertugs og fimmtugs fer að bera á aldurstengdri fjarsýni. „Lengi vel var ekki hægt að meðhöndla þetta sérstaklega en árið 2012 erum við fyrst til að bjóða upp á aðgerð sem sérstaklega er ætluð aldursbundinni fjarsýni. Þá er búinn til lespunktur á hornhimnuna sem gerir gleraugun óþörf. Það eru ekki allir kandídatar í þá aðgerð en þar sem þetta er hægt verða gleraugu nánast óþörf til frambúðar.“

Jóhannes bendir á að tækninni í sjónlagsaðgerðum fleyti sífellt fram svo þeir sem hafa einhverntíma fengið úrskurð um að geta ekki farið í aðgerð gætu látið endurmeta möguleika sína.

„Í öllum sjónlagsaðgerðum þarf viðkomandi að byrja á því að koma í forskoðun til að athuga hvort möguleiki sé á aðgerð. Skoðunarferlið tekur rúmlega klukkutíma og að því loknu er hægt að ákveða út frá niðurstöðunum hvort áhugi sé á að halda áfram. Aðgerðin sjálf er einn og hálfur tími frá því þú ferð inn og þar til þú kemur út. Við bjóðum upp á róandi fyrir aðgerðina því þó aðgerðin sé lítið mál er tilhugsunin mikið mál. Aðgerðin sjálf tekur svo ekki nema fimmtán mínútur. Viðkomandi þarf að láta sækja sig og jafna sig einn dag og prófa augun. Svo er skoðun daginn eftir og daginn þar á eftir má gera nánast hvað sem er nema nudda augun og fara í svokallað kontaktsport í eina viku, og ekki má heldur fara í sund í tvær vikur.“

Jóhannes leggur áherslu á mikilvægi þess að fólk nálgist laseraugnaðgerð eins og hverja aðra læknisaðgerð. „Það er mjög mikilvægt að fólk taki þessa ákvörðun sjálft og við gefum eingöngu grænt eða rautt ljós gagnvart aðgerðinni sjálfri. Það er ákveðin áhætta til staðar og við kynnum hana vel fyrir fólki þó hún sé lítil. Mikilvægt er að átta sig á því að það fylgir því líka áhætta að nota snertilinsur eða gleraugu, linsurnar geta valdið sýkingum og gleraugun brotnað og skaddað augun. Nokkurra ára gamlar rannsóknir hafa sýnt fram á að það er hættuminna að fara í laser heldur en að nota linsur. Fólk er gríðarlega ánægt að losna við gleraugun og linsurnar og 98% eru mjög ánægð með niðurstöðuna af aðgerðunum.“

Aðgerðirnar kosta frá 250.000 krónum fyrir bæði augu og er þá öll eftirfylgni innifalin í því. „Sjónlagsaðgerðir eru líklega það eina á Íslandi sem hefur ekki hækkað frá 2001. Verð á aðgerð er langlægst hér á landi borið saman við hin Norðurlöndin og þótt víðar væri leitað,“ segir Jóhannes og bendir jafnframt á að það kosti líka sitt að nota gleraugu og linsur. „Það er tiltölulega fljótt að koma upp í þennan kostnað, sérstaklega með linsunotkun. Það er erfiðara að meta beinan kostnað við gleraugu en þar má benda á að fólk eins og sjómenn og þeir sem stunda útivist segja að öryggið minnki með gleraugu, til dæmis í þoku. Ég man eftir mótorkross- og vélsleðaiðkendum sem hafa lent í alvarlegum atvikum vegna þess að það kemur móða á gleraugu og þessir hlutir koma líka inn í þegar verið er að ræða kostnað, lífsgæði og áhættu. Mikilvægast er þó að aðgerðin er lækning sem er varanleg en gleraugun og linsurnar eru jú og verða hjálpartæki.“

Ekkert tæki kemur í staðinn fyrir að tala við fólk
María Aldís er hjúkrunarfræðingur og hefur unnið með Jóhannesi í fimmtán ár. „Við lítum á einstaklinginn sem heild og augun eru hluti af henni. Augunum líður oft mjög illa þegar fólki líður illa í líkamanum og ýmsir sjúkdómar eins og gigtarsjúkdómar og sykursýki geta haft mikil áhrif á líðan augnanna. Ýmis lyf sem fólk er á getur líka haft áhrif á augun, t.d. er augnþurrkur mjög algeng aukaverkan ýmissa algengra lyfja. Augnlíðan er oft óútskýranleg og sjónin er fólki svo dýrmæt svo við finnum oft kvíða. Við gerum mjög ítarlega forskoðun varðandi laseraðgerðirnar sem gengur út á að finna eitthvað sem gæti komið í veg fyrir að aðgerðin heppnist til fullnustu. Við erum með fullkomin tæki en ekkert tæki kemur í staðinn fyrir að tala við fólk. Aðgerð er alvörumál og það á ekkert að koma á óvart. Það er krafan og þannig viljum við hafa þjónustustigið í Augljósi. Þess vegna erum við hér.“.

Unnið í samstarfi við Augljós

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.