Deila

Pólskar konur berjast fyrir lífi sínu

Síðastliðið haust flykktust pólskar konur út á götu til að mótmæla nýrri fóstureyðingarlöggjöf. Konurnar voru undir áhrifum íslensku kvennabaráttunnar og pólskra baráttukvenna sem búa hér á landi, meðal annars Justynu Grosel.

Þegar stærsti flokkurinn á pólska þinginu og kaþólska kirkjan voru í þann mund að setja blátt bann við fóstureyðingum í Póllandi risu konur upp um allan heim og mótmæltu. Justyna Grosel, grafískur hönnuður, er ein þeirra kvenna sem skipulögðu Black Monday mótmælin í Reykjavík 3. október á síðasta ári. En Feisbúkkgrúppa pólskra kvenna, búandi á hérlendis, kveikti umræðuna sem endaði í mótmælum úti á götu.

Grafíski hönnuðurinn

Justyna kemur frá borginni Wrocław í suð-vestur Póllandi. Hún lærði grafíska hönnun og vann við þá iðn í mörg ár þar til fyrir þremur árum þegar vinir hennar á Íslandi hvöttu hana til þess að koma norður eftir. „Ég var frjáls og liðug og vildi breyta til. Fyrst tók ég þetta vanalega og vann í eldhúsi í sex mánuði áður en ég fékk starf við grafíska hönnun. Í dag vinn ég hjá Samskiptum í Síðumúla sem er mjög þægilegt af því eftir vinnu skokka ég niður í Ármúla þar sem ég er öll kvöld að æfa eða kenna klifur í Klifurhúsinu. Einfalt líf,“ segir Justyna, sem geislar af orku.

Auglýsing

32505-2.justyna

Augljóst óréttlæti

„Ég held ekki að ég hafi unnið mér inn fyrir því að geta kallað mig femínista,“ segir Justyna sem lifir mjög einföldu og borgaralegu lífi, að eigin sögn. Justyna er ekki hlynnt því að konur þurfi sífellt að sanna að þær séu betri kostur en karlmenn. „Ég er ekki að taka kvennabaráttuna þangað. Ég er bara að bregðast við augljósri afturför í réttindum kvenna í Póllandi. Augljóst óréttlæti. Ef ég ætla að kalla mig femínista þá verð ég að leggja mig meira fram en eingöngu að mótmæla fóstureyðingarlöggjöfinni.“

Erum úthrópaðar sem morðingjar

„Við sem erum að mótmæla fóstureyðingarlöggjöfinni erum kallaðar morðingjar. En kvenréttindakonur í Póllandi mæta miklu andófi, bæði frá konum og körlum. Þetta nýja stjórnmálaafl, Réttur og lög, fer sínar leiðir til þess að skerða réttindi kvenna. Fé sem áður rann til félagsþjónustunnar og var eyrnamerkt konum sem urðu fyrir ofbeldi rennur núna til kirkjunnar. Eitthvað fór úrskeiðis í kvennabaráttunni og við þurfum að halda áfram að berjast fyrir réttindum kvenna, hvort sem við erum femínistar eða bara pólskar stelpur,“ segir Justyna.
Dziewuchy Dziewuchom Islandia

„Við erum hópur kvenna og nokkrir strákar af pólskum uppruna í feisbúkkgrúppu sem kallar sig Stelpur fyrir Stelpur á Íslandi eða Dziewuchy Dziewuchom Islandia. Við erum 342 í hópnum þar sem við ræðum málefni kvenna í Póllandi og hvaða afstöðu við eigum að taka og jafnvel hvernig við getum brugðist við. Þetta er mjög öflugur hópur. Við ræðum ekki snyrtivörur og svoleiðis, það kom einmitt uppástunga um það innan hópsins en því var hafnað. Við erum bara venjulegar stelpur að fylgjast með því sem er að gerast í Póllandi og miðla því meðal okkar. Ég er enginn þjóðernissinni en ég fylgist með því sem er að gerast í Póllandi. Margar af okkur eiga fjölskyldur með tvöfaldan ríkisborgararétt og sumar meira að segja fæddar á Íslandi,“ segir Justyna sem telur hópinn frekar flokkast undir aktífista en femínista.

Black Monday

Nokkrar pólskar konur á Íslandi, með stuðningi feisbúkkgrúppunar, voru þegar farnar að mótmæla fóstureyðingarlöggjöfinni 9. apríl, fyrir tæpu ári. En þá var það aðeins lítill hópur sem mætti fyrir framan pólska sendiráðið. Stóru mótmælin voru 3. október, Black Monday, sem voru haldin í öllum löndum þar sem pólskar stelpur búa. En fyrirmyndin að þeim mótmælum er kvennafrídagurinn á Íslandi og Justyna vill meina að þau mótmæli hafi haft mikið að segja og hafi verið upphafið af nýrri kvenréttindabylgju í Póllandi.

Good Change

Í Póllandi eru í gildi fóstureyðingarlög sem leyfa aðeins fóstureyðingar í þremur tilfellum; þegar um er ræða nauðgun, ef heilsufar móður eða barns er í hættu eða ef um fósturskaða er að ræða. Stjórnmálaaflið Réttur og lög, með stuðning kirkjunnar, vill hinsvegar blátt bann við fóstureyðingum. En flokkurinn, sem komst ekki upp með bannið, er með aðrar áætlanir, eins og að banna „daginn-eftir-pillu“ og hvetja til þess að læknar neiti konum um fóstureyðingu á forsendum eigin siðferðiskenndar sem er byggt á ákvæði sem nefnist „Consius Clause“. „Það getur reynst konum í dreifbýlinu mjög erfitt þar sem ekki er um marga lækna að velja,“ segir Justyna, sem hefur áhyggjur af því að læknar séu að nota þetta í auknum mæli eftir að Réttur og lög komst til valda árið 2015. En stefnu flokksins er haldið á lofti undir slagorðinu „Good Change“ sem af mörgum túlkast sem hræðilegar breytingar.

Hættulegt að verða ófrísk

Justyna segir umhverfið sem flokkurinn skapi ekki vera hvetjandi til barneigna. „Ástandið í Póllandi er klikkað, það er alltaf verið að þrengja að konum. Ég velti mikið fyrir mér mínum eigin barneignum þegar ég var að undirbúa mótmælin á síðasta ári. Heilbrigðisþjónustan hefur verið skorin niður þannig að það er erfitt að komast í mæðraskoðun. Og ef konur missa fóstur þá eiga þær á hættu að verða sakaðar um morð og handjárnaðar á spítalanum.“

Afturhaldið í Póllandi

„Að vera karlremba og „chauvinisti“ ber vott um voða litla manneskju,“ segir Justyna og býr til minnstu mælieiningu með vísifingri og þumli og sýnir smæð karlrembunnar. „En það eru karlar á pólska þinginu sem tala opinskátt um það ef þeirra eigin dóttir yrði fyrir nauðgun og barnshafandi, þá myndu þeir neyða hana til þess að eiga barnið. En akkúrat svona orðræða og öfgaöfl hafa stuðning þjóðarinnar sem er ótrúlegt,“ segir Justyna og veltir fyrir sér hvernig popúlistarnir náðu þessum tökum á þjóðinni. „Kannski af því að Réttur og lög gerði hluti eins og að greiða barnafjölskyldum vissa upphæð á barn mánaðarlega, það jók allavega á vinsældir hans,“ segir Justyna.

32505-3. justyna

Súrrealískar fréttir

„Ég skrapp heim fyrir jól til foreldra minna. Ég var að skera niður í salat og kveikti á sjónvarpinu. Ég ætlaði að horfa á fréttirnar á TVP1, sem er pólska ríkissjónvarpið. Pabbi sagði við mig: Hvað ertu að gera þér, af hverju ertu að horfa á þetta? Og hann hafði rétt fyrir sér, fréttirnar voru súrrealískar. Þær minntu á eitthvað ævintýralíf frá fimmta áratugnum. Allt var svo æðislegt, fólk að tala um hvað lífið þeirra væri yndislegt og fagurt. Þannig er allur fréttaflutningur, eitt stórt leikhús þar sem öllum sannleika er hagrætt floknum í hag. En Réttur og lög hefur tekið yfir alla ríkisfjölmiðlana og heldur uppi sínum eigin „sannleika. Landskunnur og vinsæll blaðamaður hætti á pólska útvarpinu Trójka, sem er þeirra RÚV en þar hefur umræðan ávallt verið þokkalega frjáls og opinská, jafnvel á tímum á kommúnismans.“

Rasistinn á Evrópuþinginu

Justyna segist oft þurfa að setja sig betur inn í umræðuna í Póllandi til þess að vera viðbúin að svara fyrir allskonar vitleysu sem pólskir ráðamenn hafa í frammi. Einn karl sem heldur úti hatursfullri orðræðu, rasisma og kvenfyrirlitningu er Janusz Korwin-Mikke. Karlinn situr á evrópska þinginu fyrir hönd Póllands, þrátt fyrir að það gangi undirskriftalisti þar sem krafist er afsagnar hans. Hver er þessi maður?,“ spyr Justyna og svarar því að fullt af ungu fólki hafi kosið hann af því að hann vill lögleiða gras til fíkniefnaneyslu. „Hafðir eru eftir honum ótrúlega ömurlegir hlutir eins og að „ekki sé hægt að nauðga vændiskonu“. Hann fær mann til þess að skammast sín fyrir pólska þjóðernið og það sem verra er, að líklega mun hann fá greiddan lífeyri frá Evrópubandalaginu þangað til hann deyr.“

Berjast fyrir lífi sínu

Justyna telur vera mun á kvennabaráttunni á Íslandi og í Póllandi. „Ef það er eitthvað mikið í ólagi á Íslandi þá þjappa konur sér saman og eru samstiga, og ég hefði viljið sjá allar konur, sem eru 52% af pólsku þjóðinni, berjast gegn banninu, en það er ekki reyndin. En það má ekki gera lítið úr kraftinum í baráttunni í Póllandi, þær eru auðvitað að berjast fyrir lífi sínu. Ástandið er alvarlegt og það eru mjög skrýtnir hlutir að gerast. Kannski þarf byltingu til þess að koma á breytingum í landinu.“

Óskiljanlegt ástand í Póllandi

„Við losnuðum undan Sovétríkjunum árið 1989 og það er stuttur tími til þess að æfa lýðræði. Núna hef ég verið í burtu í þrjú ár og ég sakna fjölskyldu og vina. Pólland er fallegt land og Pólverjar eru gott fólk. En ég er engin þjóðernissinni og gæti búið hvar sem er. En samt vil ég berjast fyrir réttindum fólks í Póllandi og „Good Change“ eru alls ekki góðar breytingar. Ég skil ekki hvað er að gerast í Póllandi.“

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.