Deila

Samdi viðreynslulag til stráks á Facebook

Þegar við erum ástfangin eða í ástarsorg eigum við til að taka heldur drastískar ákvarðanir sem oft eru lítið úthugsaðar. Katrín Helga deilir með Fréttatímanum því klikkaðasta sem hún hefur gert í ástarmálum.

„Einu sinni fékk ég vinabeiðni frá sætum strák sem ég þekkti lítið. Ég ákvað að túlka það sem merki um áhuga af hans hálfu og vildi gefa til kynna að hún væri gagnkvæm en vissi ekki alveg hvernig væri best að snúa sér í samfélagsmiðla daðri. Átti ég að læka gamla mynd af honum? Eða fylgjast með hvaða viðburði hann ætlaði á og hitta hann þar af “tilviljun”? Nei, mér fannst betri hugmynd að semja lag og taka upp vídjó sem ég sendi honum í persónulegum skilaboðum. Textinn var eitthvað á þessa leið:

Ég hefði getað
farið á bar
vonast til að sjá þig þar
Leikið leikinn
of hrædd of hreykin
til að gefa á mér höggstað
falið mig á bakvið tölvuskjá
lækað pókað, kommentað djókað
facebook á
En nei…

Þetta eeeeer viiiiiiðreeynslu lag
viiiiiiðreeeynslu lag
o.s.fvr.

Auglýsing

Seen. Ekkert svar. Rekst af og til á hann og það er alltaf mjög vandræðalegt.

Myndbandið má sjá hér í fyrsta sinn opinberlega:

Einu sinni langaði mig mjög að heilla strák svo ég ákvað að sýna honum hvað ég væri mikil ævintýrakona með því að hjóla frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði. Ég lagði af stað full bjartsýnis í gulu endurskinsvesti með ljótann hjálm. Fyrstu nóttina rigndi í gegnum tjaldið mitt svo ég svaf þá nóttina á almenningssalerni. Daginn eftir fór ég með hjólið mitt í strætó heim til Reykjavíkur og strákurinn missti áhugann stuttu síðar.

Einu sinni var ég að hitta strák sem var indæll og sakleysislegur. Svo komst ég að því að hann var kynlífsfíkill og svaf hjá að meðaltali 4 stelpum á viku auk þess sem hann átti það til að deila andfeminískum meme-um á facebookinu sínu. Svo ég sendi honum lag. Brot úr textanum: ,,Við hittumst með þriggja daga millibili. Hvað svafstu hjá mörgum í millitíðinni? Þér er sama þó þú fokkir fullt af stelpum í. Nei verra… þú færð eitthvað útúr því.”

Myndbandið má sjá hér í fyrsta sinn opinberlega:

Daginn eftir hitti ég vinkonu mína sem hafði lent í einhverjum fávita kvöldið áður og saman dæstum við yfir karlmönnum. Mörgum mánuðum seinna komumst við að því að þetta var sami maðurinn sem við höfðum báðar lent í á sama tíma.

Einu sinni átti ég rómantíska kvöldstund með manni á Seyðisfirði þar sem við kysstumst bak við foss, fórum í háskalega fjallgöngu og sofnuðum í faðmlagi í lúpínubeði. Kvöldið eftir þegar ég ætlaði að finna hann aftur var mér sagt að hann væri inní tjaldi með kærustunni sinni. Ég var ekki lengi að senda honum hefndarvísu. Brot úr texta: ,,Enginn svíkur þessa skvísu án þess að hljóta hefndarvísu”.

Myndband:

Á endanum hætti hann með kærustunni sinni og í framhaldi hófum við stutt stormasamt ástarsamband. Það var efniviður í heila plötu, Svefn, sem er fyrsta plata hljómsveitar minnar kriki. Hægt er að kaupa eintak söfnunarsíðunni karolinafund.“

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.