Deila

Samherji keypti upplagið

Sagnfræðibók Björns Jóns Bragasonar verður líklega í jólapökkum starfsmanna Samherja, en bókin fjallar einmitt með gagnrýnum hætti um rannsókn Seðlabanka Íslands á Samherja vegna gjaldeyrisviðskipta.

„Jú, Samherji keypti upplag af okkur, og ég geri nú ráð fyrir því að þeir gefi bókina í jólagjöf,“ segir útgefandinn Jónas Sigurgeirsson, sem á og rekur útgáfuna Almenna bókafélagið, en Samherji keypti upplag af nýrri bók sagnfræðingsins Björns Jóns Bragasonar; Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits?

Bókin hefur ratað nokkuð í fréttir undanfarið en hún fjallar að drjúgum hluta um rannsókn Seðlabanka Íslands gegn Samherja fyrir nokkrum árum síðan, vegna gruns um brot á gjaldeyrisviðskiptum. Rannsókn á brotunum var látin niður falla, en forstjóri Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson, hefur kært starfsfólk Seðlabankans fyrir rangar sakargiftir í tengslum við rannsóknina. Eins var greint frá því að einstaklingar tengdir svokölluðu Aserta-máli hafi gert slíkt hið sama.

Jónas vill ekki gefa upp hversu mörg eintök Samherji keypti af bókaútgáfunni, en ef markmiðið er að gefa starfsfólki bókina í jólagjöf má slá því á föstu að eintökin séu nær þúsund talsins. Hafi bókin verið keypt á markaðsvirði má gera ráð fyrir því að Samherji hafi greitt hátt í þrjár milljónir fyrir jólagjöfina.

Auglýsing

Björn Jón Bragason er ánægður með viðtökur bókarinnar en segir kaup Samherja á bókinni ekki rýra trúverðugleika hennar á neinn hátt. „Samherji styrkti ekki útgáfu bókarinnar, það gerði það enginn. Ég er sjálfstætt starfandi fræðimaður og skrifa bara það sem ég hef áhuga á,“ útskýrir Björn Jón sem hefur ekki síður vakið athygli landsmanna fyrir framgöngu sína sem framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg og baráttu þeirra gegn lokun Laugavegar fyrir umferð.

Ekki náðist í forsvarsmenn Samherja þegar eftir því var leitað.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.