Deila

Samherji ræður nærri 14 prósent fiskikvótans

Samanlögð kvótaeign Samherja og dótturfélaga þess er nærri þremur prósentustigum meiri en HB Granda.

Útgerðarfélagið Samherji ræður beint eða óbeint yfir 13,89 prósentum aflaheimilda í kvótakerfinu á Íslandi. HB Grandi er stærsta einstaka útgerðarfélagið með 10,95 prósent heildarkvótans en Samherji á svo mörg félög, að hluta eða öllu leyti, að samanlagt verður sú prósenta kvótans sem félagið ræður hærri en eignarhluti HB Granda. Þetta kemur fram í nýjasta yfirlitinu frá Fiskistofu yfir kvótastöðu stærstu útgerðarfyrirtækja landsins.
Samkvæmt lögum mega einstaka útgerðarfyrirtæki ekki ráða meiru en 12 prósent heildarkvótans í landinu. Samherji Ísland ehf. er langt undir þessu, með 6,24 prósent. Þegar litið er til þess að Samherji er ráðandi hluthafi í Síldarvinnslunni, á Útgerðarfélag Akureyringa, Gullberg og Polaris Seafood þá rúmlega tvöfaldast kvótastaða Samherja upp í tæp 14 prósent.
Samkvæmt lögum er þetta í lagi þar sem ekki er um einn einstakan lögaðila að ræða sem á þennan kvóta og aðrir hluthafar eiga hlutabréf í Síldarvinnnslunni ásamt Samherja. Samherji er hins vegar, að þessu leytinu og á þessum forsendum, stærsta útgerðarfélag landsins. Þetta sýnir meðal annars þá miklu samþjöppun sem átt sér stað í kvótaeign útgerðarfyrirtækja á Íslandi: Hlutur 10 stærstu útgerðarfyrirtækja landsins í aflaheimildum á Íslandi jókst úr 22 prósent og upp í 55,5 prósent frá árinu 1990 til 2015.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.