Samtíminn

Fríköfun: Að yfirstíga óttann er mikilvægast

„Það er ákveðið ástand sem maður kemst í við fríköfun sem er heillandi. Þetta er eins og með öll önnur öfgasport þá snýst þetta fyrst og fremst um að skora á sjálfan sig“ segir Sigríður Lárusdóttir sem prófaði fyrst að kafa í sólarferð á Krít fyrir tíu árum. Eftir að hafa upplifað dýpið ákvað hún að læra köfun og síðan hefur hún hægt og rólega skipt um starfsvettang og starfar í dag sem köfunarleiðsögumaður. Ástríða hennar er þó fyrst og fremst fríköfun. „Ég hef alla tíð heillast af vatni og sem krakki var ég stöðugt að sulla í vatni. Mig langaði alltaf til að læra að kafa en svo gleymdist það á leiðinni í gegnum lífið og ég var komin á gamalsaldur þegar ég prófaði þetta fyrst.“

Konurnar á bak við leiðakerfi Strætó

Valgerður Gréta Benediktsdóttir og Ragnheiður Einarsdóttir eru konurnar á bak við leiðakerfi Strætó og sjá um að auðvelda þúsundum farþega að komast leiðar sinnar á degi hverjum. Þær sjá um að skipuleggja leiðakerfi, tímatöflur og áætlanir fyrir 27 leiðir á höfuðborgarsvæðinu og annað eins á landsbyggðinni.

Datt í það og breytti um nafn

„Mér leið eins og öll vinnan mín, að búa hér, læra og vinna skipti engu máli því ég er með útlenskt nafn. Svo var ég bara pirruð og full og breytti um nafn,“ segir Alice Bower sem breytti nafninu sínu í Aðalheiður Eyvör Pálsdóttir til að athuga hvort hún fengi fleiri atvinnuviðtöl. Alice er frá Bretlandi en hefur búið á Íslandi í rúmlega þrjú og hálft ár. Hún útskrifaðist nýlega með BA gráðu í þjóðfræði frá Háskóla Íslands og talar góða íslensku.

Ég fylgi draumum mínum og vil lifa venjulegu lífi

Bernharð Máni Snædal er litríkur og skemmtilegur 13 ára drengur sem kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Stundum með bleikt hár, stundum með gloss og jafnvel maskara. Hann vill bara fá að vera hann sjálfur, en skólafélagarnir gera honum erfitt fyrir, að hans sögn. Máni, eins og hann er alltaf kallaður, er einhverfur og greindur með add og kvíðaröskun sem hefur ágerst upp á síðkastið. Fimm ára gamall var hann orðinn að skotmarki jafnaldra sinna sem uppnefndu hann og áreittu því hann var öðruvísi. Og ekki batnaði ástandið þegar hann kom út úr skápnum fyrir ári.

Nala styttir veiku fólki stundir

„Við tökum hundana með okkur og spjöllum við fólk á meðan það klappar þeim og gefur nammi,“ segir Þórdís Björg sem er heimsóknarvinur með tíkina sína Nölu hjá Rauða krossinum, en áður fór hundurinn Charlie með henni. Bæði eru þau af gerðinni Standard Poodle.

Frábært föndur fyrir fjölskylduna

Ýmislegt tilstand getur þó fylgt því að finna hinn rétta öskudagsbúning fyrir börnin og búðir keppast við að selja ýmsa búninga og fígúrur sem geta kostað fúlgur fjár. Það getur því verið frábær skemmtun að búa búningana til heima fyrir með börnunum og leyfa þeim að ráða förinni. Þá verða búningarnir margskonar og örva ímyndunarafl bæði barna og fullorðinna.

Áhugaverð fræðsla sem breytir hugsunarhætti manns um fjármál

Helga Björg Frímannsdóttir er 16 ára nemandi í Grunnskóla Grindavíkur. Hún og samnemendur hennar fengu heimsókn frá Fjármálaviti á dögunum. „Mér fannst þetta mjög áhugaverð fræðsla. Ég hafði aðeins fengið smá fjármálafræðslu í lífsleikni í tíunda bekk en ekki mikið fyrir það. Ég hefði verið til í að fá meiri svona fræðslu í gegnum grunnskólagönguna. Maður veit svo lítið um skatta og slík hugtök,“ segir hún. Helga Björg vinnur í Bláa lóninu meðfram skóla og æfir fótbolta. Hún segir það misjafnt eftir mánuðum hvað hún eyði miklum peningum. „Ég kaupi mest af fötum og snyrtivörum og svo fer ég stundum til útlanda,“ segir Helga þegar hún er spurð um í hvað hún eyði peningunum sínum. Breytir þessi heimsókn ­Fjármálavits því hvernig þú hugsar um peninga? „Já, þetta sýndi mér hvað það er miklu hagstæðara að byrja að safna fyrir því sem mann langar í. Til dæmis fyrir bíl eða íbúðarkaupum. Ég er búin að vera að vinna síðan ég var 14 ára og ef ég hefði lagt allt fyrir sem ég hefði unnið mér inn hefði ég getað keypt mér bíl þegar ég verð 17 ára.“ Ætlarðu að byrja að spara fyrir einhverju? „Ég hef ekki verið að spara, ekki beint, en ég reyni að passa upp á peningana til að geta keypt mér bíl síðar.“

Persónuleg bókhalds­þjónusta

Bryndís Björk Karlsdóttir, bókari hjá Réttskilum, segir að aukin umsvif í samfélaginu kalli á aukna eftirspurn eftir bókhaldsþjónustu. „Við erum mikið með einstaklinga og lítil fyrirtæki sem eru að dafna og vaxa hratt,“ segir Bryndís en uppgangur í ferðaþjónustu og byggingariðnaði hefur ekki farið framhjá henni. „Leiðsögumenn, fólk með heimagistingu og fleiri tengdir ferðamannabransanum leita til okkar og sjáum við um öll skil til ríkisskattstjóra og lífeyrissjóða auk skattframtala þeirra.“

Fræðsla um lífeyrisréttindi þegar líður að starfslokum

Það er að mörgu að hyggja þegar hilla fer undir lok starfsferilsins. Fólk þarf að huga að sinni fjárhagslegu afkomu en það að eiga áhyggjulaust ævikvöld er eitthvað sem flesta dreymir um. Brú lífeyrissjóður er sjóður fyrir fólk sem starfar hjá sveitarfélögunum. Sjóðurinn fékk nýtt nafn árið 2016 en hét áður Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga. Sjóðurinn rekur þrjár samtryggingardeildir, A, V og B deild en auk þess eru Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogsbæjar í rekstrarumsjón hans.

Eina kreditkortið á Íslandi sem er ekki gefið út af banka

iKort er alþjóðlegt Mastercard inneignarkort sem kom á markað á Íslandi árið 2013. Kortið er hægt að nota eins og önnur kreditkort um allan heim. Hægt er að fá tvær tegundir af iKortum. Annars vegar ópersónugert iKort, en það er hægt að fá strax, annað hvort hjá iKort í Skipholti 25 eða á næsta pósthúsi. Ópersónugerðu kortin eru ekki með nafni en um leið og kort er virkjað fær korthafi PIN númer og getur byrjað að nota kortið. „Við mælum alltaf með því að fólk skrái sig fyrir kortinu öryggisins vegna þó að nafn korthafa sé ekki á kortinu sjálfu,“ segir Guðbjörg Dögg Snjólfsdóttir, þjónustustjóri hjá ikortum. „Hins vegar er svo hægt að fá persónugert kort. Þá er kortið hefðbundnara útlits, með upphleyptum stöfum og nafn korthafa er á kortinu. Það tekur um 10 virka daga að fá þannig kort.” Aðspurð um aðalmarkhóp ikorta segir Guðbjörg: „Ég myndi segja að okkar aðal markhópur væri fólk sem kýs að nota fyrirframgreidd kort frekar en þessi hefðbundnu sem eru greidd eftir á. Okkar viðskiptavinir vilja almennt fylgjast vel með því sem þeir eyða og þeim finnst mikið öryggi fylgja því að eiga fyrir því sem þeir eru að kaupa, frekar en að borga það um næstu mánaðarmót og eyða þannig aldrei meiru en þeir eiga fyrir. Ungt fólk, sem er að fá sér sitt fyrsta kreditkort, virðist til dæmis hugsa út í þetta og vill ekki vera að skuldsetja sig að óþörfu. „iKort er eina kreditkortið á Íslandi sem er ekki gefið út af banka. Kortið er gefið út af breska fyrirtækinu Prepaid Financial Services en dreifingaraðili kortsins á Íslandi er iKort ehf. Það er hins vegar hægt að hlaða beint inn á kortið úr öllum heimabönkum á Íslandi,“ segir Guðbjörg. „Það eru engin færslugjöld þegar iKort er notað þannig að það kostar ekki neitt að nota kortið í posum og á netinu. Kortið sjálft kostar 1.985 krónur og svo er greitt mánaðargjald sem er 725 krónur. Mánaðargjaldið er talsvert lægra en margir borga í færslugjöld af sumum kortum. Ef farið er í hraðbanka er tekið gjald, eins og með önnur kreditkort þannig að það borgar sig alltaf að nota kortið sem mest beint í verslunum. Einnig er hægt að skuldfæra föst útgjöld af kortinu með boðgreiðslum og korthafi getur sjálfur lokað kortinu ef það týnist og opnað það aftur ef hann finnur það aftur.“

Greinileg þörf á kennsluefni um fjármál fyrir ungt fólk

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, er ánægð með viðtökurnar og segir að langtíma markmiðið sé að kennsla sem þessi verði komin inn í námsskrá grunnskólanna. „Það er eiginlega alveg ótrúlegt hversu mikill árangur hefur náðst á stuttum tíma, hvað við höfum náð til margra nemenda,“ segir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri ­Samtaka fjármálafyrirtækja.

Náungakærleikurinn mikill í Egyptalandi

Á heimavist í úthverfi Kaíró hefur hin tvítuga Sara Mansour hreiðrað um sig, en þar mun hún dvelja næstu fjóra mánuðina. „Námið gengur mjög vel, kennarinn segir að það sé egypska blóðið í mér,“ segir Sara sem útskrifaðist sem stúdent úr Menntaskólanum við Hamrahlíð í desember síðastliðnum.

Dekkjadómar

Veitingastaðurinn Dill fékk í vikunni hina víðfrægu Michelin stjörnu sem er mikill virðingarvottur. Stjörnurnar voru hugarsmíð bræðranna André og Édouard Michelin um aldamótin 1900 en markmið þeirra var að fá bíleigendur til að keyra meira og lengra. Þeir bræður höfðu nefnilega rúmum áratug fyrr stofnað dekkjafyrirtækið Michelin. Með því að gefa út handbók með gæðastimpli fyrir veitingahús vonuðu bræðurnir að bíleigendur keyrðu lengra og eyddu upp dekkjum, svo fleiri dekk yrðu keypt. Þannig er þessi virti gæðastimpill veitingahúsa tengdur dekkjasölu.

Notar bjórflöskuna í jógaæfingar

Sandra Dögg Jónsdóttir jógakennari ætlar að fara aðeins út fyrir hinn hefðbundna kassa í dag með því að leiða svokallað bjór jóga á Kex Hostel, í tengslum við árlega bjórhátíð sem fer fram um helgina. Um er að ræða hið fullkomna sport fyrir bjórþyrst jógaáhugafólk sem vill slá tvær flugur í einu höggi.

Ísfólkið hittir kisur

Nýtt hlaðvarp hefur fæðst inni á Alvarpi Nútímans sem blandar saman köttum og erótískum ævintýrabókum. Í þessu forvitnilega hlaðvarpi sameina þær Birna, Helga og Kristín upplestur úr bókaflokknum Ísfólkið og kisum. Bækurnar um Ísfólkið eru stuttar, rósrauðar ævintýrabækur sem fjalla um hið göldrum gædda Ísfólk og elskendur þeirra í Noregi. Til þess að komast að því hvar kettir koma inn í myndina verða áhugasamir að hlusta á þetta frumlega og skemmtilega hlaðvarp.

Íslensk „kosegruppa“ að hætti Skam

Hinir sívinsælu þættir Skam, eða Skömm, eiga sér aðdáendur langt út fyrir sína norsku landsteina. Ein af ástæðum vinsælda þáttanna er að áhorfendur eiga bæði auðvelt með að tengja við persónurnar og höfundar þáttanna nota frumlegar leiðir til að kynna þáttinn. Ísland er ekki undanskilið og eiga þættirnir sér aðdáendur víða hér á landi. Í þriðju þáttaröð Skam fer mikið fyrir hinni notalegu „kosegruppa“ þar sem unglingarnir hittast og bralla ýmislegt saman að frumkvæði hinnar forvitnilegu Vilde. Nú geta íslenskir unglingar líka mætt í sína eigin „kosegruppe“ þar sem Norræna húsið hefur óskað eftir þátttakendum í íslenska útgáfu hópsins, sem ætlar að skipuleggja stærri Skam viðburð þann 30. mars. Þátttakendur í íslenska hópnum verða að vera á aldrinum 14-17 ára og munu hittast tvisvar til þess að skipuleggja viðburðinn, borða pítsu og drekka gos. Hópstjórinn mun tala norsku þannig unglingarnir geta spreytt sig á Skam tungumálinu.

Með Bítlana, David Bowie og Tardis á handleggnum

„Þarna höfum við Tardis, sem er tímavélin úr Dr. Who þáttunum, sem ferðast um tíma og rúm. Og Abbey Road, Bítlarnir eru að labba inn í Tardis því mér finnst þeir svo tímalausir. Ég er bæði mikill Bítla- og Dr. Who aðdáandi og er ekki hrifin af því að vera með tattú eins og allir aðrir. Mér fannst þetta ágætisleið til að koma þessu tvennu til skila,“ segir Helga Dís Björgúlfsdóttir um húðflúrið sem hún skartar á öðrum framhandleggnum. Í síðustu viku lét hún svo bæta við tattúið til að lífga það aðeins.

Fyrir alla sem geta haldið athygli

„Þetta er fyrir alla sem geta haldið athygli lengur en í eina mínútu. Þurfa ekki dúndrandi bassa og vilja heyra einhverja sögu eða tilfinningu í laginu,“ segir tónlistarmaðurinn Markús Bjarnason um tónlistina sem verður spiluð á Reykjavík Folk Festival sem stendur yfir dagana 2. til 4. mars. Markús er einn þeirra sem koma fram á opnunartónleikunum en hann segir mjög fjölbreytta flóru tónlistarmanna troða upp á hátíðinni. Allt frá 15 ára stelpum í hljómsveitinni Rugl upp í djasstónlistarmanninn Tómas R. Einarsson.

Systkini deila húsi og hundi

„Við gætum öll búið í fimmtíu fermetra íbúðum en hér fáum við miklu meira,“ segja systkini á fimmtugs- og sextugsaldri sem hafa hreiðrað um sig í einbýlishúsi í Hafnarfirðinum. Þau Soffía Emelía, Trausti og Guðrún Björg Bragabörn hafa búið þar saman frá árinu 2010, en Soffía og Guðrún hafa búið saman í meira en 20 ár. „Þetta er þriðja húsið sem við Soffía kaupum saman en við keyptum fyrst hús árið '91 eða '92. Við erum sex systkini í heildina en hin eru svo heppin að þau gengu út,’’ segir Guðrún og systkinin skellihlæja. En Guðrún, Trausti og Soffía eru öll ógift og barnlaus og líkar fyrirkomulagið vel. Kærastar og kærustur hafa heldur ekki flækst mikið fyrir í gegnum tíðina. „Það er bara þannig í okkar systkinahópi að annað hvort nær maður sér í maka fyrir tvítugt eða bara sleppti því alveg.“

Allir vilja hitta Magnús Magnús Magnússon

„Magnús er orðinn miklu þekktari en leikarinn Hallgrímur Ólafsson sem er búinn að vera í bransanum í 15 ár. Það veit enginn hver Hallgrímur er, en allir hver Magnús er,“ segir Hallgrímur Ólafsson leikari sem sló í gegn í Áramótaskaupinu sem hinn taktlausi Magnús Magnús Magnússon, sem bara gat ekki náð víkingaklappinu fræga, hvað sem hann reyndi.