Samtíminn

Stella Blómkvist fær andlit

„Ég býst við því að sú Stella sem þú ert búin að sjá fyrir þér í huganum sé allt öðruvísi en Stella sem kemur til með að birtast á skjánum,“ segir leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir, eða Heida Reed eins og hún kallar sig úti í löndum.

Mikilvægt að að tala við kindurnar

Silja Jóhannesdóttir hóf nýtt ár í öðrum aðstæðum en hún er vön. Hún tók að sér að vera bóndi í afleysingum í tuttugu daga á bænum Ærlæk ásamt föður sínum á meðan ábúendur á bænum eru í fríi í Mexíkó. Þó Silja hafi búið á bæ rétt fyrir utan Akureyri þegar hún var barn, þá voru þar engin dýr, svo þetta er frumraun hennar í fjárbúskap með 550 kindur.

Frá Sýrlandi til Íslands: Börnin þekkja engin landamæri

„Við erum mjög góðar vinkonur og erum líka búnar að þekkjast mjög lengi. Ég á mikið af barbídóti og okkur finnst skemmtilegast í barbí,“ segir Ólöf Amelía Einarsdóttir um samband sitt við vinkonur sínar, þær Löru og Fatimu Al Saadi. Þó Ólöfu finnist þær hafa verið vinkonur í heila eilífð eru samt ekki nema þrír mánuðir síðan þær kynntust. Lara og Fatima fluttu hingað til lands frá Sýrlandi ásamt foreldrum sínum og systkinum í október og eru í hópi þeirra 55 kvótaflóttamanna sem fengu hér hæli á síðasta ári.

Við þurfum að spyrja: Hvernig vil ég deyja?

Dánaraðstoð, það að binda enda á líf einhvers viljandi til að lina sársauka og þjáningu, er líklega eitthvað sem fylgt hefur mannkyninu alla tíð, en þó yfirleitt þannig að það hefur farið fram í skugga og þögn. Blað var brotið í þessum efnum þegar Hollendingar settu fyrstir þjóða sérstök lög þar sem dánaraðstoð var heimiluð að uppfylltum sérstökum skilyrðum en lögin tóku gildi 1. apríl 2002.

Hvetur til jákvæðni í janúar

„Hugmyndin kviknaði held ég bara hérna heima þegar ég var að velta fyrir mér hvað ég gæti gert til að fá Íslendinga til að vera jákvæðari og læra að elska sjálfa sig um leið,“ segir Harpa Rut Heiðarsdóttir, fangavörður og einkaþjálfari, sem stofnaði í ársbyrjun facebook-hópinn Jákvæður janúar, sem nú telur um þúsund meðlimi.

Nesti út fyrir boxið

Hér á landi hefur aldrei myndast sérstök menning þegar kemur að því að pakka inn nesti, líkt og til dæmis á Spáni þar sem gjörsamlega allir pakka nesti í álpappír eða í Noregi þar sem hvert mannsbarn pakkar inn í smjörpappír. Hér kjósa margir litlu plast-nestispokana og sumir margnota box en það hefur heldur aldrei myndast nein sérstök nestisboxamenning, eins og í Bandaríkjunum þar sem nýtt nestibox er hluti af innkaupunum í upphafi hvers skólaárs. Flestir foreldrar þekkja þann höfuðverk sem því fylgir að finna rétta nestið í skólann fyrir börnin eða með sér í vinnuna, þó flestir stærri vinnustaðir bjóða nú upp á hádegismat og sífellt fleiri borði úti í hádeginu. En hér eru nokkrar hugmyndir í boxið fyrir ráðþrota foreldra og þá sem vilja spara.

Sló óvænt met í spilakassa

Snorri endaði með 990.540 stig í leiknum sem telst mjög gott á heimsvísu og er sennilega Íslandsmet. Heimsmetið, 16 milljónir stiga, hefur staðið frá árinu 1989. Snorri segist, ólíkt öðrum afreksmönnum í spilakössum, lítið hafa spilað leikinn frá því hann var krakki. Hann hafi síðast spilað Galaga fyrir nokkrum árum og í þetta skipti hafi dóttir hans dregið hann á Fredda. „Ég greip seinast í þetta fyrir um tveimur árum. Ég spilaði þetta helling þegar ég var pjakkur. Við getum sagt að allur blaðapeningurinn hafi farið í þetta. Þetta var uppáhaldsleikurinn í gamla daga. Það var spilasalur við Stórholt og Einholt, rétt hjá gamla DV, sem ég spilaði mikið í. Það fór ansi mikið í þessa spilakassa en þetta var skemmtunin í þá dagana,“ segir Snorri. Hann segir sér yfirleitt ganga mjög vel í Galaga. „Einhverra hluta vegna var mjög góð stemning og ég var mjög yfirvegaður í leiknum, þannig að mér fannst þetta ekkert mál. Það var nú dóttir mín sem stakk upp á því að við færum á Fredda. Ég var ekkert á leiðinni á Fredda en þetta var skemmtilegt kvöld.“

Núvitund bætir árangur stjórnenda

Aðferðin sem þróuð var af verkfræðingi hjá Google er talin leika stórt hlutverk í velgengni fyrirtækisins, og hafa mörg nútímaleg fyrirtæki tileinkað sér þessa aðferð. „Hjá fyrirtækjum eins og Google eru gríðarlegar kröfur gerðar til starfsfólks um árangur sem getur vakið upp kvíða, efasemdir, ákveðið stjórnleysi og streitu. Við þær aðstæður dregur smám saman úr færni starfsfólks til að standa sig vel og var Google aðferðin hönnuð til að sporna gegn þeirri þróun með því að beina athyglinni meðal annars að núvitund,“ segir dr. Þórður Víkingur Friðgeirsson, verkfræðingur og leiðbeinandi á námskeiðinu Mindful Leadership. Hann er jafnframt einn helsti sérfræðingur landsins í verkefnastjórnun og ákvörðunarfræðum. Námskeiðið kennir hann ásamt Ásdísi Olsen sem er viðurkenndur kennari á sviði núvitundar, eða Mindfulness, og hefur sérhæft sig í núvitund fyrir stjórnendur og innleiðingu á vinnustaði. Mindful Leadership miðar að aukinni hæfni til að halda einbeitingu og skapa rými til forystu í flóknu og krefjandi starfsumhverfi nútímans. Mörg af öflugustu fyrirtækjum heims og framsæknar stofnanir á borð við Google, Apple, Nike, General Mills, bandaríska herinn, dönsku ríkisstjórnina og Harvard Business School hafa tekið Mindful Leadership í þjónustu sína með árangri sem eftir er tekið um allan heim. „Við munum ekki stjórna fyrirtækjum framtíðarinnar með hugmyndafræði fortíðarinnar. Mörg nútímaleg fyrirtæki, og ekki síst þau sem við höfum sem okkar fyrirmyndir, hafa tileinkað sér þær viðhorfsbreytingar sem er undirstaða Google aðferðarinnar. Kröfur fara vaxandi um árangur, samkeppni er mikil og stjórnendur og leiðtogar eru settir undir meiri pressu með árangur. Þá er vinnan sífellt meira byggð upp, meiri sveigjanleiki og að geta aðlagast hratt á tímum hraða og breytinga. Meiri áhersla er því lögð á manninn velferð hans og við tölum núna kinnroðalaust um hugtök eins og hamingju, hvernig ­maðurinn skapar og lætur gott af sér leiða,“ segir Þórður. Fjöldi rannsókna sýnir einstakan ávinning af aðferðafræði Mindful Leadership sem er bæði hagnýt og áhrifarík og miðar að aukinni hugarró, einbeitingu, skýrleika, sjálfsþekkingu, sjálfsstjórn, samskiptafærni, vellíðan og sátt.

Innflytjandinn: Vildi komast í burtu

„Ég kom átján ára til Íslands frá Kólumbíu,“ segir Nelly Patricia Roa-Arcierie sem kom hingað til lands árið 2006 til að vinna sem au-pair fyrir íslenska fjölskyldu. „Frænka mín sem hefur búið hér í nokkur ár fann vinnuna fyrir mig því mig hafði lengi langað að komast eitthvert í burtu. Mig langaði til að prófa að fara til útlanda, bæði til að sjá eitthvað nýtt en líka til að komast í skóla. Ég er ekki úr fátækri fjölskyldu en mamma hafði samt ekki efni á því að borga fyrir mig háskólanám og í Kólumbíu er mjög erfitt að fá skólastyrki.“

Fyllsta jafnræðis gætt hjá KPMG

KPMG er stórt alþjóðlegt félag en á heimsvísu starfa um 189.000 manns hjá félaginu í 152 löndum. Á Íslandi telst það einnig til stærri félaga en nú starfa um 280 manns á Íslandi á 17 stöðum á landinu. „Það hefur lengi verið stefna hjá KPMG að vera samfélagslega ábyrgt félag og má sem dæmi nefna að hið alþjóðlega KPMG hefur verið aðili að Global Compact Sameinuðu þjóðanna frá 2002. Með veganesti KPMG Global höfum við hér hjá KPMG á Íslandi unnið að samfélagsábyrgð félagsins með margvíslegum hætti,“ segir Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir, markaðsstjóri KPMG á Íslandi.

Neyðarlínan sýnir samfélagsábyrgð í verki

Þórhallur Ólafsson framkvæmdastjóri segir það mikilvægan hluta af fyrirtæki í slíkri þjónustu að leggja sig fram um að sýna samfélagslega ábyrgð. „Samfélagsleg ábyrgð Neyðarlínunnar felst í því að vinna að auknum lífsgæðum almennings með því að bjarga mannslífum og verja umhverfi, eignir og mannvirki landsmanna. Vel þjálfað og hjálpsamt starfsfólk stuðlar ennfremur að því að draga úr afleiðingum slysa og náttúruhamfara. Með starfsemi sinni sem og markvissum forvörnum og fræðslu skilar fyrirtækið miklum arði til samfélagsins,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.

Vandaðar vörur sem skapa störf

Eitt af því sem mér finnst svo frábært við Múlalund er að hér fær fólk, sem er með skerta starfsorku í kjölfar til dæmis slyss eða veikinda, tækifæri til að sýna hvað í því býr með því að spreyta sig á fjölbreyttum verkefnum, skapa verðmæti og þannig að leggja sitt af mörkum til atvinnulífsins. Það er ekki bara gott fyrir einstaklinginn sjálfan heldur samfélagið í heild sinni,“ segir Sigurður Viktor Úlfarsson framkvæmdastjóri Múlalundar, vinnustofu SÍBS. „Viðskiptavinir panta hjá okkur vörur og við sendum þær til þeirra daginn eftir. Þetta er í raun einfaldasta samfélagsverkefni sem hægt er að hugsa sér því fyrirtækin eru að kaupa skrifstofuvörur hvort eð er,“ segir Sigurður.

Skapandi samfélag

Til viðbótar við þá grunnsamfélagsþjónustu sem felst í starfsemi fyrirtækisins er lögð áhersla á ýmsa samfélagslega þætti. Allt frá því að efla og styðja starfsfólk með heilsuvernd, jafnlaunastefnu og vistvænni samgöngustefnu, yfir í að efla forritunar- og tæknimenntun í skólum og jafnvel standa fyrir „off-venue“ tónleikum á Airwaves. „Meginstarfsemi RB hefur mikið samfélagslegt gildi í sjálfu sér þar sem fyrirtækið ber ábyrgð á grunnstoðum greiðslumiðlunar landsins og tryggir uppitíma og rekstur á fjölmörgum upplýsingatæknikerfum sem eru forsenda þess að fjármálastarfsemi landsins gangi vel fyrir sig. Bæði greiðslumiðlun og fjármálastarfsemi eru gríðarlega mikilvægir þættir í hagkerfum þjóða. Auk þess þarf RB að fara að lögum og fylgja sátt sem Samkeppniseftirlitið gerði við eigendur RB,“ segir Guðmundur Tómas Axelsson, markaðsstjóri RB.

Fyrirtækið er hluti af samfélaginu

Hjá IKEA er lögð áhersla á að sinna samfélagslegri ábyrgð á fjölbreyttan hátt. „Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja snýst í huga margra eingöngu um að veita styrki en hún er svo miklu meira. Undir hattinn „samfélagið“ í starfsemi IKEA á Íslandi falla viðskiptavinir, starfsfólk, umhverfið – bæði nærumhverfi og í víðara samhengi,“ segir Guðný Camilla Aradóttir, markaðs- og umhverfisfulltrúi IKEA á Íslandi. „Að sýna samfélagslega ábyrgð snýst um að vera í góðu sambandi við sveitarfélagið sem við störfum í, ganga vel um umhverfið og stuðla að því að aðrir geri það líka.“

Fyrsta íslenska ilmkjarnaolían

Í Borgarfirðinum býr Hraundís Guðmundsdóttir, skógfræðingur og ilmolíufræðingur. Hún vinnur hjá Skógræktinni en öðrum stundum eyðir hún í að eima plöntur í ilmolíur og er sú eina hér á landi sem fæst við þá iðju. „Ég lærði ilmolíufræði í skóla sem hét Lífsskólinn og er reyndar ekki lengur til. Ég rak nuddstofu uppi í sveit og notaði ilmkjarnaolíur sem hafa mjög mikla virkni. Þær geta verið ýmist bakteríudrepandi, sveppadrepandi, bólgueyðandi, blóðþrýstingslækkandi og margt fleira,“ segir Hraundís sem lengi hafði alið þann draum í brjósti að læra að búa til olíurnar. „Ég kunni að nota ilmkjarnaolíur en ekki að búa þær til þannig að árið 2015 fór ég að leita að stað til þess að læra að eima plöntur. Ég fann hjón í Arizona sem reka ilmkjarnaolíufyrirtæki þar, fór til þeirra og lærði verkferlana. Hjónin frá Arizona komu svo til mín til þess að hjálpa mér að starta þessu,“ segir Hraundís sem framleiðir núna 7 tegundir af ilmkjarnaolíum úr íslenskum barrtrjám. „Ég er búin að vera að gera ýmsar tilraunir með allar þær jurtir sem ég finn í náttúrunni sem eru með ilmkjarnaolíum en það eru ekki allar plöntum með olíu. Í eimingartækjunum er 100°C heit gufa leidd í gegnum plöntuna og við það losnar olían. Gufan er síðan leidd í gegnum kælirör og verður að vökva en þar sem olían er léttari en vatnið flýtur hún ofan á. Það þarf líka að huga að veðurfari þegar verið er að sækja hráefni til eimingar, plöntur eru svolítið dyntóttar eftir veðri með tilliti til olíframleiðslu.“

Frumkvöðull í umhverfissinnaðri ferðamennsku

Grand Hótel Reykjavík hefur verið eitt af fremstu hótelum landsins hvað varðar umhverfismál. Hótelið er eitt fárra sem hefur náð að uppfylla strangar umhverfis- og gæðareglur til að fá hið eftirsótta umhverfismerki Svansins. Því er óhætt að segja að um sé að ræða frumkvöðla í hreinni og umhverfissinnaðri ferðamennsku. „Við byrjuðum með umhverfisstefnuna okkar þegar Grand Hótel var Svansvottað árið 2012 og ­yfirfærðum hana á öll hótel Íslandshótela. Henni er svo fylgt eftir af stjórnendum hvers hótels. Á stærri hótelunum er stefnunni einnig fylgt eftir af innkaupastjóra, enda verkefnið mjög viðamikið,“ segir Guðlaugur Sæmundsson, innkaupastjóri Íslandshótela.

Skýr stefna í samfélags- og umhverfismálum

Íslandshótel er eitt af stærrri fyrirtækjum í ferðaþjónustu á Íslandi. Íslandshótel eiga og reka 17 hótel með yfir 1.700 gistirými út um allt land auk funda- og ráðstefnuaðstöðu. Innan ­keðjunnar eru öll Fosshótelin, Grand ­Hótel ­Reykjavík og Hótel Reykjavík ­Centrum auk fjölda veitingastaða tengdum hótelunum.

Stuðla að ­minni matarsóun og ­flokkun úrgangs

Samkaup eiga og reka verslunarkeðjurnar; Nettó, Kjörbúðina, Krambúð, Samkaup Strax og Samkaup Úrval. Frá árinu 2007 hefur starfsfólk Samkaupa stöðugt stigið ný skref í umhverfismálum. Allt frá sorpflokkun og endurnýtingu til orkusparnaðar og endurnýtingar orku. Í upphafi árs 2015 var umhverfisstefna fyrirtækisins uppfærð og um mitt ár 2015 tóku Samkaup upp átakið Minni Sóun – Allt nýtt, en tilgangur átaksins er að kynna fyrir viðskiptavinum og starfsfólki hvað unnt sé að gera til að stuðla að minni sóun, flokkun úrgangs og ýmiss konar orkusparnaði. „Því miður hendum við gríðarlega miklu magni af matvöru og sorpi í okkar nútímasamfélagi. Við ákváðum að sporna við þessu og höfum nú þegar unnið að því að minnka sorp í okkar fyrirtæki. Við höfum unnið að alls kyns orkusparnaði á síðustu árum með sérstökum lokum á allar frystikistur í verslunum okkar. Nú bætist við Minni Sóun – Allt nýtt – átakið þar sem áherslan er á aukna flokkun og minni sóun matvæla,“ segir Gunna Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

Strandsiglingar lykillinn að ­umhverfisvænu flutningakerfi Samskipa

Samskip eru alþjóðlegt flutningafyrirtæki með starfsemi í 26 löndum í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Asíu og Ástralíu. Félagið starfrækir vikulegar strandsiglingar og býður upp á útflutning frá höfnum á landsbyggðinni beint á markaði erlendis og sem slíkt gegnir fyrirtækið mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Undanfarin ár hafa Samskip unnið markvisst að því að innleiða samfélagsábyrga stefnu sem snýr fyrst og fremst að umhverfismálum, vinnuvernd, öryggis- og mannauðsmálum. Meginmarkmiðið er að stuðla að aukinni sjálfbærni og draga sem frekast úr neikvæðum áhrifum af starfsemi fyrirtækisins á umhverfið.