Deila

Saurugar konur á túr

Í elstu íslensku biblíunni, Guðbrandsbiblíu frá 1584, er svo sagt í 15. kafla Mósebókar: „Nær ein kvinna hefur blóðlát á sínum líkama, hún skal vera fyrir sig sjálfa í sjö daga. Hver hana snertir hann er óhreinn til kvelds.“

Þegar Guðrún Kvaran íslenskufræðingur var beðin um að halda erindi á túrdögum sem Femínistafélag Háskóla Íslands hélt í vikunni var hún hikandi í fyrstu. Guðrún, sem er á áttræðisaldri, segist ekki hafa vanist því að tala um blæðingar, ekki einu sinni við vinkonur sínar. Hún lét þó slag standa og ákvað að stíga í pontu og tala um orðin sem við höfum notað yfir „það mánaðarlega“ frá því umfjöllunarefnið birtist okkur fyrst í íslensku.

Blóðlát:
Í elstu íslensku biblíunni, Guðbrandsbiblíu frá 1584, er svo sagt í 15. kafla Mósebókar: „Nær ein kvinna hefur blóðlát á sínum líkama, hún skal vera fyrir sig sjálfa í sjö daga. Hver hana snertir hann er óhreinn til kvelds.“

Rennsli :
Ef við fylgjum þessum sama texta frá einni biblíuþýðingu til annarrar þá sést að næsta þýðing, sem er frá 1644 og kennd við Þorlák biskup Skúlason, breytir blóðlátum í rennsli, „og nær ein kvinna hefur rennsli“.

Auglýsing

Tíðir:
Í Viðeyjarbiblíu frá árinu 1841 er tungumálið orðið alþýðlegra og þar má lesa „þegar kona fær sínar tíðir“. Talað er um tíðablóð og gera má ráð fyrir að orðið tíðir hafi þá verið almennt notað yfir blæðingar kvenna. Í Lækningabók handa alþýðu á Íslandi frá 1884 er líka talað um að konur hafi tíðir.

Klæðaföll:
Enn eitt orð kemur fyrir í Biblíunni um tíðir kvenna. Í þýðingunni frá 1912 segir um konu sem nýlega hefur fætt barn: „Þegar kona verður léttari og elur sveinbarn skal hún vera óhrein sjö daga; skal hún vera óhrein sjö daga eins og þegar hún er saurug af klæðaföllum.“

Mánaðarás:
Í Riti hins íslenska lærdómslistafélags er þetta orð að finna í grein um lækningar.

Að hafa á klæðum:
Orðin mánaðarás, tíðir og klæðaföll eru þau orð sem læknar og væntanlega aðrir notuðu en konurnar sjálfar töluðu um að hafa á klæðum.

Blæðingar:
Orðið virðist fremur ungt því elsta dæmið sem Guðrún fann í Ritmálsskránni er úr bókinni Hvunndagshetjur eftir Auði Haralds frá 1979 en hún var einna fyrst til að lýsa líðan kvenna í skáldverki.

Túr:
Gamalt tökuorð úr dönsku um eitthvað sem er eða kemur í lotum eins og drykkja, ölvunarlota og tíðir kvenna. Notkunin virðist koma fram á síðari helmingi síðustu aldar. Elsta dæmi um túrverki á timarit.is er frá 1979. Sama ár notar Auður Haralds orðið túr í Hvunndagshetjunni og Pétur Gunnarsson í Punktur, punktur, komma strik.

Það var ekkert auðvelt að finna viðeigandi mynd á myndaveitunni Getty til að myndskreita þennan orðalista frá Guðrúnu Kvaran. Á fæstum myndum eru konur og blóð en á flestum myndum eru dömubindi og blár vökvi, eða dömubindi og ferskir ávextir. Þessi mynd af konu með blóð í buxunum varð heimsfræg árið 2015 þegar listakonan Rupi Kaur birti hana á Instagram. Myndin var fjarlægð því hún þótti óviðeigandi en listakonan svaraði fullum hálsi og í kjölfarið flaug myndin um alla samfélagsmiðla og á endanum baðst Instagram afsökunar á ritskoðun á jafn eðlilegum hlut og blæðingum, eða blóðláti eins og það kallast í Guðbrandsbiblíu.
Það var ekkert auðvelt að finna viðeigandi mynd á myndaveitunni Getty til að myndskreita þennan orðalista frá Guðrúnu Kvaran. Á fæstum myndum eru konur og blóð en á flestum myndum eru dömubindi og blár vökvi, eða dömubindi og ferskir ávextir. Þessi mynd af konu með blóð í buxunum varð heimsfræg árið 2015 þegar listakonan Rupi Kaur birti hana á Instagram. Myndin var fjarlægð því hún þótti óviðeigandi en listakonan svaraði fullum hálsi og í kjölfarið flaug myndin um alla samfélagsmiðla og á endanum baðst Instagram afsökunar á ritskoðun á jafn eðlilegum hlut og blæðingum, eða blóðláti eins og það kallast í Guðbrandsbiblíu.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.