Deila

Seldu kvótann burt frá Tálknafirði fyrir 3.4 milljarða

Samfélagslegar afleiðingar lokunar útgerðarfélagsins Þórsbergs á Tálknafirði eru miklar. Verslunin í þorpinu lokar um mánaðamótin. Íbúarnir hafa áhyggjur af því að byggðin muni leggjast af

Hluthafar útgerðarfélagsins Þórsbergs á Tálknafirði seldu 1200 tonna kvóta sinn og fiskiskipið Kóp fyrir rúmlega 3.4 milljarða króna í lok sumarsins 2015. Missti þorpið þar með sinn stærsta vinnuveitanda sem greiddi 60 starfsmönnum nærri 440 milljónir króna í laun frá haustinu 2014 til sölunnar á kvótanum ári síðar. Í Tálknafjarðarhreppi bjuggu einungis 297 manns árið 2014 þannig að hlutfall starfsmanna Þórsbergs af heildaríbúafjölda var hátt. Kvótinn fór til útgerðarfélagsins Nesfisks í Garði. Tölulegar upplýsingar um kvótasöluna koma fram í ársreikningi Þórsbergs fyrir árið 2015. Hluthafarnir fengu greitt fyrir kvótann með krókaaflamarki og krókaflahlutdeild fyrir 2.2 milljarða en tæplega 1.2 milljarðar króna voru greiddir út í peningum.

„Auðvitað var þetta svakalegur skellur á Tálknafirði“

Enginn varð ríkur

Auglýsing

Guðjón Indriðason útgerðarmaður er stærsti hluthafi Þórsbergs með tæplega 70 prósenta hlut en ríkisfyrirtækið Byggðastofnun á tæpan fjórðung í fyrirtækinu. Forstjóri Byggðastofnunar, Aðalsteinn Þorsteinsson, segir að fyrirtækið hafi ekki greitt neitt af söluverði eigna Þórsbergs út úr félaginu og að peningarnir fyrir kvótann hafi verið notaðir til að greiða upp skuldir. Aðalsteinn segir að Þórsberg geri svo út línubát frá Tálknafirði þar sem krókaflamarkið er notað til veiða. „Þetta eru undir tíu starfsmönnum núna. Auðvitað var þetta alveg svakalegur skellur á Tálknafirði því það voru þarna, þegar mest, lét um 60 starfsmenn í útgerðinni og frystihúsinu.“
Miðað við orð Aðalsteins varð enginn ríkur á kvótasölunni á Tálknafirði en málið sýnir hins vel brestina í kvótakerfinu og hversu ákvarðanir kvótahafa geta verið afdrifaríkar fyrir lítil byggðarlög á landsbyggðinni. Afleiðingarnar urðu þær að þorpið missti sinn stærsta atvinnurekanda og stórútgerð lagðist af í plássinu. Spurningin er hvort það sé endanlegt og að stór útgerð geri ekki aftur út þar.

 

Matvörubúðinni lokað

Þá verður einu versluninni í þorpinu lokað um næstu mánaðamót en hún er rekin í sama húsi og bensínstöð N1 þó olíufélagið reki ekki verslunina. Eigandi búðarinnar er að flytja til Reykjavíkur. Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, segir lokun verslunarinnar hafi ekki áhrif á rekstur N1 í þorpinu og að olíufélagið muni áfram reka sjálfsafgreiðslubensíndælu í þorpinu og vera með einn starfsmann á Tálknafirði sem meðal annars sér um þjónustu við þá útgerð sem enn er í plássinu. Íbúar á Tálknafirði munu því þurfa að fara rúmlega 20 kílómetra leið til Patreksfjarðar eftir nauðþurftum eins og mjólk og brauði.

Skólastjóri Grunnskólans á Tálknafirði segir ekkert barn hafa fæðst í þorpinu frá árinu 2014 þar sem svo lítið sé af fólki á barneignaraldri þar.
Skólastjóri Grunnskólans á Tálknafirði segir ekkert barn hafa fæðst í þorpinu frá árinu 2014 þar sem svo lítið sé af fólki á barneignaraldri þar.

Stærri skellur 1995

Skólastjórinn í Grunnskólanum á Tálknafirði, Helga Birna Berthelsen, segir að sem betur fer hafi flestir fyrrverandi starfsmanna Þórsbergs fengið vinnu aftur og að því sé ekki atvinnuleysi í þorpinu. „Það eru ekki margir á atvinnuleysisskrá hér á Tálknafirði. Við höfum ekki orðið fyrir því að fólk hafi flutt héðan í burtu vegna þess að Þórsberg lokaði. Um það leyti sem Þórsberg lokaði höfðu fjórar barnafjölskyldur með tíu börn á grunnskólaaldri verið búnar að ákveða að flytja í burtu þannig að þegar skólinn opnaði aftur um haustið 2015 voru tíu færri nemendur í skólanum. Þetta er 1/5 hluti af fjöldanum. Þannig að þetta leit illa út fyrir þá sem vissu ekki betur. Við höfum hins vegar aðeins misst tvö börn úr skólanum vegna lokunar Þórsbergs.“
Helga Birna segir að Tálknafjörður hafi hins vegar orðið fyrir stærri skellum áður. „Fólk skilur þá ákvörðun að Þórberg hafi hætt starfsemi því reksturinn hafði gengið illa lengi. Okkar finnst mjög leiðinlegt að kvótinn hafi verið seldur í burtu. Við höfum hins vegar lent í þessu svo oft áður. Árið 1995 var skipið Tálknfirðingur selt í burtu og þá misstum við rosalega mikinn kvóta í burtu og frystihúsið lokaði. Þá misstum við alveg rosalega mikið og Þórsberg þurfti í kjölfarið að stækka mikið til að vega upp á móti þessu og kaupa mikinn kvóta. Það var kannski of stór biti fyrir fyrirtækið.“

 

Leggst byggðin af?

Einn íbúi á Tálknafirði, sem ekki vill koma fram undir nafni, segir að ástandið í þorpinu eftir lokun Þórsbergs sé eins og „eftir Tsjernóbíl“ og hefur áhyggjur af því að byggð í plássinu muni leggjast af fyrr en seinna. Helga Birna tekur í svipaðan streng þegar hún fjallar um barneignir í þorpinu. „Yngstu börnin í þorpinu eru fædd árið 2014 og eru því rúmlega tveggja ára. Það er ekki vitað til þess að nein kona í bænum sé ólétt þannig að okkur fækkar rosalega hratt. Þarna er tveggja ára gat í skólanum hjá okkur því það er svo lítið af ungu fólki hérna. Unga fólkið okkar fer í burtu og kemur ekki til baka því þess bíður ekkert hérna. Auðvitað hef ég áhyggjur af því að byggðin hér geti lagst af.“
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur íbúum í Tálknafjarðarhreppi fækkað um rúmlega tíu prósent frá árinu 2014. Þá voru þeir 297 en 267 árið 2016.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.