Deila

Glæpasamtökin sem 600 Íslendingar stunduðu viðskipti við

Embætti héraðssaksóknara rannsakar fyrst og fremst einstaka mál sem tengjast Mossack Fonseca en ekki umgjörð viðskiptanna. Yfirvöld í nokkrum löndum í Suður-Ameríku rannsaka nú Mossack Fonseca sem glæpasamtök og hafa beitt sér gegn milliliðum sem stofnuðu félög hjá Mossack Fonseca. Íslendingar áttu heimsmet í viðskiptum við Mossack Fonseca miðað við höfðatölu. Ólafur Hauksson segir það á ábyrgð yfirvalda í Lúxemborg að taka upp rannsókn á Landsbankanum þar í landi.

Íslendingar áttu heimsmet í viðskiptum við panamaísku lögmannsstofuna Mossack Fonseca sem saksóknari í Panama kallar nú „glæpasamtök“ vegna aðkomu fyrirtækisins að peningaþvætti og mútugreiðslum í Suður-Ameríku. Stofnendur Mossack Fonseca, Ramon Fonseca Mora og Jurgen Mossack, voru handteknir í Panama í síðustu viku og hnepptir í gæsluvarðhald út af rannsókn þarlendra yfirvalda á fyrirtækinu en samtímis fara fram rannsóknir í nokkrum öðrum löndum í Suður-Ameríku. 
Heimsmet Íslendinga var miðað við höfðatölu. Fjöldi Íslendinga sem notaðist við félög í skattaskjólum var svo mikill hjá einstaka fjármálafyrirtækjum að Íslendingar voru stærsti kúnnahópurinn þegar viðskiptavinunum var skipt niður eftir þjóðernum en þetta var raunin í útibúi Nordea-bankans í Lúxemborg í fyrra. Samtals tengdust 600 Íslendingar um 800 aflandsfélögum í gegnum Mossack Fonseca.
 
 
Mútugreiðslur til rannsóknar
 
Meðal þess sem er til rannsóknar í Panama og víðar í Suður-Ameríku eru mútugreiðslur frá brasilíska verktakafyrirtækinu Odebrecht til ráðamanna í löndum í Suður-Ameríku, meðal annars Fernando Toledo, fyrrverandi forseta Perú. Toldeo er grunaður um að hafa þegið 20 milljónir dollara frá brasilíska fyrirtækinu gegn því að tryggja því samning um að byggja veg í Perú. Odebrecht hefur viðurkennt að hafa greitt samtals 29 milljónir dollara í mútugreiðslur í Perú í ríkisstjórnartíð Toledos og eftirmanna hans, Alan García og Ollanta Humala. Þetta spillingarmál gengur undir nafninu Lava Jato. Yfirvöld í Perú hafa farið þess á leit við bandarísk yfirvöld að þau framselji Toledo til landsins vegna málsins en hann er búsettur þar. 
Í Kólumbíu hafa vararáðherra og fyrrverandi öldunardeildarþingmaður verið handteknir vegna rannsóknar málsins og í Venesúela beinist rannsókn málsins að meintum 98 milljóna dollara mútugreiðslum.
Aðkoma Mossack Fonseca að þessum málum er sú að félög á aflandssvæðum, sem fyrirtækið stofnaði, voru notuð til að miðla þessum fjármunum sem notaðir voru í mútugreiðslunum og þar með að fela þá. 
 
 
Þáttur milliliða í lögbrotum
 
Samhliða húsleit hjá Mossack Fonseca og á heimilum starfsmanna fyrirtækisins hafa yfirvöld í Panama tekið yfir fjármálafyrirtækið sem var milliliður í viðskiptunum, FPB-bankann, sem talinn er hafa verið milliliður í stofnun 44 eignarhaldsfélaga hjá Mossack Fonseca sem eru til skoðunar í málinu. Bæði Mossack Fonseca og FPB-bankinn eru því talin hafa verið viljug verkfæri í umfangsmiklu peningaþvætti og mútumálum upp á marga milljarða króna. 
Þetta sýnir að yfirvöld í löndum í Suður-Ameríku telja að milliliðir í skattaskjólsviðskiptum kunni að hafa brotið lög með vinnu sinni fyrir þá sem vildu svíkja undan skatti og eða fela fé. 
 
Kristján Gunnar Valdimarsson var helsti skattasérfræðingur Landsbanka Íslands á árunum fyrir hrun en bankinn benti viðskiptavinum oft á möguleikann á því að nota aflandsfélög í viðskiptum sínum.
Kristján Gunnar Valdimarsson var helsti skattasérfræðingur Landsbanka Íslands á árunum fyrir hrun en bankinn benti viðskiptavinum oft á möguleikann á því að nota aflandsfélög í viðskiptum sínum.
Landsbankinn helsti milliliðurinn 
 
Helsti milliliðurinn í viðskiptum Íslendinga við Mossack Fonseca var Landsbanki Íslands, aðallega í gegnum útibú bankans í Lúxemborg. Helsti skattaskjólssérfræðingur bankans, Kristján Gunnar Valdimarsson lögfræðingur, var skrifaður fyrir auglýsingu á vef bankans þar sem ráðgjöf í skattamálum var auglýst. Í textanum, sem finna má í gegnum vefsafn Háskólabókasafns Íslands, segir að bankinn geti aðstoðað við að lágmarka skattgreiðslur. „Aðilar geta lágmarkað skattlagningu innan marka skattalaga með réttri ráðgjöf í þessu tilliti. […] Mikilvægt er að huga vel að skattlagningu áður en ráðist er í fjárfestingar erlendis og getur það skipt miklu að rétt sé að verki staðið með tilliti til eignarhaldsfélaga og staðsetningar þeirra, auk þess sem kanna þarf hvort í gildi séu tvísköttunarsamningar og hvert efni þeirra er.“  
Ekki var talað um skattaskjól, aflandssvæði eða Mossack Fonseca í auglýsingunni en ljóst er að bankinn stofnaði fjölmörg slíkt félög fyrir viðskiptavini sína og var stærsti íslenski notandi aflandsþjónustu Mossack Fonseca. 
Íslendingar sem koma fyrir í Panamaskjölunum hafa lýst því hvernig Landsbankinn í Lúxemborg ráðlagði þeim að stofna félög í skattaskjólum. Í viðtali við Fréttatímann í haust sagði Theódór Guðbergsson, kaupsýslumaður og fiskverkandi, meðal annars um félag sitt í skattaskjóli. „Þetta var félag sem var í eignastýringu í Landsbankanum í Lúxemborg. Við áttum þetta nokkrir félagarnir. Það var í einhverjum hlutabréfaviðskiptum. Við ætluðum að sigra heiminn en það gekki ekki eftir. Þetta fór lóðbeint á hausinn í hruninu. Það var maður í eignastýringunni í Lúxemborg sem sá um þetta fyrir okkur […] Ég var bara með venjulegan rekstur, saltfiskverkun, og við unnum hörðum höndum og gekk ágætlega. Svo var alltaf verið að bjóða manni þessa eignastýringu af því hún átti að mala gull en svo reyndist þetta bara tómt kjaftæði.“ 
Landsbanki Íslands, í gegnum útibúið í Lúxemborg, var því mikilvægur milliliður í viðskiptum í skattaskjólsviðskiptum Íslendinga í gegnum Mossack Fonseca, rétt eins og FPB-bankinn var milliliður í þeim viðskiptum sem yfirvöld nokkurra landa í Mið- og Suður-Ameríku eru nú að rannsaka sem möguleg lögbrot. 
 
 
108 mál til skoðunar
 
Komið hefur fram í fjölmiðlum að embætti skattrannsóknarstjóra hafi athugað og rannsakað 108 mál sem tengjast Panamaskjölunum. Stærstur hluti þessara mála, eða 57 talsins, tengjast sjómönnum sem störfuðu hjá útgerðum Sjólaskipa og Samherja í Afríku og fengu greidd laun frá aflandsfélögum án þess að greiddir væru af þeim skattar á Íslandi. Embættið hefur kært stóran hluta þessara meintu skattalagabrota til embættis héraðssaksóknara, áður sérstaks saksóknara. Af þessum 108 tók skattrannsóknarstjóri 34 til athugunar vegna upplýsinga úr gögnum um skattaskjólsviðskipti Íslendinga sem keypt voru á 37 milljónir króna af óþekktum aðila.
Af þessu er ljóst að mál tengd Mossack Fonseca hafa sannarlega verið til rannsóknar hjá eftirlitsaðilum á Íslandi og hafa slík mál einnig verið send til ákæruvaldsins. 
Eftir stendur hins vegar sú spurning hvort eftirlitsaðilar telji að rannsaka þurfi milliliðina í viðskiptum Íslendinga í skattaskjólum, til dæmis Landsbanka Íslands í Lúxemborg, sem kom á sambandinu við Mossack Fonseca sem gerði skattaundanskot möguleg í einhverjum tilfellum. 
 
Ólafur Hauksson segir að embættið einbeiti sér fyrst og fremst að því að rannsaka einstök skattalagabrot en ekki umgjörð skattaskjólsviðskiptanna og aðkomu fjármálafyrirtækja, eins og Landsbankans í Lúxemborg, að þeim.
Ólafur Hauksson segir að embættið einbeiti sér fyrst og fremst að því að rannsaka einstök skattalagabrot en ekki umgjörð skattaskjólsviðskiptanna og aðkomu fjármálafyrirtækja, eins og Landsbankans í Lúxemborg, að þeim.
 
Skoða einstaka mál en ekki umgjörðina
 
Aðspurður um hvort embætti héraðssaksóknara hafi farið í einhverja rannsókn á Landsbanka Íslands eða öðrum milliliðum sem skipulögðu skattaskjólsviðskipti Íslendinga segir Ólafur Hauksson að embætti sitt hafi fyrst og fremst verið að rannsaka einstök mál en ekki umgjörð skattaskjólsviðskiptanna. „Við erum fyrst og fremst að skoða þá sem kunna að hafa komið sköttum undan. Skattrannsóknarstjóri hefur verið að vinna þá vinnu og við erum að styrkja þá línu hér. Í augnablikinu er verið að horfa fyrst og fremst á þetta.“
Ólafur segir að hann telji að það væri líka yfirvalda í Lúxemborg að rannsaka dótturfélög íslensku bankanna þar í landi. „Það voru fyrst og fremst bankarnir í Lúxemborg sem voru að stofna þessi félög þannig að það væri yfirvalda í Lúxemborg að taka þann legg,“ segir Ólafur. 
„Auðvitað kemur þessi umgjörð við sögu í okkar rannsóknum en hún er ekki sjálfstætt rannsóknarefni. […] Þetta félagaform var notað með sams konar hætti og kúbein í innbroti. En eftir því sem rykið sest þá er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hversu eðlilegt það sé að þetta sé hægt til að byrja með: Eignastýringardeildirnar byrjuðu að bjóða upp á aflandsþjónustu eins og það væri sjálfsagður hlutur. Aflandsfélög mynda „platform“ fyrir alls konar vafasöm viðskipti. Þessi aflandsfélög koma svolítið inn á ská í uppgjöri okkar við hrunið og það er ekkert rosalega hugguleg mynd sem blasir við okkur.“

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.