Deila

Sjómaður: Samherji átti að borga skatt af laununum

Yfirskattanefnd og dómstólar hafa kveðið upp niðurstöður í málum nokkurra sjómanna sem sviku undan skatti. Stærstu mál sem komið hafa til kasta íslenskra skattayfirvalda í sögunni. Steinþór Guðmundsson sjómaður segir að Sjólaskip og Samherji hafi ráðlagt sér í skattamálum sínum. Forsvarsmaður Afríkuútgerðar Samherja neitar þessu.

Útgerðirnar Sjólaskip og Samherji ráðlögðu tugum sjómanna sem unnu hjá þessum fyrirtækjum í Afríku að færa lögheimili sitt til Máritaníu í Vestur-Afríku sem gerði það að verkum að þeir voru ekki skattskyldir á Íslandi. Laun sjómannanna voru svo greidd af félögum á Tortólu, Belís og Kýpur og engir skattar af þeim runnu til Íslands eða til Máritáníu. Þetta segir einn af sjómönnunum. Sjómennirnir, einir 57 talsins í heildina, hafa svo lent í vandræðum hjá skattayfirvöldum á Íslandi vegna þessa þar sem enginn þeirra hefur getað sýnt fram á að þeir hafi greitt skatta af launum sínum meðan þeir störfuðu hjá íslensku útgerðunum í Afríku.
Fréttatíminn fjallaði um mál sjómannanna í þarsíðustu viku en hefur nú fyllri upplýsingar um þau, meðal annars úrskurði frá yfirskattanefnd og tvo dóma í málum tveggja sjómanna. Samkvæmt heimildum Fréttatímans eru mál sjómannanna langstærsta mengi sambærilegra mála sem komið hefur inn á borð íslenskra skattayfirvalda. Þetta eru því umsvifamestu meintu skattalagabrot á Íslandi.
Í dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 21. september síðastliðinn var komist að þeirri niðurstöðu að sjómaðurinn Steinþór Guðmundsson frá Akureyri hefði sannarlega haft skattalega heimilisfesti á Íslandi en ekki í Máritaníu á meðan hann starfaði hjá Afríkuútgerð Sjólaskipa og Samherja á árunum 2006 til 2010. Þar af leiðandi hafi hann átt að greiða tekjuskatt á Íslandi, sem hann gerði ekki á þessum tíma. Steinþór sagðist hins vegar haldið að Samherji hefði greitt skatt af launum sínum í Máritaníu.
Tekjur Steinþórs eru ekki teknar fram í dómi héraðsdóms en út frá öðrum upplýsingum er ljóst að um var að ræða samtals tugi milljóna króna en í tveimur úrskurðum yfirskattanefndar eru árstekjur sjómannanna sagðar hafa verið allt frá tæpum sjö milljónum og upp í rúmlega 15 milljónir. Álag upp á 25 prósent bætist við þær upphæðir sem sjómennirnir þurfa að greiða til skattsins í málunum auk þess sem þeir kunna að verða ákærðir fyrir skattalagabrot eftir rannsóknir héraðssaksóknara á málum þeirra.
Einn af togurunum sem Sjólaskip og Samherji notuðu í Afríkuveiðunum var verksmiðjutogarinn Heinaste sem sést hér.
Einn af togurunum sem Sjólaskip og Samherji notuðu í Afríkuveiðunum var verksmiðjutogarinn Heinaste sem sést hér.
Í dómnum vekur sérstaka athygli að Steinþór og yfirmaðurinn hjá Samherja, sem sá um Afríkuútgerðina, eru missaga um hvernig það gerðist að sjómennirnir fluttu heimilisfang sitt til Máritáníu. Um þetta segir: „Stefndi [Ríkisskattstjóri] tekur fram að í skýrslu skattrannsóknarstjóra komi fram að ástæða þess að stefnandi [Steinþór] flutti lögheimili sitt til Máritaníu hafi verið að kröfu vinnuveitanda hans. Einnig komi fram að stefnandi telji sig vera launþega og að vinnuveitendur hans (Sjólaskip og síðar Katla Seafood) hafi staðið skil á skattgreiðslum hans. Stefnandi hafi upplýst að enginn skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður og hann hafi hvorki fengið launaseðla né uppgjörsgögn.“
Í dómnum  segir svo hins vegar að í skýrslutökum yfir eigendum Sjólaskipa og framkvæmdastjóra dótturfélags Samherja hafi þeir sagt að sjómennirnir hafi getað búið þar sem þeir vildu og að útgerðirnar hafi ekki litið svo á að þær ættu að greiða skatta af launum þeirra þar sem þeir hafi verið verktakar. „Í skýrslum sem teknar hafi verið af stjórnendum og eigendum Sjólaskipa hf. annars vegar og framkvæmdastjóra Axel ehf. (áður Katla Seafood ehf.) hins vegar komi fram að engin krafa hafi verið gerð um tiltekna búsetu sjómanna af hálfu íslensku félaganna. Einnig komi fram að sjómenn hafi verið verktakar fyrir erlend fyrirtæki og því ekki höfð milliganga um greiðslu skatta þeirra né þeim veitt slík aðstoð í samskiptum við Máritanísk yfirvöld.“ Ábyrgðin í málinu liggur því ekki fyllilega fyrir en það eru sjómennirnir, ekki útgerðirnar, sem þurfa að endurgreiða skattinum með álagi og eftir atvikum verða ákærðir.
Fréttatíminn hefur síðastliðnar vikur ítrekað reynt að ná tali af Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, með símtölum og sms-sendingum en án árangurs. Sjónarmið Þorsteins Máls í málum sjómannanna eru því ókunn.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.