Deila

Sjómaður þarf að borga skatt af milljóna tekjum frá aflandsfélagi Samherja

Sjómaður þarf að greiða skatt af tekjum sem hann vann sér inn hjá Sjólaskipum og Samherja í Afríku. Hélt að útgerðirnar myndu greiða skattinn þar sem hann væri launþegi. 55 sjómenn sitja í súpunni út af sköttum sem þeir greiddu ekki þegar þeir unnu við fiskveiðar í Afríku.

Íslenskur sjómaður sem var búsettur í Máritaníu og vann við fiskveiðar hjá Sjólaskipum og Samherja í Afríku þarf að greiða tekjuskatt af rúmlega sextíu milljóna króna launatekjum sem hann var með á fimm ára tímabili, frá 2007 til 2011. Þetta kemur fram í úrskurði yfirskattanefndar frá því í desember síðastliðnum en sjómaðurinn kærði endurálagningu Ríkisskattstjóra til nefndarinnar. Ríkisskattstjóri hafði, auk þess að ákvarða að maðurinn þyrfti að greiða skatt af þessum tekjum, einnig gert manninum að greiða 25 prósent álag ofan á tekjuskattsgreiðslurnar vegna skattaundanskota en yfirskattanefnd snéri þeirri ákvörðun við.

Maðurinn er einn af tæplega 60 sjómönnum sem hafa lent í því að skattaskattyfirvöldyfirvöld hafa endurákvarðað á þá tekjuskatta vegna vinnu þeirra fyrir Afríkuútgerðir Sjólaskipa og Samherja. Fréttatíminn sagði frá þessum málum í lok nóvember en úrskurðurinn í máli þessa sjómanns féll eftir það. Út frá úrskurðinum í máli mannsins er ljóst að launagreiðendur hans voru aflandsfélög sem tóku þátt í rekstri Sjólaskipa og Samherja á Afríkuútgerðinni sem gerði út frá Kanaríeyjum – Samherji keypti útgerðina af Sjólaskipum árið 2007. Sjólaskip notaði félög á Tortólu í rekstri útgerðarinnar á meðan Samherji notaði félög á Kýpur og í Belís. Ekki er tekið fram hvað aflandsfélögin sem greiddu sjómanninum laun heita.

Eitt af því áhugaverðasta sem kemur fram í úrskurðinum er að sjómaðurinn taldi að það hefði verið á ábyrgð launagreiðanda hans, á endanum Sjólaskipa og síðar Samherja, að standa skil á skattgreiðslum fyrir hann þar sem hann hefði verið launamaður. Sjómennirnir sem unnu hjá Sjólaskipum og Samherja virðast hins vegar ekki hafa verið launamenn í raun, eins og þeir héldu, heldur verktakar. Í úrskurðinum segir og er vísað til orða mannsins sjálfs í greinargerð sem send var til skattayfirvalda: „Þá hafi kærandi verið launamaður og hafi það því verið á ábyrgð launagreiðanda að sjá til þess að staðið væri skil á sköttum af launum hans.“

Auglýsing

Sjómaðurinn reyndi að sýna fram á skattgreiðslur í Máritaníu með því að leggja fram vottorð þess efnis að hann hefði verið skattskyldur þar í landi frá því að hann flutti lögheimili sitt þangað árið 2003 og eins vottorð um að hann hefði greitt skatta þar á tímabilinu. Ríkisskattstjóri tók vottorðið um skattgreiðslurnar í Máritaníu ekki gilt og taldi ósannað að skattar hefðu verið greiddir þar í landi. Niðurstaða Ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar var því sú að sjómaðurinn hefði verið með skattalega heimilisfesti á Íslandi og átt að greiða skatta þar. Meðal annars er bent á að aflandsfélögin sem voru launagreiðendur hans hafi greitt laun hans beint inn á íslenskan bankareikning mannsins og eiginkonu hans og að fjármunirnir hafi verið notaðir á Íslandi þar sem maðurinn hélt heimili.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og stærsti hluthafi Samherja, hefur ekki viljað veita Fréttatímanum viðtal um mál sjómannanna, hvorki þegar blaðið fjallaði um málið í lok nóvember né nú.

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.