Deila

Skemmtilegasta hlaup ársins

Gamlárshlaup ÍR verður haldið í 41. sinn á gamlársdag. Hlaupið er orðið þekkt fyrir léttan og skemmtilegan anda þar sem fjölmargir hlauparar fara 10 kílómetrana íklæddir búningum sem eiga þó lítið skylt við hefðbundinn hlaupabúning. Í anda áramótanna er svo ekki óalgengt að þátttakendur skáli eftir gott og skemmtilegt hlaup.

Hlaupið er almenningshlaup með langa hefð, en það er eitt það elsta á Íslandi sem hefur verið haldið samfellt en það er frjálsíþróttadeild ÍR sem skipuleggur hlaupið.

Inga Dís Karlsdóttir er forfallinn hlaupari, að eigin sögn, og hlaupastjóri gamlárshlaupsins. Hún, ásamt um hundrað sjálfboðaliðum, sér um að allt gangi vel fyrir sig og hefur hún því einungis sjálf tekið einu sinni þátt í hlaupinu.

„Já, því miður hef ég nú bara hlaupið einu sinni, en það tekur á að skipuleggja svo stóran viðburð. Þetta er risastórt, eitt af stærstu hlaupunum sem haldin eru, og við erum að loka götum og annað til að allt gangi upp. Í fyrra voru um 1300 hlauparar skráðir og við búumst við metþátttöku í ár þar sem við erum einnig í fyrsta sinn með 3 kílómetra skemmtihlaup í boði, auk hefðbundnu 10 kílómetranna. Skemmtihlaupið ætti að henta öllum en við erum að svara kalli mikillar breiddar í hlaupaíþróttinni. Þar verður spilað fyrst og fremst inn á gleðina en engin tímataka. Við búumst við fjörugu hlaupi og skemmtilegum búningum sem endranær. Það voru æðislegar gleðisprengjur árið 1997 sem tóku upp á því að mæta í hlaupið í búningum og það hefur aukist ár frá ári enda er þetta gríðarleg skemmtun og ákveðin uppskeruhátíð eftir hlaupaárið. Þetta með búningana er því sprottið úr grasrótinni og maður er steinhissa yfir metnaðinum í búningagerðinni. Það er orðið að normi að mæta í búningi heldur en ekki og við keppnishaldarar höfum gert mikið úr búningunum og ýtt undir það. En keppnisskapið er þó samt á sínum stað.“

Auglýsing

Verðlaun eru veitt bæði einstaklingum og hópum fyrir besta búninginn og auk þess er fjöldi útdráttarverðlauna. Sigurvegarar hlaupsins fá svo auðvitað líka verðlaun. „Það er mikill metnaður með búningana. Ég man til dæmis að Stjarnan lét sauma Strumpabúninga á allt liðið í fyrra. Hlaupið og gleðin í kringum það hefur vakið athygli útlendinga sem taka þátt í meira mæli, bæði í búningum og einnig til að keppa um tíma. Margir sem eru að keppa af alvöru eru að ljúka árinu með besta tímanum sínum í 10 kílómetra hlaupi, en brautin er flöt og gefur tækifæri á góðum tíma. Veðrið spilar þó vissulega inn í það, en það er samt fátt fárviðrið sem stoppar hlaupara, get ég sagt þér. Það er ótrúlegt hvað fólk er duglegt að mæta í hvaða veðri sem er. Það er jafnan gífurleg stemning sem fylgir þessu hlaupi og skemmtilegur andi sem svífur yfir á keppnisdeginum. Hlauparar safnast saman í Hörpunni og hittast og spjalla. Fyrir okkur í hlaupasamfélaginu er þetta einstakur viðburður sem bara stækkar og verður betri með ári hverju.“

Rásmark í 3 km og 10 km er á syðri akrein Sæbrautar fyrir framan Hörpuna. Í 3 km hlaupinu er hlaupið austur Sæbraut 1,5 km og snúið við til baka að Hörpunni. Endamarkið er á planinu fyrir framan Hörpuna. Í 10 km hlaupinu er hlaupið eftir syðri akrein austur að Holtavegi. Við Holtaveg er tekinn snúningur á akreininni og sama akrein hlaupin áfram að gatnamótum Sæbrautar og Sægarða, en þar er skipt yfir á norður akreinina í átt að Hörpu. Tekin er lykkja niður í Klettagarða og aftur upp á nyrðri akrein Sæbrautar áfram í mark við Hörpuna.

Forskráning er á hlaup.is til miðnættis 30. desember. Forskráning fer jafnframt fram í ÍR heimilinu föstudaginn 30. desember á milli kl. 16.30 og 19 og í Hörpunni á hlaupdag.

Erla Sigurlaug Sigurðardóttir
ritstjórn@frettatiminn.is

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.