Deila

Búningabíó og næntísmyndir sneru við rekstrinum

Viðsnúningur hefur orðið á rekstri Bíó Paradísar eftir nokkurra ára barning og tilraunastarfsemi. Búningabíó og myndir frá níunda áratugnum áttu stóran þátt í að laða fólk á staðinn. Bíóið hefur aldrei gengið betur.

Hrönn Sveinsdóttir tók við rekstri Bíó Paradísar fyrir fimm árum en þá var rekstrargrundvöllur kvikmyndahússins í algjörri óvissu. Græjurnar í þessu gamla bíói voru úr sér gengnar og erfitt var að ná í góðar myndir. Síðan hefur Hrönn gert ótal tilraunir til að glæða bíóið lífi. „Við erum fyrsta og eina menningarlega kvikmyndahús landsins og það er langt frá því að vera einfaldur rekstur. Sérstaklega vegna þess að stærstu dreifingaraðilar kvikmynda reka sín eigin kvikmyndahús. Dagskrárgerðin hefur því verið flókin og það reyndist okkur snúið að ná í góðar og spennandi kvikmyndir. Auk þess þurftum við að byggja upp kúnnahóp úr engu því svona bíó hefur aldrei verið til á Íslandi. Fyrst núna er fólk farið að átta sig á því hversu mikil vin í eyðimörkinni bíóið er.“

Hún segir Bíó Paradís skera sig úr flóru kvikmyndahúsanna fyrir margar sakir. „Við erum eina bíóið sem gerir ekki hlé á sýningum. Við sýnum áhugaverðar kvikmyndir og efni frá öllum heimshornum sem fólk hefur aldrei haft aðgang að í bíói á Íslandi áður. Það hafa hingað til aðallega verið þrír dreifingaraðilar á kvikmyndum hér á landi. Hvergi í Evrópu er hlutfall Hollywood-mynda í kvikmyndahúsum hærra en á Íslandi. Samantekt Hagstofunnar sýnir að rúmlega 90% af öllum kvikmyndum sem sýndar hafa verið í kvikmyndahúsum undanfarin 30 ár, eru Hollywood-myndir.“

Nýjar græjur eins og geimskip

Auglýsing

Þegar Hrönn tók við bíóinu þarfnaðist aðstaðan víða yfirhalningar. „Ekki nóg með að við höfðum engar myndir til að sýna, við áttum engan búnað heldur. Verkefnið virkaði óyfirstíganlegt. Við vorum að glíma við marglaga vandamál sem þurfti að leysa til að koma þessu bíói á einhvern kjöl.“

Að sögn Hrannar var það engin ein töfralausn sem sneri rekstri bíósins. „Þetta gerðist í mörgum litlum skrefum. Mér leið eins og ég hefði keypt geimskip þegar við vorum búnar að endurnýja tækjabúnaðinn. Þá þurfti að nálgast gott og fjölbreytt efni. Ekki bara góðar kvikmyndir heldur vildum við bjóða upp á beinar útsendingar frá leiksýningum, óperum og ballettum líka. Fyrst þurftum við að afla okkur tengsla í útlöndum og læra á þennan flókna heim dreifingarmála.“

Sjö gestir á Predador

Hrönn hafði trú á því að í menningarlegu kvikmyndahúsi þyrfti að sýna sígildar kvikmyndir. Það reyndist hinsvegar þrautinni þyngra. „Það var erfitt að fá sýningarrétt á þessum myndum og oft enn erfiðara af nálgast sýningareintök. Svo, þegar við vorum loksins komnar með myndirnar, þá mætti enginn til að sjá þær. Við sýndum Predador og það komu sjö! Allt í mínus og rosalegt tap. Svona gekk þetta með margar myndir sem við reyndum að byggja upp stemningu fyrir. Árið 2012 tók ég fyrir þetta, því við höfðum ekki efni á að taka svona sénsa.“

Hún segir bíóið ekki hafa verið stofnað til að sýna svokallaðar „blockbuster“ myndir heldur til að veita aðgengi að listrænum, áhugaverðum kvikmyndum sem ekki voru sýndar annarstaðar. Sígildu myndunum var þó ekki úthýst; „En við þurftum að að nálgast þær með öðrum hætti. Dagskrárhópurinn Svartir sunnudagar var stofnaður eftir rifrildi á Facebook þar sem Sigurjón Kjartansson tuðaði yfir því að við sýndum aldrei neina klassík. Upp úr því spruttu reglulegar sunnudagssýningar á költ-myndum. Aðsóknin var lítil til að byrja með og við höfðum lítið fjármagn til kynna myndirnar. Við fórum þá leið að biðja ólíka listamenn að hanna ný plaköt fyrir hverja mynd og reyndum að búa til stemningu á samfélagsmiðlum. Það gekk prýðilega og aðsóknin hefur aukist jafnt og þétt með hverju ári. Við erum því mjög stolt af Svörtum sunnudögum í dag.“

myndir

Hallærislegar næntís-myndir

Notendur bíósins eru duglegir að lýsa skoðunum sínum og óska eftir sýningum á þeirra uppáhalds költ-myndum. Margir báðu um myndir frá níunda áratugnum sem kannski þykja hallærislegar í dag en hafa öðlast ákveðna költ-stöðu með tímanum. „Við prófuðum að taka inn nokkrar þeirra og fengum sterk viðbrögð frá ákveðnum aldurshópi. Fólki milli tvítugs og þrítugs sem sýndi mikla innlifun og mætti í stuði. Við sýndum myndirnar á föstudagskvöldum þegar allir virtust vera að hita sig upp fyrir djammið. Fólk tók þessu gríðarlega vel og við höfum haldið svokallaðar þátttökusýningar á hinum ýmsu myndum þar sem fólk mætir í búningum og syngur með tónlistinni.“

Dæmi um myndir sem slógu í gegn í bíóinu á liðnu ári voru 10 Things I hate About You, The Big Lebowsky, og jólasýningar á Die Hard og Love Actually en það var uppselt á þær mörg kvöld í röð. „Í janúar sýnum við myndina um nornaklíkuna The Craft og í febrúar sýnum við Reality Bites. Við sýndum Office Space og heilu hersingarnar mættu vopnaðar hefturum. Við erum reglulega með Rocky Horror sýningar og erum nýbyrjaðar að selja miða á Hárið í febrúar. Það verður einmitt búningasýning þar sem sungið verður með öllum lögum.“

Hrönn segir þátttökusýningarnar og kvikmyndirnar frá níunda áratugnum hafa átt stóran þátt í viðsnúningi á rekstri bíósins. „Við erum orðnar lunknari í sérviðburðunum og það varð til dæmis allt vitlaust þegar við fögnuðum nýjustu plötu Nick Cave. Við ætlum að endurtaka leikinn og heiðra David Bowie í janúar með bíóviðburði á heimsvísu. Auk þess er allt annar hópur sem hefur tekið við sér og er duglegur að mæta á beinar útsendingar frá óperum og ballettum úti í heimi. Það er mjög skemmtilegt að fá inn svona ólíkan hóp kvikmyndaunnenda. Hvort sem fólk kemur til að syngja með Mamma Mia eða horfa á þriggja klukkustunda tyrkneska mynd, þá er það allt saman hluti af kvikmyndamenningu. Og hún á að vera fjölbreytt.“

Framundan í paradísinni er öflugt kvikmyndavor þar sem Óskarsverðlaunamyndirnar hrannast inn. „Við sýnum meðal annars Toni Erdmann, geggjaða mynd sem fékk evrópsku kvikmyndaverðlaunin. Leikstjórinn, Maren Ade, er fyrsta konan til að hjóta þau.
Við sýnum Moonlight, 28 Century Women og The Happiest Day in the Life of Olli Maki –sem fékk verðlaun í Cannes í fyrra. Þetta eru allt myndir sem hafa fengið frábæra dóma og eru í forvali fyrir stærstu kvikmyndaverðlaunin.“

Fáir ferðamenn

Aukin aðsókn í Bíó Paradís skýrist þó ekki með ferðamannastraumnum. Íslendingar eru miklum meirihluta þó útlendingar komi við að sjá íslenskar verðlaunamyndir. „Það er bara svo erfitt að draga ferðamennina inn úr blíðunni. Ég gekk einu sinni svo langt að þramma upp á Laugaveg með víkingahatt á höfðinu og skilti framan á mér, í þeirri von að ná inn fleiri túristum. Svolítið eins og á Costa del Sol. Það er ein af áskorunum sem við glímum við núna, að höfða betur til þeirra. Okkur hefur gengið vel að laga aðra hluti sem ekki gengu upp hjá okkur áður. Velvildin er mikil og bíóið spyrst vel út. Við hljótum að ná til túristanna fyrir rest og mér finnst ekki ólíklegt að við þurfum að stækka eftir nokkur ár.“

Myndir: Hari

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.