Kynning
Deila

„Stórbrotin náttúrufegurð ­ í faðmi hárra fjalla“

Fjallabyggð býr að stórbrotinni náttúrufegurð í faðmi hárra fjalla þar sem möguleikar á sviði útivistar og tómstunda eru óþrjótandi.

32531Fjallabyggð heliskiing2Náttúran er ávallt innan seilingar, hvort heldur haldið er í gönguferðir, farið á skíði eða fjölþættar gönguleiðir gengnar um fjöll og dali. Linda Lea Bogadóttir er markaðs og menningarfulltrúi Fjallabyggðar. Þegar hún er spurð um hvað sé framundan segir Linda:
„Við erum náttúrlega í miðri vetrarvertíð. Við erum að einblína á páskahelgina, sem er alltaf mjög stór hjá okkur. Þá verður mikið um að vera hérna hjá okkur og skíðasvæðið fyllist af fólki.“

En hvernig hefur veturinn verið fyrir norðan, svona snjólega séð ?
„Það hefur náttúrlega verið einstaklega snjóléttur vetur. En við erum svo heppin hér að skíðasvæðið er einstaklega vel staðsett. Þó það sé lítill eða enginn snjór í bænum þá getur verið allt troðfullt af snjó uppi í Skarðinu,“ segir Linda.

En fyrir þá sem ætla ekki að renna sér á skíðum ?
„Svæðið er kjörlendi fyrir göngufólk og má finna gönguleiðir fyrir alla, hvort sem menn vilja ganga á láglendi, klífa fjöll eða fornar þjóðleiðir á milli byggðarlaga. Hér eru margar skemmtilegar og fjölbreyttar leiðir í boði, allt frá léttum dagsferðum yfir í lengri og meira krefjandi ferðir. Frá miðbæ Siglufjarðar er hægt að labba upp í Hvanneyrarskál, ganga snjóflóðagarðana og önnur skemmtileg leið er upp í Skollaskál en þaðan er ofsalega fallegt útsýni yfir Siglufjörð. Ólafsfjarðarmegin er svo auðvelt að komast á Múlakollu og Hólshyrnu.

Við erum með alveg frábær afþreyingarfyrirtæki og ný fyrirtæki spretta hér upp og fólk hefur verið mjög duglegt að nýta sér það. Tröllaskaginn er náttúrlega svakaleg auðlind og ­býður upp á endalausa möguleika. Eitt sem við höfum tekið eftir að er vaxandi og hefur verið svona hulin perla er brimbrettaaldan í Ólafsfirði, hún er að laða að brimbrettafólk utan úr heimi og svo virðist þetta vera vaxandi sport hér heima líka.“
Þegar talið berst að samgöngum á svæðinu og Héðinsfjarðagöngum segir Linda:
„Með göngunum opnaðist bara alveg nýr heimur fyrir þetta svæði. Þetta hefur líka breytt svo miklu fyrir ferðafólk, við erum að fá mikið af ferðamönnum sem keyra núna Tröllaskagann, allt frá Skagafirði til Akureyrar með viðkomu á Siglufirði og í Ólafsfirði. Göngin eru mikil samgöngubót og breyttu rosalega miklu fyrir ferðamennskuna. Fyrir heimamenn var þetta líka mikil breyting, að komast inn á Akureyri sem tekur rétt rúman klukkutíma, þetta er því nánast orðið eins og eitt atvinnusvæði.“

Auglýsing

Eru þið farin að skipuleggja sumarið?
„Já, já, sú vinna er komin á fullt hjá okkur. Í Fjallabyggð er mikið og blómlegt menningarlíf á sumrin og fjölmargir viðburðir jafnt og þétt. Trilludagar verða stærsti viðburðurinn hjá okkur í sumar. Hann verður síðustu helgina í júlí, helgina fyrir verslunarmannahelgi. Óvíða finnast jafn fjölbreyttir og skemmtilegir möguleikar til þess að láta sér líða vel í jafn fallegu umhverfi og afslöppuðu andrúmslofti og er í Fjallabyggð. Þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.“

Unnið í samstarfi við Fjallabyggð

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.