Deila

Skipulögð glæpasamtök orðin stórtæk í svikum með matvöru

Skipulögp glæpasamtök stunda viðskipti með svikna matvöru eins og útþynnta ólífuolíu, kjöt og vín. Sænsk yfirvöld munu hugsanlega taka upp tveggja ára fangelsisrefsingu við matarsvikum. Þekkt matarsvikamál hafa komið upp á Íslandi og berst fjöldi ábendinga um slíkar blekkingar til Neytendastofu og Neytendasamtakanna.

Matarsvik, það að segja ósatt um innihald eða uppruna matvöru, geta í framtíðinni leitt til þess í Svíþjóð að þeir sem gerast sekir um slíkar blekkingar gagnvart neytendum geta átt yfir höfði sér ákæru og jafnvel fangelsisvist í kjölfarið. Þetta er ein af tillögunum í rannsókn á matarsvikum sem sænska ríkisstjórnin lætur nú vinna fyrir sig. Matarsvikin munu geta leitt til að tveggja ára fangelsisvistar en um þessar mundir er einungis hægt að sekta fyrir slík svik gegn neytendum.

Í sænsku rannsókninni er meðal annars fjallað um það að skipulögð glæpasamtök í Evrópu stundi slík matarsvik í talsverðum mæli, samkvæmt löggæslustofnun Evrópu, Europol. Algengustu blekkingarnar gegn neytendum eru dýr ólífuolía sem hefur verið útvötnuð með ódýrari vökvum, svínakjöt sem búið er að lita rautt og selt sem nautakjöt, ódýrari fisktegundir eru seldar sem dýrari tegundir, eldisfiskur er seldur sem villtur fiskur og saffran og chilli sem búið er að þynna með öðrum efnum. Um 60 slík matarsvikamál eru uppgötvuð í Svíþjóð á hverju ári.

Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, segir að refsiramminn í matarsvikamálum hafi aldrei verið fullnýttur. Hann segir alþjóðlegt samstarf mjög mikilvægt í slíkum málum.
Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, segir að refsiramminn í matarsvikamálum hafi aldrei verið fullnýttur. Hann segir alþjóðlegt samstarf mjög mikilvægt í slíkum málum.
Þekkt tilfelli um matarsvik
Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, sem sér um eftirlit og viðurlög með matarsvikum á Íslandi, segir að í íslenskum lögum sem stofnunin vinnur eftir sé heimild fyrir því að dæma menn í fangelsi í allt að sex mánuði fyrir að blekkja eða svíkja neytendur, að undangenginni kæru frá stofnuninni til ákæruvaldsins. Hann segir hins vegar að stofnunin hafi einungis einu sinni kært mál til ákæruvaldsins, en um var að ræða mann sem vann við að vigta fisk í höfnum landsins. Þá hefur hæstu mögulegu fjársekt, 10 milljónum króna, aldrei verið beitt í slíkum málum á Íslandi.

Þekkt tilfelli matarsvika hafa komið upp á Íslandi í gegnum árin og má meðal annars nefna nautabökumálið, þar sem ekkert nautakjöt reyndist vera í slíkum bökum frá fyrirtækinu Gæðakokkum, og Brúneggjamálið sem RÚV afhjúpaði í lok árs í fyrra þar sem meðferð á hænunum sem verptu eggjunum var ekki í neinu samræmi við kynningu og markaðssetningu fyrirtækisins á framleiðslunni. Árið 2009 úrskurðaði Neytendastofa líka í máli þar sem fyrirtækinu Eggert Kristjánssyni ehf. var bannað að nota umbúðir merktar „Íslenskt meðlæti“ þar sem djúpfrystu gulrótarskífurnar og rósakálið sem fyrirtækið seldi voru erlend framleiðsla. Í síðastnefnda málinu var fyrirtækinu ekki gert að greiða sekt heldur einungis bannað að nota áðurnefndar umbúðir.

Auglýsing

Tryggvi segir aðspurður að Brúnaeggjamálið sé ennþá til rannsóknar hjá Neytendastofu. Fram hefur komið í fjölmiðlum að Brúnegg séu gjaldþrota en sala fyrirtækisins á eggjum hrundi í kjölfar umfjöllunar RÚV. „Stundum fara þessi fyrirtæki bara lóðbeint í gjaldþrot og að hefja málarekstur gegn „dánum lögaðila“ borgar sig ekki fyrir okkur. Okkar fjármunum er betur varið öðruvísi: Að berjast við þá sem eru sprelllifandi.“

Hér er eitt dæmi um villandi framsetningu á íslenskum eldislaxi frá Arnarlaxi sem seldur er af erlendu fyrirtæki í Ástralíu undir merkinu „Arctic caught“ og með íslenska fánanum á eins og laxinn sé íslenskur. Slík framsetning á neytendapakkningum hefur verið bönnuð á Íslandi.
Hér er eitt dæmi um villandi framsetningu á íslenskum eldislaxi frá Arnarlaxi sem seldur er af erlendu fyrirtæki í Ástralíu undir merkinu „Arctic caught“ og með íslenska fánanum á eins og laxinn sé vilttur íslenskur lax en ekki norskur eldislax. Slík framsetning á neytendapakkningum hefur verið bönnuð á Íslandi.
Aukin alþjóðleg samvinna
Tryggvi segir aðspurður að Neytendastofa viti til þess að matarsvik tengist skipulögðum glæpasamtökum í öðrum löndum vegna upplýsinga frá systurstofnunum sínum víða um álfuna. „Í löndunum í kringum okkur er mikið um það að matvara sé seld á netinu og systurstofnanir okkar sitja sveittar við að reyna að rekja slóðina á bak við fyrirtækin. Þá eru það oft skipulögð glæpasamtök sem standa á bak við þetta. […] Við höfum ekki orðið vör við þetta hér með beinum hætti en systursamtök okkar í Bretlandi hafa gert það. Internetið á sér engin landamæri auðvitað en eftirlitið á sér landamæri. Ef íslenskt fyrirtæki brýtur gegn frönskum neytendum þá geta frönsk yfirvöld haft samband við okkur og það sama á við um okkur: Ef danskt fyrirtæki brýtur gegn íslenskum neytendum þá get ég ekki stoppað það.“

Brúneggjamálið er eitt þekktasta matarsvikamál sem komið hefur upp á Íslandi á liðnum árum þar sem markaðssetning eggja fyrirtækisins Brúneggja var ekki í neinu samræmi við framleiðslu eggjanna.
Brúneggjamálið er eitt þekktasta matarsvikamál sem komið hefur upp á Íslandi á liðnum árum þar sem markaðssetning eggja fyrirtækisins Brúneggja var ekki í neinu samræmi við framleiðslu eggjanna.
Aukin refsing hefur fælingarmátt
Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakannna, segir að hann telji að hert viðurlög við matarsvikum á Íslandi geti haft mikinn fælingarmátt og stuðlað að því að færri reyni að blekkja neytendur. Hann segir að Brúneggjamálið sé gott dæmi um þetta: „Varan sem seld var og auglýst sem vistvæn og seld með miklu álagi miðað við önnur egg reyndist svo ekki uppfylla þær lágmarkskröfur sem gerðar ertu til hefðbundins landbúnaðar. Þetta voru bara blekkingar í markaðssetningu.“

Ólafur segir að Neytendasamtökin fái fjölmargar ábendingar um matarsvik og blekkingar gegn neytendum við sölu á matvælum og að samtökin bendi fólki þá á að hafa samband við Neytendastofu.

Í viðtölum í sænskum fjölmiðlum við Per Bolund, ráðherra neytendamála í Svíþjóð, kemur fram að lönd víðs vegar um Evrópu séu að rýmka refsirammann í slíkum brotum gegn neytendum og að samstarf milli landa sé að aukast. „Innan Evrópusambandsins hefur sú ákvörðun verið að tekin að skerpa á neytendalögum í aðildarríkjunum og að samstarf milli neytendayfirvalda landanna eigi að vera meira. Ef matarsvik eru uppgötvuð í einu landi þá á viðkomandi land að láta önnur vita um og þá  er jafnvel hægt að stoppa svikin í öðrum löndum líka.“

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.