Deila

Stríð „atvinnuríkisins“ Ungverjalands gegn flóttafólki

Haukur Már Helgason
ritstjorn@frettatiminn.is

Í liðinni viku samþykkti ungverska þingið lög sem heimila yfirvöldum að halda öllum hælisleitendum í landinu í varðhaldi á meðan umsóknir þeirra eru afgreiddar. Til þess verða reistar gámabúðir. Amnesty International hafa lýst stefnunni sem „óforskömmuðu broti á alþjóðalögum“, sem muni hafa „hræðileg líkamleg og sálræn áhrif á konur, börn og karla sem þegar hafa orðið fyrir miklum þjáningum“. Sama dag sór Viktor Órban, forsætisráðherra Ungverjalands, 462 nýja landamæraverði til starfa, með stöðuheitið „landamæraveiðimenn“. Árið 2015 fór verulegur fjöldi fólks gegnum Ungverjaland á leið til Vestur-Evrópu. Þær ferðir voru stöðvaðar, meðal annars með uppsetningu 511 kílómetra langrar girðingar á landamærum Ungverjalands að Króatíu og Serbíu. Í september á síðasta ári töluðu samtökin Human Rights Watch um „Stríð Ungverjalands gegn flóttafólki“. Frést hefur að landamæraverðir geri sér leik úr því að binda flóttafólk, berja það og taka svo myndir af sér með fórnarlömbunum. Ástæða orðavalsins voru ekki bara beinar aðgerðir stjórnvalda heldur líka málnotkunin og yfirlýsingarnar sem fylgja aðgerðunum úr hlaði: á blaðamannafundi í júlí á síðasta ári kallaði Viktor Orbán, forsætisráðherra, innflytjendur „eitur“ og sagði hvern og einn þann sem flytur milli landa „bera með sér ógn við almannaöryggi og hættu á hryðjuverkum“.

Orbán
Viktor Orbán, fæddur 1963, er formaður ungverska stjórnmálaflokksins Fidesz (skammstöfun fyrir Fiatal Demokraták Szövetsége eða „Samfylking ungra demókrata“) og gegnir nú embætti forsætisráðherra Ungverjalands sitt þriðja kjörtímabil. Áður sat hann frá árinu 1998 til ársins 2002. Nú hefur hann gegnt embættinu frá 2010, með veglega endurnýjað umboð frá þingkosningum árið 2014, þegar sameiginlegur framboðslisti Fidesz og flokks kristilegra demókrata hlaut aukinn meirihluta þingsæta, 133 fulltrúa af alls 199. Gagnrýnendur segja að Orbán eigi kosningasigurinn að nokkru leyti að þakka breytingum sem fyrri stjórn hans gerði á kosningalöggjöfinni, sem gerði kjósendum skylt að skrá sig til að nýta kosningarétt sinn – þröskuldur, segja þeir, sem haldi frekar lægri stéttum utan kjörklefanna.

Auglýsing

32491_Viktor Órban
Orbán nam lögfræði við háskólann í Búdapest og stjórnmálaheimspeki við Oxford háskóla. Hann tók þátt í stofnun Fidesz þegar árið 1988, sem fyrsti talsmaður hans, og hefur þannig verið sýnilegur í ungverskum stjórnmálum frá því fyrir fall kommúnismans. Árið 1989, aðeins 26 ára gamall, öðlaðist hann nokkrar vinsældir þegar hann kallaði eftir því, í minningarræðu um Imre Nagy, leiðtoga ungversku byltingarinnar 1956, að sovéski heraflinn í landinu hyrfi á braut frá Ungverjalandi og gengið yrði til kosninga. Hafandi áratug fyrr verið ritari ungliðahreyfingar kommúnista í gagnfræðaskóla má segja að Orbán hafi sýnt bitastæðan skilning á því hvaðan vindar blása: í þingkosningunum 1998 var Fidesz, þá hægrisinnaður markaðsumbótaflokkur, orðinn stærsti flokkur landsins.

Fótskriða til hægri
En Fidesz snýst ekki lengur um markaðsumbætur. Í smábænum Túsnad í Transylvaníu-héraði Rúmeníu hefur verið haldin dagskrá frá árinu 1990, sem nefnist Opni sumarháskólinn. Orbán hefur lagt í vana sinn að flytja þar nokkurs konar stefnuræður en vettvangurinn gefur honum færi á að koma víðar við en í daglegum erli stjórnmálanna, og beita þjálfun sinni á sviði stjórnmálaheimspeki. Þar kynnir hann þær hugmyndir sem liggja stefnu hans til grundvallar. Samkoman er utandyra, óformleg og afslöppuð, og Orbán talar þar að mestu blaðlaust.

Ræðuna sem Orbán flutti í Túsnad eftir hinn stóra kosningasigur 2014 hóf hann á að segja stórviðburðinn sem ungversk stjórnmál ættu nú að taka mið af ekki lengur vera fall kommúnismans kringum 1990 – því breytingaskeiði væri lokið. Hinn nýi útgangspunktur væri efnahagskreppan 2008. Sá atburður marki jafn stór, söguleg skil og heimsstyrjaldir tuttugustu aldar, en kosningasigrar hans sjálfs marki skil sem séu sambærileg við fall múrsins. Orbán hefur ítrekað vísað til kosningaúrslitanna 2010 sem byltingar. Í ræðunni sagði hann Singapúr, Kína, Indland, Tyrkland og Rússland skína skært meðal ríkja heims, þrátt fyrir að vera „ekki vestræn, ekki frjálslynd og jafnvel ekki lýðræðisleg“. Frá síðasta ári hafa Bandaríki Donalds Trump bæst í ríki sem Orbán vísar til með sömu velþóknun. Þannig þurfi Ungverjaland líka að hugsa út fyrir hinn vestræna ramma og finna sitt eigið „ófrjálslynda“ samfélagsskipulag: „Lýðræðisríki er ekki endilega frjálslynt. Þó að eitthvað sé ekki frjálslynt getur það samt verið lýðræðislegt. Það sem meira er … samfélög sem byggja á frjálslyndum viðmiðum um skipulag ríkis munu ekki geta viðhaldið samkeppnishæfni sinni á komandi árum“. Tími þjóðríkisins, frjálslynda ríkisins og velferðarríkisins er liðinn, segir hann. Hvaða skipulag svarar þá betur kröfum þessara tíma? Ungverska svarið, segir Orbán, er „atvinnuríkið“.

Vinnubúðir
„Atvinnuríkið“, eða „verkferðarríkið“ – sem hér er þýtt úr enskum þýðingum á ræðum Orbáns – er óljóst hugtak eitt sér, en fær inntak í stefnu og aðgerðum ríkisstjórna hans. Frá 2012 hefur ríkisstjórnin fært ýmsan einkarekstur í eigu og umsjá hins opinbera. Fyrsta stóra aðgerðin af þeim toga var færsla séreignasparnaðar yfir í lífeyrissjóði ríkisins. Þá hafa stjórnir Orbáns þjóðnýtt starfsemi orku- og veitufyrirtækja í landinu, auk þess sem ýmis iðnaðarstarfsemi hefur verið færð í opinbera eigu. Nýverið lögfesti ríkið einkarétt sinn til bæði tóbakssölu og reksturs spilakassa. Grunnskólar landsins voru á höndum sveitarfélaga frá 1990, en rekstur og yfirumsjón þeirra hefur nú verið færð til ríkisins.
Að þessu leyti gæti Orbán virst dugmikill bandamaður vinstrisins, og „atvinnuríkið“ eitthvað sem Alþýðubandalaginu hefði ekki verið á móti skapi – eða jafnvel íslenskum stjórnmálaflokkum yfirleitt. Ríkisstjórn Orbáns hefur einnig tilkynnt áform um að fækka nemendum almennra menntaskóla og fjölga í iðnskólum og starfsnámi, sem hljómar kunngulega. Háskólanemum hefur þegar fækkað um fjórðung, miðað við árið 2005, sem er í beinu hlutfalli við niðurskurð fjárveitinga til háskólanna. Slíkur niðurskurður er auðvitað ekki óþekktur í öðrum löndum heldur.

En hugmynd Orbáns um atvinnuríkið felur fleira í sér. Frá árinu 2011 hefur atvinnulausum verið óheimilt að hafna nokkru starfi sem þeim býðst, hvað sem starfið er og hver sem launin eru. Fyrir þá sem ekki finna ráðningu á vinnumarkaði skal ríkið skapa „opinber störf“, á launum sem skulu alltaf vera undir lágmarkslaunum á vinnumarkaði. Sé vinnustaðurinn lengra en þriggja tíma ferð frá heimili starfsmanns skaffar hið opinbera gámabúðir fyrir starfsfólkið. Hafni einhver boði um að flytja í slíkar búðir til að sinna bótavinnunni missir hann eða hún ekki aðeins rétt til atvinnuleysisbóta, heldur einnig barnabóta og annars stuðnings. Með þessu átaki hefur skráð atvinnuleysi í Ungverjalandi lækkað, samkvæmt tölum OECD, úr rúmum 10 prósentum árið 2013 niður í tæp 6 prósent á síðasta ári. Innan þeirrar tölu eru yfir 230 þúsund manns skráðir til „opinberra verka“ eins og þessi störfu eru nefnd.
Beint að Rómönum
Fyrirkomulag af þessum toga er ekki ný uppfinning. Í kreppunni miklu, upp úr 1930, voru víða sett hliðstæð skilyrði fyrir atvinnuleysisbótum, meðal annars í Ungverjalandi. Víðast hafa þau verið lögð af í seinni tíð. Hörðustu gagnrýnendur kerfisins tala um nauðungarvinnu og nýtt gúlag. Aðrir hafa bent á að verulegur fjöldi forðist, eftir þessa breytingu, að tilkynna atvinnuleysi – eins og sjáist á því að yfir 50% fleiri séu nú skráðir hjá opinberri vinnumiðlun en á atvinnuleysisskrá. Reynslan sé enda sú að bótastörfin gagnist sjaldan sem stökkpallur í önnur störf, flest svið hagkerfisins krefjist annarrar hæfni en maður öðlast við þau, þessi skyldustörf innan bótakerfisins. Þá leiti sífellt fleiri Ungverjar starfa í öðrum löndum: hálf milljón ungverskra ríkisborgara lifi nú og starfi utan Ungverjalands og yfir 100 þúsund íbúar Ungverjalands ferðast daglega til vinnu í nágrannalöndunum, einkum í Slóvakíu og Austurríki.
Þegar bótavinnukerfinu var komið á lýstu margir yfir áhyggjum af því að þar með yrði Rómönum í Ungverjalandi hæglega, og löglega, útskúfað úr bæjum þar sem þeir hafa sætt mismunun og ofbeldi. Rómanar eru að minnsta kosti 3 prósent íbúa Ungverjalands, hugsanlega allt að 10 prósent. Mismunun gegn þeim jókst verulega eftir 1990, fall kommúnismans bitnaði harðar á þeim en öðrum samfélagshópum og atvinnuleysi er enn miklu hærra meðal þeirra en annarra. Rómanar eru þrefalt líklegri til að búa við fátækt en aðrir íbúar Ungverjalands. Í skýrslu samtakanna Human Rights Watch frá árinu 1996 kemur fram að í árásarhrinum nýnasista árin 1991 og 1995 hafi lögregla ekki aðeins séð gegnum fingur sér með ofbeldi gegn Rómönum, heldur jafnvel tekið þátt í því, á meðan stjórnvöld neituðu tilvist kynþáttaofbeldis í landinu yfirleitt.

32491_ungverjaland1
Fangabúðir
„Þjóðvarðlið fyrir betri framtíð“ er nafnið á vopnaðri hreyfingu sem stundar, síðustu ár, árásir á Rómana. Hreyfingin starfar í nánu samneyti við stjórnmálaflokkinn Jobbik sem er nú þriðji stærsti flokkur Ungverjalands, með 20 prósent atkvæða í kosningunum 2014. Jobbik, það eru fasistarnir hægra megin við núverandi stjórnarflokka. Fulltrúar Jobbik hafa lagt til að Rómönum landsins verði komið fyrir í „almannavarnarbúðum“ – fangabúðum að öllu leyti nema nafninu til. Vinnuflokkar og vinnubúðir bótakerfisins koma að einhverju leyti í sama stað niður. Í sjónvarpsfrétt árið 2011 var sýnt frá þrjátíu manna hópi Roma-fólks í bótavinnu við að ryðja sprek úr skógi með heygöfflum og sigðum – vinna þannig verk á mörgum dögum sem leysa mætti með traktor á nokkrum klukkustundum. „Niðrandi“ var orð sem 38 ára gamall þriggja barna faðir, fyrrverandi verksmiðjustarfsmaður, valdi til að lýsa aðstæðunum. Þetta var fyrir utan bæ á stærð við Ísafjörð, þar sem Jobbik fer með völd í bæjarráði.
„Atvinnuríki“ Orbáns virðist ekki síst grundvallast á hörku og ófyrirleitinni valdbeitingu. Ef ríki skipar hópum fólks meðal eigin ríkisborgara í nauðungarvinnu, og skyldar til dvalar í vinnubúðum, segir sig kannski sjálft að umkomulausir útlendingar sem birtast við landamærin í leit að vernd fái ekki blíðari móttökur. „Kafka var raunsæismaður,“ sagði ungverski hugsuðurinn Georg Lukács. Það er við hæfi að stjórnvöld hafi nýverið ákveðið að fjarlægja styttu af honum úr almenningsgarði í Búdapest.

Samúð og skilningur
Í ræðu sinni í Túsnad á síðasta ári sagði Orbán blákalt – í fráhnepptri skyrtu og afslappaður sem endranær á þeim vettvangi að hann líti á flutninga fólks milli landa sem „vondan hlut“. Hann hafi á tilfinningunni að aðrir ráðamenn í Evrópu vilji aðeins hægja á fólksflutningum en hann sjáflur vilji „stöðva þá því ég trúi því að þeir séu slæmir“. Um leið, sagði hann, „þurfum við að gera það ljóst að við erum ekki hjartalaus. Við gerum skýran greinarmun á innflytjendum og flutningum þeirra. Í innflytjendum sjáum við fyrst og fremst fórnarlamb – fyrir utan hryðjuverkamenn, auðvitað.“ En „fólksflutningar munu eyðileggja okkur. Og flutningarnir holdgerast í innflytjendum. Þess vegna verðum við, þrátt fyrir samúð okkar með þeim sem fórnarlömbum, að stöðva þá við landamærin og gera ljóst að þeir sem koma ólöglega til landsins verða fangelsaðir eða þeim vísað burt úr landinu.“

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.