Deila

Stríðið um laxeldið: „Þú setur ekki verðmiða á náttúruna“

Ríkisstjórnin vinnur að stefnumótun fyrir laxeldi á Íslandi. Laxeldisfyrirtæki stefna að tíföldun í framleiðslu á eldislaxi. Stór hluti fjármagns í íslensku laxeldi kemur frá norskum eldissfyrirtækjum sem vilja framleiða lax utan Noregs. Umverfisráðherra og Umhverfisstofnun telja regluverki í laxeldi ábótavant. Milljón tonna framleiðsla á eldislaxi í Noregi hefur valdið genabreytingum á viltum norsku eldislaxi.

„Ég óttast það að við séum einu sinni enn að fara af stað í einhverjum hamagangi með nýja atvinnugrein í stað þess að leyfa henni að þróast með eðlilegum hætti til að sjá kosti hennar og galla. Mér finnst sumir telja að laxeldið eigi að vera hinn nýi bjargvættur Íslands,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, aðspurð um hvaða skoðun hún hafi á auknu laxeldi á Íslandi og hvernig hún telji að stjórnvöld í landinu eigi að bregðast við því.
Hún segir að í síðustu viku hafi ríkisstjórnin ákveðið að hefja stefnumótunarvinnu um laxeldi á Íslandi sem Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegsráðherra muni leiða og að umhverfis- og auðlindaráðuneytið muni vera með fulltrúa í þeirri nefnd. „Þannig að þessi nefnd mun hafa það hlutverk að skoða laxeldið frá öllum hliðum. Við vorum síðast á fundi í gær [þriðjudag] í ráðuneytinu að ræða laxeldið.“
Sigrún segist hafa verið meðvituð um mögulegar hættur af laxeldinu í aldarfjórðung. „Ég get sagt þér það að fyrir tuttugu og fimm árum flutti ég tillögu og þrungna ræðu í borgarstjórn þegar setja átti laxeldi í Viðeyjarsund. Ég var smeyk við þann úrgang sem laxeldið hefði skilið eftir sig.“
Sigrún segir þó að hún sé ekki að segja að hún sé mótfallin laxeldi heldur einungis að skoða þurfi afleiðingar þessarar atvinnugreinar mjög vel. „Það þarf alltaf að skoða hvert tilfelli fyrir sig. Á Viðeyjarsundi var ekki nægilega mikill straumþungi til að sjórinn hefði hreinsað úrganginn frá laxeldinu. Kannski getur laxeldi verið gott við vissar aðstæður. Þess vegna er ég nú framsóknarmanneskja í hjarta mínu; ég get ekki verið svört eða hvít í öllu. Mannlífið, og allt saman, hefur ýmsar hliðar. Laxeldi getur átt rétt á sér á vissum stöðum. En ég bið fólk bara að ganga varlega um gleðinnar dyr og þetta hefur verið varúð mín lengi.“
Ríkisstjórnin telur því að aukning umsvifa laxeldisfyrirtækja á Íslandi kalli á sérstaka stefnumótunarvinnu og er sú vinna hafin nú þegar samkvæmt Sigrúnu.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hefur áhyggjur af því viðhorfi að laxeldið eigi að vera bjargvættur Íslands.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hefur áhyggjur af því viðhorfi að laxeldið eigi að vera bjargvættur Íslands.
„Um 45 prósent af útflutningsverðmætum Færeyinga er eldislax.“
Tíföldun á framleiðslu eldislaxs á íslandi
Landssamband fiskeldisstöðva hefur gefið það út að stefnt sé að því í framtíðinni að framleiða árlega á milli 60 og 90 þúsund tonn af eldislaxi á Íslandi samkvæmt Höskuldi Steinarssyni, framkvæmdastjóra. „Þetta er svipuð tala og Færeyingar eru að gera og um 45 prósent af útflutningsverðmætum Færeyinga er eldislax.“ Höskuldur var áður framkvæmdastjóri laxeldisfyrirtækisins Fjarðalax sem fyrr í sumar sameinaðist Arnarlaxi á Bíldudal. Fyrirtækið framleiðir sex þúsund af þeim átta þúsund tonnum af eldislaxi sem framleidd voru á Íslandi í fyrra og er því langstærst á íslenska markaðnum. Hærri tölur um umsóknir á framleiðsluleyfum í laxeldi hafa komið fram í fjölmiðlum, á milli 100 og 120 þúsund tonn, þannig að framleiðslan gæti orðið enn meiri en Höskuldur nefnir.
Stækkun laxeldisgreinarinnar á Íslandi er drifin áfram að hluta af hagnaðarþörf þeirra fjárfesta sem hafa lagt fé inn í greinina. Í nokkrum tilfellum, meðal annars hjá Fjarðalaxi og Laxeldi Austfjarða, kemur fjármagnið bak við laxeldið frá Noregi og norskum laxeldisfyrirtækjum.  Höskuldur segir að í fyrra hafi 8 þúsund tonn af eldislaxi verið framleidd á Íslandi, í ár sé framleiðslan um 15 þúsund tonn, hugsanlega 20 þúsund tonn árið 2018 og svo alltaf aukning í framleiðslunni þar á eftir. Því er um ræða margföldun á framleiðslu á eldislaxi á Íslandi, allt að tíföldun, ef áætlanir Landssambands fiskeldisstöðva ganga eftir.
Hagsmunaðilar í laxeldinu, eins og Höskuldur, benda hins vegar yfirleitt fyrst á mikilvægi eldisins fyrir efnahag landsins og atvinnulíf í dreifbýli þar sem laxeldi skapar nú þegar rúmlega 500 bein störf á Íslandi. Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, benti blaðamanni á að tala við fólk sem starfar í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum þegar haft var samband við hann um sýn hans á fiskeldi á Íslandi en hann vildi annars ekki tjá sig um rekstur fyrirtækisins.
Ekkert vitað um hættu lífríkisins af laxeldinu
Talsverð umræða hefur verið um lax- og regnbogasilungseldi í íslensku samfélagi í sumar og haust, meðal annars vegna hættu á sjúkdómum eins og nýrnaveiki, sem eldisfiskurinn getur borið með sér fyrir villtar laxa- og silungstegundir. Þá hefur regnbogasilungur veiðst í fiskveiðiám víða um land síðastliðin ár, meðal annars í nokkrum þekktari laxveiðiám landsins. Ástæðan fyrir því að fleiri fréttir berast af því að regnbogasilungur hafi veiðst en eldislax er líklega sú að auðveldara er að greina regnbogasilunginn en eldislaxinn. Enginn fiskur í náttúru Íslands lítur út eins og regnbogasilungur.
Fleiri aðilar hafa gefið það út að þeir ætli að hefja laxeldi, meðal annars útgerðarfélagið Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal á Vestfjörðum sem hyggur á sjö þúsund tonna eldi í Ísafjarðardjúpi, og að minnsta kosti tvö laxeldisfyrirtæki á Austurland, Laxeldi Austurlands og Laxar fiskeldi. Þá vinnur Arnarlax að því að hefja laxeldi í Bolungarvík.
Landsamband veiðifélaga hefur meðal annars tekið þátt í þessari umræðu og segir Jón Helgi Björnsson formaður samtakanna að nýrnaveiki hafi komið upp í tveimur laxaseiðastöðvum á Tálknafirði, annars vegar hjá fyrirtækinu Bæjarvík ehf. og hins vegar hjá fyrirtækinu Arctic Smolt. „Við teljum að villtum löxum stafi mikil hætta af nýrnaveikum eldislöxum. Ef sýktir laxar sleppa úr eldinu getur það haft mjög slæmar afleiðingar fyrir lífríkið. Þótt nýrnaveiki komi upp í einum og einum laxi í náttúrunni þá gerir það ekki svo mikið til en í laxeldiskvíum geta slíkar sýkingar orðið klínískar. Ef slíkir sýktir laxar sleppa úr eldinu getur það haft mjög slæmar afleiðingar fyrir lífríkið.“ Tekið skal fram að Jón Helgi er eigandi jarðarinnar Laxamýri í Aðaldal á Norðurlandi sem á veiðiréttindi í Laxá í Aðaldal.
Vilja stöðva frekari leyfisveitingar
Krafa Jóns Helga og landssambandsins er skýr. „Við teljum að stjórnvöld eigi ekki að gefa út fleiri framleiðsluleyfi fyrr en farið hefur fram ítarleg áhættugreining á umhverfisáhrifum laxeldis.“ Fjárfesting norskra stórfyrirtækja í fyrirtækjum eins og Arnarlaxi og Fjarðarlaxi byggir hins vegar á þeirri forsendu að framleiðsluleyfi fáist frá stjórnvöldum fyrir aukinni framleiðslu á eldislaxi þar sem eldisfyrirtækin þurfa að vera stór til að vera hagkvæm og arðsöm.
Jón Helgi segir að helsta gagnrýni sambandsins sé á notkun sjókvía og þá staðreynd að norski eldislaxinn er frjór og getur því fjölgað sér með villtum íslenskum löxum og breytt genamengi hans ef svo ber undir. „Við höfum engar athugasemdir við fiskeldi á landi. Það hafa verið rekin skemmtileg fyrirtæki eins og Silfurstjarnan í Öxarfirði og það sem Samherjamenn eru að gera á Reykjanesi að rækta lax á landi. Ef þetta er gert á landi ógnar eldið ekki villtum stofnum. Það eru sjókvíarnar sem eru hættulegar lífríkinu og sú staðreynd að laxinn er frjór. Laxeldisfyrirtækin hafa sagt að starfsemin sé sjúkdómafrí en svo kemur í ljós að svo er ekki. Svo ætla menn að taka þessa stöðu sem nú er og tuttugufalda laxeldið að stærð. Hvernig halda menn að náttúran muni þá líta út?.“
Þegar Jón er spurður að því hvaða fjárhagslegu hagsmuni hann og landeigendur við laxveiðiár hafi sem heild af sölu veiðileyfa í árnar segir hann að það séu upphæðir sem hann sé ekki með á hraðbergi. Hann segir hins vegar að sala veiðileyfa sé mikill stuðningur við búsetu og bændur víða um land, til dæmis í Aðaldalnum þar sem annar hver bær fái tekjur af sölu veiðileyfa. „Þetta snýst samt bara um að vernda náttúru Íslands. Þú setur ekki verðmiða á nátturuna. Við erum búin að hafa þessa laxastofna hérna frá því að við byggðum þetta land. Við höfum ekki leyfi til þess, í boði norskra stórfyrirtækja, að fórna þessum stofnum.“
„Við sjáum fram á langt og strangt stríð“
20 þúsund tonn hafa ekki spillt laxastofnum
Höskuldur Steinarsson hjá Landssamtökum fiskeldisstöðva segir aðspurður að það að stöðva leyfisveitingar í laxeldi myndi hafa „gríðarlegar afleiðingar“. „Þetta myndi stöðva atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Þetta er fáheyrð krafa hjá þeim.“
Höskuldur segir að laxeldi í sjókvíum hafi verið stundað á Íslandi frá aldamótum og búið sé að framleiða um 20 þúsund tonn af eldislaxi án þess að þetta hafi haft afleiðingar á íslenska laxastofna. „Meginpunkturinn í þessu er að laxeldi í sjókvíum  er óheimilt á svæðum þar sem eru raunverulegir hagsmunir íslenskra laxastofna. Við erum á þeim svæðum sem við erum til að vernda íslenska laxastofna. Þetta hefur ekkert breyst. Það er búið að ala meira en 20 þúsund tonn af eldislaxi í sjókvíum frá aldamótum án þess að það hafi haft slæmar afleiðingar á laxastofna á Íslandi. Svæðaskipulagið á Íslandi, að hafa bannsvæði til verndar laxastofnunum, er mikilvægt.“
laxeldi2
Mistökin í Noregi
Jón Helgi segir að samtökin horfi eðlilega til Noregs eftir fordæmi um hvað geti gerst á Íslandi. Norsk laxeldisfyrirtæki framleiða um milljon tonn af eldislaxi árlega en það er um tíu til tuttugu sinnum meira íslensk laxeldisfyrirtæki koma til með að framleiða ef hugmyndir þeirra verða að veruleika. „Þetta leiddi til þess að 2/3 laxastofna í Noregi er með erfðamengun og 1/3 er með verulega erfðamengun. Mér finnst alveg óþarfi hjá íslenskum stjórnvöldum að ætla að setja íslenska náttúru í sömu stöðu og í Noregi. Við sjáum fram á langt og strangt stríð,“ segir Jón Helgi.
Höskuldur segir hins vegar að einn grundvallarmunur sé á Noregi og Íslandi og hann sé sá að sjókvíarnar sem Norðmennirnir notuðu hafi verið lélegri en þær sjóvkvíar sem íslensk fyrirtæki nota í dag og því hafi fleiri laxar sloppið úr norsku sjókvíunum en úr íslensku kvíunum í dag. „Norðmenn voru búnir að ná framleiðslunni upp í milljón tonn áður en þeir byrjuðu að nota betri sjókvíar. Það hefur orðið mikil þróun í laxeldinu og búnaðurinn á Íslandi er einstaklega góður.“
Slys hafa átt sér stað í laxeldi á Íslandi, laxar hafa sloppið úr eldiskvíum, síðastliðin ár en þau eru ekki mörg. Eitt hið stærsta er þegar 200 laxar sluppu úr eldiskvíum frá Fjarðalaxi í Patreksfirði í nóvember árið 2013. Laxarnir veiddust svo í firðinum árið eftir og var fjallað um þetta í fjölmiðlum. Höskuldur segir að fara þurfi aftur til ársins 2003 til að finna annað sambærilegt slys. Hann segir að eftir því sem búnaðurinn í laxeldi verði betri þeim mun minni líkur séu á því að slík slys endurtaki sig. Í umræðum um laxeldi í heiminum er hins vegar alltaf gengið út frá því að einhverjir laxar sleppi úr sjókvíum og er stundum talað um töluna eitt prósent í því samhengi.
Noregur leitar til aflanda og Íslands
Stóraukið laxeldi á Íslandi, margföldun árlegrar framleiðslu á eldislaxi, er áhugavert meðal annars í ljósi þess að norsk eldisfyrirtæki hafa sjálf verið að leita annarra leiða en að byggja upp laxeldissöðvar í fjörðum Noregs. Ein af hugmyndunum sem fyrirtækin hafa verið að vinna með er aflandslaxeldi, það er að segja að staðsetja sjókvíarnar fyrir laxana lengst út í ballarhafi en ekki alveg upp við strendur Noregs. Ein af ástæðunum fyrir þessu er meðal annars sú að laxeldisleyfi kostar um 10 milljónir norskra króna, ríflega 140 milljónir íslenskra króna, en kostar einungis þrjúhundruð þúsund á Íslandi.
Þannig hefur laxeldisrisinn Salmar, sem eftir sameiningu Arnarlax og Fjarðalax er orðinn stærsti einstaki fjárfestirinn í laxeldi á Íslandi, fengið leyfi til þróa slíka laxeldiseldisstöð á hafi úti. Fyrirtækið var hið fyrsta  í Noregi til að fá slíkt leyfi frá norskum yfirvöldum, samkvæmt frétt sjávarútvegsvefsíðunnar Undercurrent News frá því í apríl. Salmar hefur fjárfest í slíku verkefni fyrir 690 milljónir norska króna, tæpa tíu milljarða króna, sem er miklu hærri upphæð en fyrirtækið greiddi fyrir hlutafé í Arnarlaxi.
Norsk laxeldisfyrirtæki leita því leiða til að  færa sig frá Noregi og til annarra landa og haf út vegna þeirrar reynslu sem norsk laxeldisfyrirtæki hafa haft af því að koma laxeldisstöðvum fyrir í fjörðum landsins. Í frétt Undercurrent News var haft eftir greinandanum Salman Alam hjá fyrirtækinu Carnegie að flutningurinn á laxeldinu frá Noregi væri tilkominn af tveimur ástæðum: „Ég tel að að fiskeldisfyrirtækið séu almennt séð að leita nýrra leiða að rækta fisk og fyrir þessu eru tvær meginástæður. Önnur er sú að nýta betur hafsvæði utan fjarða og vatna í Noregi. Í öðru lagi að að draga úr þeim lífræðilegu afleiðingum sem fiskeldi hefur í dag og mögulega útrýma líffræðilegum fylgifiskum þess eins og lúsa á laxi og ISA-veiki (infectious salmon anemia) í löxum.“
Þrátt fyrir að norsk laxeldisfyrirtæki leiti þessara leiða til að breyta framleiðslunni hjá sér þá þýðir það ekki að framleiðslan muni minnka hjá þeim; framleiðslan mun bara færast annað, meðal annars til Íslands.
Tíu prósenta árlegur vöxtur hefur verið í laxeldi í Noregi síðastliðin tuttugu ár og er stefnt að framleiðslu fimm milljóna tonna af eldislaxi hjá norskum fyrirtækjum árið 2050. Á Íslandi hefur framleiðslan verið aukin um 80 prósent á milli síðasta árs og þess og svo á greinin að vaxa á hverju ári.
Einar Örn Ólafsson og meðfjárfestar hans í FJarðalaxi sameinuðust Arnarlaxi á Bíldudal fyrr á árinu. Kaupverð hlutabréfanna í fyrirtækinu nam 3.7 milljörðum og kom mest af fjármögnunni frá norsku laxeldisfyrirtæki. Hluthafar Fjarðalax fengu tvo milljarða í peningum og 1.7 milljarða í formi hlutafjár í sameinuðu laxeldisfyrirtæki Arnar- g Fjarðalax.
Einar Örn Ólafsson og meðfjárfestar hans í Fjarðalaxi sameinuðust Arnarlaxi á Bíldudal fyrr á árinu. Kaupverð hlutabréfanna í fyrirtækinu nam 3.7 milljörðum og kom mest af fjármögnunni frá norsku laxeldisfyrirtæki. Hluthafar Fjarðalax fengu tvo milljarða í peningum og 1.7 milljarða í formi hlutafjár í sameinuðu laxeldisfyrirtæki Arnar- g Fjarðalax.
Umhverfisstofnun segir lagaumverfi ábótavant
En hvernig er laga- og regluumhverfi fiskeldis á Íslandi háttað miðað við Noreg til dæmis? Norðmenn hófu framrleiðslu á eldislaxi í byrjun áttunda áratugarins og hafa frá árinu 2010 framleitt milljón tonn á ári á meðan framleiðslan á Íslandi var 8 þúsund tonn í fyrra. Stjórnarformaður eins norska laxeldisfyrirtækisins MNH Holding, sem hefur keypt sig inn í Fiskeldi Austfjarða hf. sagði í fyrra að Íslendingar væru á sama stað hvað varðar laxeldi og Norðmenn fyrir „tíu til fimmtán árum“.
Íslendingar eru því ekki komnir nándar nærri eins langt í Norðmenn í framleiðslu á eldislaxi og öllu sem af því leiðir eins og laga- og regluverki.
Í svari frá sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun, Sigrúnu Ágústsdóttur, við fyrirspurn Fréttatímans kemur fram að stofnunin telji að bæta þurfi lagaumhverfi í laxeldi á Íslandi. „Stofunin telur skorta skipulagslöggjöf á hafsvæðum þar sem fram fer og áformað er umfangsmikið fiskeldi. Undirbúningur lagafrumvarps þar að lútandi stendur yfir.“
Bæði umhverfisráðherra, sjávarútvegsráðherra og Umhverfisstofnun telja því að eins og er sé regluverk utan um laxeldi á Íslandi bágborið og það beri að bæta áður tekin verða stærri skref í átt til enn meiri framleiðslu á eldislaxi. Á meðan þessi vinna fer fram geisar hins vegar það sem einn af viðmælendum Fréttatímans kallar „stríð“ um laxeldi á Íslandi á milli hagsmunaðila og annarra sem líta á spurninguna um laxeldið sem sitt hjartans mál.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.