Deila

Sýrt grænmeti er allra meina bót

Lærðu að sýra þitt eigið grænmeti og bættu heilsuna

Mjólkursýring er ævagömul náttúruleg leið til að geyma grænmeti en sýrt grænmeti er löngu þekkt fyrir hollustu sína. Flestir kannast líklega við súrkál, en færri vita kannski að það hægt er að sýra næstum allt grænmeti. Sé það unnið með hefðbundnum aðferðum kallar það fram ýmsar góðar bakteríur og mjólkursýrugerla sem eru góðir fyrir þarmaflóruna og í raun nauðsynlegir fyrir meltinguna. Vítamín varðveitast vel með þessari geymsluaðferð og aukast jafnvel. C-vítamín er eitt þeirra. Þá er sýrt grænmeti auðmeltanlegra en það ferska.
Mjólkursýrubakteríur eru náttúrulega til staðar á grænmetinu en aðferðin snýst um að skapa réttar aðstæður til að þær nái yfirhöndinni og komi af stað gerjun.

Til að prófa sig áfram í mjólkursýringu er engin þörf á sérstökum tækjum eða tólum. Í flestum eldhúsum er að finna það sem til þarf. Skurðarbretti, hnífur, grænmeti, salt og stór glerkrukka er nóg til að koma sér af stað.

Mánudaginn 9. janúar næstkomandi, klukkan 17.30, mun súrkálsmeistarinn Dagný Hermannsdóttir hefja erindaröðina Eldhúsdagar á bókasafninu, á Bókasafni Seltjarnarness, þar sem hún mun leiða gesti í ferðalag um undraheima súrkálsins og fræða um hollustu mjólkursúrsins. Þar að auki fá gestir að smakka á súrmetinu.

Auglýsing

Fyrir þá sem vilja ganga enn lengra og kynna sér mjólkursýringu af alvöru, þá stendur Garðyrkjufélag Íslands fyrir námskeiði í að sýra grænmeti miðvikudaginn 11. janúar, frá kl 18.30 til 22, í Síðumúla 1 í Reykjavík.

Það er Dagný sem heldur utan um námskeiðið og eys úr viskubrunni sínum, sem er botnlaus þegar kemur að sýrðu grænmeti. Hún heldur jafnframt úti facebook-síðunni: Súrkál og annað mjólkursýrt grænmeti, þar sem áhugafólk um sýrt grænmeti skiptist á ráðum og uppskriftum.

Skráning á námskeiðið er í gegnum netfangið: gardyrkjufelag@gardurinn.is eða í síma 853-9923.

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.