Deila

Norðmenn taka ríkisborgararétt aftur af útlendingum

Fordæmalausar aðgerðir norsku útlendingastofnunarinnar hafa vakið harkaleg viðbrögð í landinu. Stofnunin hefur afturkallað norskan ríkisborgararétt sem nokkrum útlendingum var veittur fyrir áratugum og eru nú sagðir hafa veitt rangar upplýsingar um aðstæður sínar. Fjölskylda sem búið hefur í Noregi í 27 ár, verður send úr landi. 5000 manns eiga á hættu að missa vegabréf sín.

Norðmenn, sem undanfarin ár hafa verið í fararbroddi í móttöku flóttafólks, hafa nú ráðist í umdeildar og fordæmalausar aðgerðir til að vísa útlendingum úr landinu. Aðgerðirnar eiga sér ekki hliðstæðu á Norðurlöndum og eru harkalegri en tíðkast í flestum Evrópuríkjum, eftir því sem Fréttatíminn kemst næst.
Norska útlendingastofnunin hefur tekið upp á því að endurskoða langt aftur í tímann hvers vegna útlendingum hefur verið veittur norskur ríkisborgararéttur. Í takt við nýjan tón í norskri innflytjendapólitík hefur stofnunin boðað hertari leit að þeim sem hafa „logið sig inn í landið“.
30729 Sylvi Listhaug2
Sylvi Listhaug
Umdeildasta stjórnmálakona landsins, útlendingamálaráðherrann Sylvi Listhaug, hefur lýst því yfir að það sé markmið ríkisstjórnarinnar að vísa 9 þúsund ólöglegum innflytjendum úr landinu á einu ári. Til að afhjúpa lygarana hefur margvíslegum aðgerðum verið hrundið í framkvæmd.
Aðgerðir útlendingastofnunarinnar fela í sér að fara aftur yfir og endurmeta þau gögn sem útlendingar lögðu fram þegar þeir sóttu um hæli í Noregi. Komi á daginn að þeir hafi framvísað ófullnægjandi gögnum eða röngum skilríkjum, verður þeim vísað úr landinu sama hve lengi þeir hafa búið þar. Starfsmenn stofnunarinnar hafa á undanförnum árum kafað ofan í skjalamöppur og fundið ýmislegt sem þeir telja ekki standast skoðun í dag.
32533 Mahad Mynd - NRK
Mahad í viðtali við NRK

Nafnlaus ábending varð að sprengju

Meðal þess sem hefur verið til sérstakrar skoðunar eru pappírar Mahad Adib Mahamud. Útlendingastofnunin upplýsir að það hafi verið nafnlaus ábending um uppruna Mahads sem hratt rannsókninni á máli hans af stað að nýju.
Mahad kom til Noregs fjórtán ára gamall og hefur búið í landinu í 17 ár. Á þeim tíma hefur hann menntað sig, eignast fjölskyldu og heimili og starfar sem lífverkfræðingur við Ullevål sjúkrahúsið í Osló.
Þegar Mahad sótti um hæli í Noregi lagði hann fram gögn sem gáfu til kynna að hann væri frá Sómalíu. Starfsmenn útlendingastofnunarinnar hafa farið yfir þau að nýju og segja nú ómögulegt að meta sannleiksgildi þeirra. Þeir telja að Mahad sé frá nágrannalandinu Djibouti og að hann hafi logið til um uppruna sinn þegar hann kom til Noregs.
Spítalinn allur með Mahad
Þann 20. janúar var Mahad tilkynnt um ákvörðun útlendingastofnunarinnar, að hann yrði sviptur vegabréfi sínu og ríkisfangi og þyrfti að yfirgefa landið. Heiftarleg viðbrögð urðu við málinu í norskum fjölmiðlum og var meðal annars haldinn samstöðufundur við Mahad fyrir utan útlendingastofnunina og fjölmenn mótmælaganga var um miðbæ Oslóar þar sem þátttakendur báru kyndla. Mikill fjöldi almennings lýsti yfir stuðningi við Mahad. 23 þúsund manns skrifuðu undir mótmæli og áskorun til útlendingastofnunarinnar um að leyfa Mahad að vera áfram norskur ríkisborgari. Starfsfólk Ullevål spítalans sendi harðorða stuðningsyfirlýsingu á fjölmiðla og þekktir lögfræðingar landsins skárust í leikinn og gagnrýndu aðgerðina. Efnt hefur verið til peningasöfnunar en Mahad hefur varið mörgum milljónum í lögfræðiaðstoð vegna málsins.

Stjórnmálamenn hafa tekist á um hvort hið nýja verklag útlendingastofnunarinnar standist norsk lög. Stjórnarandstaðan lagði fram frumvarp til að hnekkja á vinnubrögðunum og mikil andstaða var við verklagið í norska Stórþinginu. Leiðtogi Kristilega þjóðarflokksins, Knut

32533 knut-arild-hareide2_foto-agnete-brun
Knut Arild Hareide

Arild Hareide, sagði að athæfi eins og að framvísa fölsuðum skilríkjum, yrði að fyrnast eins og önnur afbrot í öðrum málaflokkum. Hann sagði það ósanngjarnt og ómannúðlegt að rífa fólk upp með rótum og vísa á dyr jafnvel þó það hefði komist inn í landið á hæpnum forsendum. Á endanum var niðurstaða þingsins að útlendingastofnunin mætti ekki taka svo afdrifaríka ákvörðun sjálf. Málinu yrði vísað til dómstóla.

Auglýsing

Dómurinn Mahad í óhag
Norski þingrétturinn kvað upp dóm í málinu í liðinni viku sem studdi aðgerðir útlendingastofnunarinnar. Niðurstaða dómsins var að Mahad hefði að öllum líkindum veitt rangar upplýsingar þegar hann kom til Noregs. Arild Humlen, verjandi Mahads, sagði niðurstöðuna reiðarslag, umbjóðandi hans stæði fast á sínu að hann væri frá Sómalíu og hefði ekki logið til um hvaðan hann kæmi.
„Ég ætla að áfrýja dómnum. Ég hef búið í Noregi í 17 ár og baráttu minni er ekki lokið. En það er mjög erfitt að kyngja því að vera stimplaður lygari,“ sagði Mahad í samtali við Verdens Gang.
Yfirvöld í Djibouti hafna því að Mahad sé þaðan og neita að taka við honum ef Norðmenn hyggjast senda hann þangað eftir að hafa svipt hann ríkisfanginu. Mahad hefur beðið um að verða sendur til Sómalíu í staðinn.
Ingunn-Sofie Aursnes sem stýrir áfrýjunarnefnd útlendingastofnunarinnar, sagði dóminn sýna fram á að útlendingastofnunin mætti starfa áfram á sömu braut. Stofnunin hefur lýst yfir að leit verði efld að þeim sem hafa logið eða framvísað röngum skilríkjum þegar þeir sóttu um hæli í Noregi. Um fimm þúsund manns eiga á hættu að missa norskan ríkisborgararétt sinn og verða vísað úr landi.
Hent út eftir 27 ár
Meðal 35 afturköllunarmála sem hafa komið inn á borð áfrýjunarnefndar útlendingastofnunarinnar eru eldri mál en Mahads. Stofnunin hyggst nú vísa tólf manna fjölskyldu úr landi og svipta þau öll norsku ríkisfangi.
Hjón með þrjú ung börn komu til Noregs árið 1990. Nú, 27 árum síðar, fengu þau, börnin og barnabörnin öll, fyrirmæli frá útlendingastofnuninni um að skila vegabréfum sínum til lögreglunnar og yfirgefa landið. Þau hafa ekki viljað koma fram undir nafni í fjölmiðlum, af tillitssemi við börnin.
„Við vorum fimm þegar við komum, nú erum við tólf. Hversvegna þarf að refsa okkur öllum fyrir þetta eftir 27 ár? Spyr einn af sonum hjónanna. Hann er 35 ára í dag og þekkir ekkert annað en að búa í Noregi.
Útlendingastofnunin heldur því fram að foreldrarnir hafi verið jórdanskir ríkisborgarar en veitt rangar upplýsingar um uppruna sinn. Ástæða þeirrar tilgátu stofnunarinnar er skýrsla frá árinu 1996 frá vegabréfseftirliti gamla flugvallarins á Fornebu í Osló og skráningar í jórdönskum gagnagrunnum. Fjölskyldan segir þetta byggja á misskilningi og hefur lagt fram gögn sem sýnir að þau voru palestínskir flóttamenn í Sýrlandi áður en þau komu til Noregs.
Fjölskyldan öðlaðist norskan ríkisborgararétt 1997, sjö árum eftir að þau komu til Noregs. Árið 2012 fengu þau hinsvegar bréf frá útlendingastofnuninni sem í stóð að þau yrðu að skila vegabréfum sínum til lögreglunnar. Þeim var skipað að yfirgefa Noreg og Schengen-svæðið fyrir 1. ágúst 2016. Málið hefur hinsvegar velkst um í kerfinu, meðal annars vegna pólitískra álitamála, og fjölskyldan er í Noregi.
„Ég var níu ára þegar ég kom til Noregs, systir mín var bara fjögurra ára. Núna eftir 27 ár í landinu, verður allt tekið frá okkur. Hversvegna fyrnast afbrot í sakamálum en ekki málum sem varða ríkisborgararétt?, spyr sonur hjónanna í viðtali við Aftenposten.
Norðmenn harkalegastir
Hvorki í Danmörku né Svíþjóð hefur ríkisborgararéttur verið tekinn af fólki, eftir því sem Fréttatíminn kemst næst. Í Hollandi og Frakklandi er það aðeins refsivert athæfi sem getur leitt til þess að fólk missi ríkisborgararéttindi sín. Í Þýskalandi má afturkalla ríkisborgararétt fólks en aðeins innan við fimm árum eftir að réttindin voru veitt. Í Noregi er hinsvegar enginn fyrningarfrestur í málum sem varða ríkisborgararéttindi, og afar fátt í norskum lögum sem meinar yfirvöldum að afturkalla veitt ríkisborgararéttindi. Á Íslandi er það stjórnarskrárvarinn réttur þess sem hefur öðlast íslenskan ríkisborgararétt, að hann er og verður íslenskur ríkisborgari. Í 66. grein stjórnarskrárinnar segir: „Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti. Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki.”
Útlendingaandúðin eykst
Þó Mahad hafi notið gríðarlegs stuðnings meðal almennings hefur útlendingaandúð mælist meiri en áður í Noregi. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun, sem Aftenposten og Adresseavisa létu gera, telur þriðji hver Norðmaður að norskri menningu sé ógnað af innflytjendum. Tortryggnin mælist mest á landsbyggðinni, meðal karlmanna og eldra fólks.
Algjör viðsnúningur hefur orðið á norskri innflytjendapólitík frá því hægriríkisstjórn Ernu Solberg komst til valda árið 2013. Í áraraðir fram að því voru Norðmenn í hópi þjóða sem tóku hvað best á móti innflytjendum, samkvæmt alþjóðlegum mælingum.
Norðmönnum hefur tekist hvað best til við að taka á móti og aðstoða innflytjendur sem setjast að í landinu. Innflytjendur í Noregi hafa orðið virkir þátttakendur í samfélaginu á mettíma og átt greiðari aðgang að atvinnulífi og þjónustu en innflytjendur í öðrum löndum. Norðmenn hafa notið virðingar í alþjóðasamfélaginu fyrir að vera rausnarlegir í móttöku flóttamanna og úrræðagóðir í að skapa fjölmenningarsamfélög. Þeir hafa hlutfallslega tekið við margfalt fleiri flóttamönnum en Íslendingar, og í Noregi býr 4,5% hærra hlutfall innflytjenda en á Íslandi.
Norðmenn reyndust árið 2014 vera fjórða besta þjóðin í móttöku og aðlögun innflytjenda, samkvæmt alþjóðlegri samanburðarmælingu MIPEX. Í mælingunni var horft til hvernig pólitískar ákvarðanir þjóðanna hafa veitt innflytjendum gjaldgengi í samfélaginu. Mældir voru nærri 150 pólitískir áhrifaþættir og var horft til atvinnuþátttöku innflytjenda, menntunar, stjórnmálaþátttöku, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og ekki síst verndar gegn mismunun.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.