Deila

Tap Samherja af sjómannaverkfallinu álíka hátt og arður Þorsteins Más og Helgu

Sjómannaverkfallið hefur staðið í átta vikur og nemur tekjutap stærsta útgerðarfélags landsins, Samherja, milli þriggja og fjögurra milljarða króna.

Tekjutap útgerðarrisans Samherja af sjómannaverkfallinu sem nú hefur staðið yfir í átta vikur er álíka hátt og þær arðgreiðslur sem Þorsteinn Már Baldvinsson og fyrrverandi eiginkona hans, Helga S. Guðmundssonar, hafa fengið frá Samherja síðastliðin sex ár. Eignarhaldsfélag þeirra, Steinn ehf., sem heldur utan um hlutabréfaeign þeirra í Samherja hefur greitt þeim 3,5 milljarða króna á síðustu árum en þrátt fyrir þetta átti fyrirtækið samt 2,8 milljarða í reiðufé í árslok 2015 eins og Fréttatíminn greindi frá í október.

Samtals nema þessar upphæðir því 6,3 milljörðum króna sem eru miklu hærri upphæð en þeir 3 til 4 fjórir milljarðar króna sem Þorsteinn Már sagði í vikunni að verkfallið hefði kostað Samherja í tekjutap. „Við erum að flytja út sjávarafurðir á þessum tíma fyrir svona 350-400 milljónir. Þá segir það sig sjálft að eftir 8 vikur er útflutningsverðmætið á bilinu 3-4 milljarðar,“ sagði Þorsteinn Már í viðtali við RÚV.
Ekki fást nákvæmar upplýsingar um það á hverju samningaviðræður sjómanna og útgerðarfyrirtækjanna stranda. Það litla sem vitað er er að karpað er um olíuviðmið og dagpeninga í stað sjómannaafsláttar. Þess vegna er ekki hægt að reikna út hversu háar fjárhæðir er um að ræða sem deilan steytir á og hvert umfang þeirra er í samanburði við hagnað og arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækjanna.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segist vera í fjölmiðlabanni að beiðni Ríkissáttasemjara og að hún ætli sér að virða það.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.