Deila

Thomas plantaði lygum í Nicolaj

Lögregla telur að Thomas Møller Olsen hafi reynt að hafa áhrif á framburð Nicolaj Olsen um hvarfið á Birnu Brjánsdóttur, með því að ljúga að honum hvað gerðist nóttina örlagaríku. Thomas sagði Nicolaj að tvær stelpur hefðu verið í bílnum. Þó Nicolaj sé talinn trúverðugur í yfirheyrslum hefur lögregla ekki útilokað að hann hafi átt þátt í að brjóta gegn Birnu. Thomas verður áfram í gæsluvarðhaldi.

Þóra Tómasdóttir
thora@frettatiminn.is

Þegar Polar Nanoq hafði siglt frá Hafnarfjarðarhöfn, laugardagskvöldið 14. janúar eftir að Birna Brjánsdóttir hvarf, ræddi Thomas Møller Olsen við Nicolaj Olsen um hvað hafði gerst. Nicolaj hefur ávallt borið við minnisleysi vegna mikillar ölvunar nóttina sem Birna hvarf. Vitni hafa staðfest hve ölvaður Nicolaj var og það sést greinilega á myndbandsupptöku frá höfninni.

Samkvæmt heimildum Fréttatímans gaf Thomas sig á tal við Nicolaj um borð og lét eins og tvær stelpur hefðu verið með þeim í rauðu Kia Rio bifreiðinni. Lögregla telur að Thomas hafi með margvíslegum hætti reynt að hafa áhrif á minni og framburð Nicolaj með því að bera í hann ósannindi um það sem átti að hafa gerst. Ekki er talið að aðrir en Birna hafi verið með þeim í bílnum.

Auglýsing

Nicolaj mun hafa greint frá því í fyrstu yfirheyrslunum að hann héldi að tvær stelpur hefðu verið í bílnum. Eftir nokkurn tíma í gæsluvarðhaldi sagðist hann hafa áttað sig á því að hann minntist þess ekki að hafa séð tvær stelpur og greindi lögreglu frá því að þær upplýsingar hefði hann frá Thomasi.

Lögregla telur að annar skipverjanna eða báðir hafi brotið á Birnu Brjánsdóttur áður en hún var myrt. Ekki er vitað hvort það hafi gerst áður en Nicolaj yfirgaf bílinn og Thomas varð einn eftir með Birnu. Þó Thomas sé grunaður um að hafa ráðið henni bana, er ekki hægt að útiloka að Nicolaj hafi verið í bílnum og jafnvel átt þátt í að veitast að henni. Þess vegna er Nicolaj ekki alveg laus allra mála, þó hann sé ekki lengur í haldi. Ekki er talið að Nicolaj geti veitt frekari upplýsingar sem varpa ljósi á atburðarásina.

Héraðsdómur Reykjaness framlengdi í gær gæsluvarðhald yfir Thomasi um tvær vikur. Úrskurðurinn verður kærður til Hæstaréttar.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.