Deila

Þorsteinn Már og Helga hafa fengið 3.5 milljarða frá Samherja

Ársreikningar eignarhaldsfélags Þorsteins Más Baldvinssonar sýna ævintýralegan hagnað hans á Samherja. Samherji borgaði 729 milljónir króna í veiðigjöld en félag Þorsteins Más Baldvinssonar sem á hlutabréf í útgerðinni borgaði 660 milljónir króna til hluthafa. Félag Þorsteins Más á 2,8 milljarða og skuldar ekkert. Ef félagið hefði ekki greitt 3,5 milljarða út úr félaginu ætti það um 6,3 milljarða.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og annar aðaleigandi Samherja, og fyrrverandi eiginkona hans, Helga S. Guðmundsdóttir, hafa á síðustu sex árum fengið rúmlega 3,5 milljarða greidda út úr eignarhaldsfélaginu sem heldur utan um hlutabréf þeirra í Samherja. Þetta kemur fram í ársreikningum Eignahaldsfélagsins Steins síðastliðin án en ársskýrslu félagsins síðastliðið ár var nýlega skilað til embættis ríkisskattstjóra.
Upphæðin nemur tæpum 6,5 prósentum af heildartekjum Landspítalans í fyrra, tæplega 65 prósentum af rekstarkostnaði Ríkisútvarpsins og tæplega 13.500 lágmarkslaunum á vinnumarkaði árið 2016.
Peningarnir hafa verið teknir út úr félaginu þannig að fyrirtækið, Eignarhaldsfélagið Steinn ehf., hefur keypt hlutabréf í félaginu af þeim Þorsteini og Helgu og svo fær félagið undanþáguheimild frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu til greiða hlutafé út úr félaginu til þeirra.  Þannig geta þau tekið fjármuni út úr félaginu án þess að greiða sér arð. Þetta kemur fram í ársreikningum Eignarhaldsfélagsins Steins síðastliðin ár.
Í fyrra keypti félagið eigin hluti fyrir 660 milljónir króna sem greiddar voru til þeirra Þorsteins Más og Helgu. Þetta var hærri upphæð en þær 534 milljónir sem fyrirtækið fékk í arð frá Samherja en hagnaður félagsins nam sömu upphæð. Síðastliðin ár hefur félagið greitt út nokkurn veginn sömu upphæð til Þorsteins og Helgu og fyrirtækið hefur fengið í arð frá Samherja.
Samherji er langstærsta útgerðarfélag landsins og er annar stærsti handhafi kvóta á Íslandi á eftir HB Granda. Stærsti hluti starfsemi Samherja fer hins vegar fram erlendis. Í fyrra greiddi Samherji 729 milljónir króna í veiðigjöld til ríkisins fyrir afnot af aflaheimildum sínum, aðeins 69 milljónum meira en Þorsteinn Már og Helga greiddu út úr eignarhaldsfélagi sínu.
Í árslok í fyrra átti félagið reiðufé upp á rúmlega 2,8 milljarða króna en þegar sú upphæð er lögð saman við þá upphæð sem tekin hefur verið út úr fyrirtækinu síðastliðin ár þá nemur heildarupphæð þess fjár sem félagið hefur átt rúmum 6.3 milljörðum króna. Þar að auki eru eignarhlutirnir í Samherja sem bókfærðir eru til eignar á einungis hluta af raunverulegu verðmæti sínu, 2,8 milljarða krona. Félagið skuldar lítið sem ekkert.
Ekki náðist í Þorstein Má við vinnslu fréttarinnar. Tekið skal að ársreikningar eignarhaldsfélags hans eru óendurskoðaðir.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.