Deila

Tónlistarskólar eru undirstaða tónlistarlífsins

Félagsmenn í Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) hafa verið án kjarasamnings við sveitarstjórnaryfirvöld frá fyrsta nóvember á síðasta ári, í rúma 400 daga. Um er að ræða tvo af hverjum þremur starfandi tónlistarkennurum í landinu. Þreyta er komin í hópinn, viðræður standa yfir en langt virðist vera milli samningsaðila. Fréttatíminn tók tvo tónlistarkennara tali.

Örlygur Benediktsson starfar við Tónlistarskóla Árnesinga og kennir einnig við Tónlistarskóla Rangæinga. Hann hefur eins og fleiri kollegar hans verið að telja dagana sem tónlistarkennarar innan vébanda FT hafa verið samningslausir. Örlygur kennir tónfræði og á klarinettu og saxófón.

„Tónlistarkennsla er í mínum huga skemmtilegur og mikilvægur starfsvettvangur. Ég er nú búinn að kenna í ein þrettán ár og það eru alltaf möguleikar til að sækja fram í þessu starfi. Mér skilst að það sé talsverð eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem tónlistarskólar veita og biðlistar eru víða langir,“ segir Örlygur.

30933-orlygur-benediktsson
Örlygur Benediktsson segir tónlistarkennara í FT orðna langþreytta eftir 400 daga án samnings við sveitarstjórnir landsins.

Örlygur er einn þeirra kennara sem hefur verið að nýta samfélagsmiðlana til að vekja athygli á stöðu mála í kjaradeilu tónlistarkennara og sveitarfélaga með myllumerkinu #samningslaus. Hann segir þá viðleitni ganga ágætlega. „Við höfum reynt að vekja athygli yfirvalda og almennings með ýmsum hætti. Greinar hafa verið skrifaðar um mikilvægi tónlistarmenntunar í samfélaginu og undanfarið höfum við tölusett hvern dag sem við höfum verið samningslaus. Við erum nú búin að telja upp í rúmlega 400 daga og þetta er löngu orðið gott. Hins vegar verður að segjast að skilaboðin hafa ekki verið að dreifast alveg nægilega vel út í samfélagið. Meðvitund um þessa alvarlegu stöðu mætti vera meiri.“

Auglýsing

Afmælissöngurinn, heldur endasleppur og nótnasettur af Örlygi Benediktssyni í tilefni að eins árs samningsleysi félagsmanna i FT í byrjun nóvember. Örlygur segir að lengd söngsins sé í samræmi við launahugmyndir samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Afmælissöngurinn, heldur endasleppur og nótnasettur af Örlygi Benediktssyni í tilefni að eins árs samningsleysi félagsmanna i FT í byrjun nóvember. Örlygur segir að lengd söngsins sé í samræmi við launahugmyndir samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Bersýnilegur árangur

Tónlistarkennsla er að mati Örlygs grunnur undir tónlistarlífið sem Íslendingar státa sig svo mikið af. „Okkur finnst þessari staðreynd stundum vera tekið sem sjálfsögðum hlut. Það eru allir sammála um að íslenska fyrirkomulagið á tónlistarskólum, sem byggt var markvisst upp á síðari hluta síðustu aldar, hafi gefist vel. Bæði innanlands og utan eru menn sammála um árangurinn. Hið almenna starf okkar tónlistarkennara miðast við að allir hafi tækifæri til að prófa tónlistarnám óháð efnahag og öðrum aðstæðum.“

Örlygur starfar við tónlistarskóla sem nokkur sveitarfélög standa að, Tónlistarskóla Árnesinga. „Við í skólanum vorum með fund um daginn þar sem við buðum sveitarstjórnarfólki og foreldrum að ræða stöðuna. Eitt foreldri á fundinum tók dæmi af sínum börnum í tónlistarskóla en sum þeirra höfðu átt félagslega erfitt uppdráttar og hefðu þurft sálfræðiþjónustu sem ekki var í boði. Í því tilviki var tónlistarskólinn hjálparhella en þessar menntastofnanir eru auðvitað eitt þeirra menntaúrræða sem við höfum komið á fót til að móta betri og heildsteyptari þjóðfélagsþegna. Það er því félagslegur og fjárhagslegur ávinningur af því að láta þessa starfssemi ekki drabbast niður. Þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld sitji ekki aðgerðarlaus þegar atgervisflótti úr stétt tónlistarkennara er orðin raunveruleg hætta.“

Mikið vanmat í gangi

Hólmfríður Sigurðardóttir píanóleikari starfar við Söngskólann í Reykjavík þar sem hún leikur með nemendum í söngnámi. „Það eru afskaplega mikil forréttindi að starfa við það að vera tónlistarkennari enda er tónlistin ótrúlega gefandi,“ segir Hólmfríður. „Hins vegar er starfið illilega vanmetið í launum og að því leyti eru komnar upp mjög slæmar aðstæður núna í þessum málaflokki. Það verður bara að segjast. Við erum til dæmis ekki metin að sömu verðleikum og aðrir kennarar og eins og fólk veit þá eru þeir nú ekkert yfir sig ánægðir með sín kjör. Þetta er því mjög leiðinlegt ástand að tónlistarkennarar skuli ekki mæta meiri skilningi.“

Hólmfríður telur að almenningur átti sig almennt á mikilvægi tónlistarnáms. „Allavega virðist svo vera ef við horfum á það hvernig aðsókn að tónleikum hér á landi vex ár frá ári. Fólk hefur áhuga á tónlist, mætir á tónleika og hefur þar af leiðandi áhuga á íslenskum tónlistarmönnum. Og hvaðan koma þeir? Nú úr tónlistarskólum. Ráðamenn, í það minnsta, setja þetta ekki alveg í samhengi að mínu mati. Það þykir gott að hæla og hampa tónlistarlífinu á góðum stundum, en svo skortir upp á peningalegt mat á þessum verðmætum.“

Hólmfríður Sigurðardóttir segir að oft skorti upp á skilning á tengslum tónlistarnáms og blómlegs tónlistarlífs.
Hólmfríður Sigurðardóttir segir að oft skorti upp á skilning á tengslum tónlistarnáms og blómlegs tónlistarlífs.

Tónlist ekki himnasending

Tónlist fellur sjaldnast af himnum ofan og jafnvel mestu undrabörn á því sviði þurfa handleiðslu til að ná að beisla hæfileikana. „Ráðamenn og þeir sem halda um tauma í samningaviðræðum um þessi mál átta sig ekki á því sem við og forverar okkar í starfi hafa lagt á sig til að byggja upp þetta mikla tónlistarlíf. Það tekur áratugi að byggja svona hluti upp en svo getur það tekið örskamman tíma og í raun bara nokkur pennstrik að leggja þetta í rúst.“

Hólmfríður segir að hún sjái árangur af starfi sínu á hverjum degi. „Við vitum það sem uppalendur að tónlist þroskar nemendur á fjölbreyttan máta. Hún ræktar öguð vinnubrögð og það væru örugglega færri vandamál, til dæmis í skólum landsins, ef tónlistarkennsla væri felld betur inn í starf þeirra. Rannskóknir sýna að þeir nemendur sem leggja stund á tónlist standa sig betur í öðru námi og í ýmsu því sem þeir taka sér fyrir hendur. Með tónlistarnáminu fylgja oft skipulagshæfileikar og aukinn þroski í sköpunargáfu sem vitanlega er góð í öllu námi. Og eins og við vitum eykst áhersla á sköpunarþáttinn jafnt og þétt. Fyrir skólakerfið og samfélagið almennt væri því gott að meta tónlistina hærra og velta því fyrir sér hvaðan hún er sprottin.“

 

 

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.