Deila

Tvískinnungur að blanda aflraunum og Crossfit

Það er tvískinnungur að vilja bæta ímynd Crossfit-íþróttarinnar og vekja athygli á henni sem lyfjalausri íþrótt, en blanda svo greininni við aflraunir. Þetta segir formaður þjálfararáðs Kraftlyftingasambandsins og verkefnisstjóri hjá Íþróttasambandi Íslands. Þeir eru gagnrýnir á WOW Stronger mótið sem haldið er í Crossfit í dag.

 

Óvenjuleg kraftakeppni, WOW Stronger, verður haldin í Crossfit Reykjavík á laugardag, þar sem tilgangurinn er að sameina Crossfit og aflraunir. Annie Mist keppir með „Fjallinu“, Hafþóri Júlíusi Björnssyni í liði, en hann er atvinnumaður í aflraunum. Keppnisgreinarnar verða blanda af aflraunum, kraftlyftingum og Crossfit. Wow air kostar mótið.
Evert Víglundsson sagði í Fréttablaðinu í vikunni að þau Annie Mist hafi gengið með hugmyndina í nokkurn tíma. „Tímasetningin hentar einstaklega vel því fram undan er þétt dagskrá hjá öllum af okkar helstu aflraunastjörnum,“ sagði Evert.

„Það er algjör tvískinnungur, að vilja bæta ímynd Crossfit en blanda íþróttinni um leið saman við aflraunir sem eru ekki undir neinu eftirliti,“
segir Birgir Sverrisson, verkefnisstjóri lyfjaeftirlitsnefndar Íþróttasambands Íslands.

Auglýsing

„Hvernig getur það verið í lagi að vilja vera innan Íþróttasambands Íslands og halda því fram í fjölmiðlum í þú viljir bæta almenningsálitið á Crossfit-íþróttinni, en á sama tíma blanda saman aflraunum og Crossfit? Allir iðkendur hjá Kraftlyftingasambandi Íslands yrðu settir í keppnisbann ef þeir kepptu við aflraunamenn sem standa utan Íþróttasambandsins. Ef markmiðið hjá Crossfit er raunverulega að etja kappi við sterkasta fólk landsins, þá hefðu þeir kannski á átt að bjóða Júlían J. K. Jóhannssyni, heimsmeistaranum í réttstöðulyftu, til leiks,“ segir Ingimundur Björgvinsson, formaður þjálfararáðs Kraftlyftingasambands Íslands.

Crossfit hreyfingin lá undir ámæli fyrir að horfa í gegnum fingur sér með lyfjanotkun eftir að upp úr sauð á Íslandsmótinu í greininni í Digranesi í nóvember. Þá neitaði sigurvegarinn að gangast undir lyfjapróf.
„Ef þú hefur keppt í kraftlyftingum á Íslandi utan ÍSÍ, þá finnst mér það benda til þess að þú hafir verið að nota lyf til að koma þér áfram í íþróttinni. Að mæta aldrei á mót með lyfjaeftirliti, hlýtur að bjóða upp á aðstæður til að misnota lyf. Það er ekki hægt að keppa í aflraunum á þessum mælikvarða nema nota lyf,“ segir Ingimundur.

21587-hafthor-julius-bjornsson-fjallid
Hafþór Júlíus Björnsson eða Fjallið, eins og hann er kallaður.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.