Deila

Ungt fólk á Íslandi þunglyndast allra

Í samanburði við þjóðir Evrópu er unga fólkið á Íslandi óvenju þunglynt. Munurinn minnkar með aldrinum og almennt er eldra fólk á Íslandi álíka þunglynt og fólk annarra Evrópuþjóða. Þunglyndisvandinn á Íslandi er því fyrst og fremst vandi hinna ungu.

Íslendingar þunglyndari ungir: Samanburður á hlutfalli þunglyndra eftir aldurshópi á Íslandi og meðaltali Evrópusambandsins sýnir vel hversu þunglyndi leggst illa á unga Íslendinga. Þessar súlur sýna hlutfall kvenna sem finnur fyrir þunglyndi eftir aldurshópum.
Íslendingar þunglyndari ungir: Samanburður á hlutfalli þunglyndra eftir aldurshópi á Íslandi og meðaltali Evrópusambandsins sýnir vel hversu þunglyndi leggst illa á unga Íslendinga. Þessar súlur sýna hlutfall kvenna sem finnur fyrir þunglyndi eftir aldurshópum.

Í samanburði á öllum þjóðum Evrópu kemur í ljós að ungt fólk á Íslandi er þunglyndast allra. Bæði íslenskir karlar og konur á aldrinum 15 til 24 ára segjast mun oftar finna fyrir þunglyndiseinkennum en ungt fólk hjá öðrum þjóðum, samkvæmt upplýsingum frá evrópsku hagstofunum.

Litlu munar hjá ungkörlunum, tíundi hver íslenskur karl finnur fyrir þunglyndi en 9,8 prósent sænskra ungkarla. Meðaltal Evrópusambandsins er 4 prósent.

Auglýsing

Ungar íslenskar konur skera sig meira úr öðrum þjóðum. Rétt tæplega 18 prósent kvenna á þessum aldri, 15 til 24 ára, segist finna fyrir þunglyndi á meðan meðaltal Evrópusambandsins er 6,7 prósent. Næst á eftir Íslendingum koma ungar sænskar konur, en rétt rúm 15 prósent þeirra finna fyrir þunglyndi.

Íslenskar konur eru næst þunglyndastar á aldursbilinu 25 til 34 ára og í þriðja sæti á aldrinum 35 til 44 ára. Þunglyndi meðal kvenna allt upp að miðjum aldri er því áberandi meira en hjá öðrum þjóðum almennt. Eftir miðjan aldur er munurinn minni og á efri árum mælist þunglyndi kvenna álíka og að meðaltali í Evrópusambandinu.

Svipað má sjá hjá íslensku körlunum. Þeir eru almennt mun þunglyndari en aðrir evrópskir karlar á yngri árum en nálgast meðaltalið á miðjum aldri og eru ólíklegri til að vera þunglyndir á efri árum en eldri karlar í Evrópu almennt.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.