Fréttatíminn

image description
05.04 2012

Íslendingar betri við börnin sín

Jón Kaldal
Jón Kaldal

Jón Kaldal skrifar

Í nýjustu könnun á vímuefnaneyslu íslenskra unglinga má sjá sömu jákvæðu þróun og undanfarin ár: Þar er að finna ánægjulega vísbendingu um að tilveran í raunheimum gengur bara vel á ýmsum sviðum, ólíkt því sem mætti ætla sé miðað við barlóminn sem veður uppi í hinum stafræna heimi; blogginu og athugasemdakerfi netmiðlanna – og líka í steinhúsinu við Austurvöll. Ef maður hlustaði á ýmsa sem þar starfa þyrði maður naumast út fyrir hússins dyr, svo svakalega er heimsýnin svört sem dregin er upp í því húsi flesta daga.

Líðan unglinga og notkun þeirra á vímuefnum er örugglega betri barómeter á það hvernig fjölskyldur landsins hafa það en margt annað. Þegar börn eru hamingjusöm og neyta ekki vímuefna er það vísbending um að þau hafi það gott heima fyrir – að þar sé hugsað vel um þau.

Rannsókn og greining við Háskólann í Reykjavík hefur undanfarin fjórtán ár fylgst með vímuefnaneyslu barna í áttunda, níunda og tíunda bekk grunnskóla. Í könnun sem var gerð nú í febrúar kemur fram að vímuefnaneysla heldur áfram að dragast saman hvort sem það er á áfengi, tóbaki eða öðrum vímugjöfum. Í rannsókninni kemur fram að hlutfall krakka sem eru í elstu bekkjum grunnskóla og reykja fer úr 5 prósentum í 3 prósent milli ára og hlutfall þeirra sem hafa drukkið áfengi á könnunartímanum lækkar úr 9 prósentum í 7 prósent. Hlutfall þeirra sem hafa notað hass einu sinni eða oftar um ævina eru 3 prósent, og stendur í stað, en sjónarmun færri hafa prófað marijúana frá því síðasta könnun var gerð. Það hlutfall er nú 7 prósent en var 8 prósent í fyrra.

Breytingarnar frá 1998 eru sláandi. Það ár sögðust 42 prósent unglinga hafa orðið drukknir, 23 prósent reyktu daglega og 17 prósent höfðu notað hass. En leiðin hefur sem betur fer legið jafnt og þétt í rétta átt frá þessu versta ári í sögu rannsóknanna.

Fyrirfram hefði mátt búast við að efnahagsþrengingar og aukið atvinnuleysi í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 gæti snúið þróuninni við. Vímuefnaneysla er oftar en ekki afleiðing ójafnvægis og upplausnar. Sú hefur hins vegar ekki reynst raunin. Hlutfall þeirra sem hafa drukkið í elstu bekkjum grunnskóla hefur lækkað úr 20 prósentum árið 2007 í 7 prósent nú, en í könnunum er spurt hvort þátttakendur hafi orðið ölvaðir síðastliðna 30 daga. Á sama tímabili hefur hlutfall þeirra sem reykja daglega farið úr 10 prósentum í 3 prósent. Unglingar landsins halda sem sagt áfram að vera öðrum frábærar fyrirmyndir um heilbrigt líferni.

Athyglivert er að þessi jákvæða þróun undanfarinn rúmlega áratug hefur orðið á sama tíma og aðgengi að áfengi hefur aukist. Verslunum ÁTVR hefur fjölgað og opnunartími þeirra lengdur. Sýnileiki áfengra drykkja hefur einnig vaxið með fjölgun erlendra sjónvarpsstöðva, sem sýna áfengisauglýsingar, og lítt dulbúnum bjórauglýsingum innlendra framleiðanda. 

Aukið aðgengi og sýnileiki hefur þannig ekki haft áhrif til hins verra. Rannsóknir benda líka langflestar í þá átt að þessi atriði skipta ekki höfuðmáli. Það sem öllu skiptir, þegar kemur að því að halda börnum frá vímuefnum, er að foreldrar eyði með þeim tíma, jafnvel þó það sé aðeins sé fyrir framan sjónvarpið. 

Niðurstöður Rannsóknar og greiningar benda eindregið til þess að Íslendingar séu að verða betri við börnin sín en áður. Það er falleg tilhugsun. 

Til baka

Kaupstaður