Deila

Viðreisn hverfur frá kröfu um róttækar breytingar á kvótakerfinu

Svo virðist sem að ekki verði farin róttæk leið í uppstokkun í sjávarútvegsmálum. Skortur á konum í efstu röðum Sjálfstæðisflokksins er áhyggjuefni. Svanhildur Hólm og Ragnheiður Ríkharðsdóttir koma til greina sem ráðherra.

Ekki verða gerðar grundvallarbreytingar á kvótakerfinu í sjávarútvegi nái Björt framtíð, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn að mynda ríkisstjórn, samkvæmt heimildum Fréttatímans. Í það minnsta er útilokað að svokölluð uppboðsleið verði farin þar sem aflaheimildir útgerðarfyrirtækja yrðu innkallaðar og boðnar upp til hæstbjóðanda á markaði. Bæði Viðreisn og Björt framtíð töluðu fyrir slíkum róttækum breytingum á kvótakerfinu í aðdraganda þingkosninganna í haust. Markmiðið var að reyna að draga úr aðkomu ríkisins og stjórnmálamanna að útdeilingu á aflaheimildum og að ríkið myndi fá hæsta mögulega verð fyrir afnot á fiskveiðikvóta þjóðarinnar.

Á móti er líklegt að Björt framtíð og Viðreisn fái fimm ráðherra samtals, Viðreisn þrjá á meðan Björt framtíð fengi tvo. Staða kvenna innan
Sjálfstæðisflokksins er hinsvegar áhyggjuefni og hefur verið nefnt að Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarkona Bjarna Benediktssonar, verði ráðherra, þó hugsanlega aðeins tímabundið. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur einnig verið nefnd sem ráðherraefni.

Viðræður á milli flokkanna þriggja eru langt komnar og svo komið að farið er að ræða ráðherraembætti. Síðast steytti á samstarfi á milli flokkanna þriggja vegna sjávarútvegsmála, en nú virðast Björt framtíð og Viðreisn hafa gefið allnokkuð eftir.

Auglýsing

Svo virðist sem uppboðsleið sé alveg slegin út af borðinu en til umræðu er að breyta því hvernig veiðigjöldin eru innheimt. Jafnvel komi til greina að taka upp kerfi sem leiði til þess að veiðigjöldin lækki þegar krónan er sterk til að koma til móts við sjávarútvegsfyrirtækin þegar illa árar fyrir þau. Fréttatíminn hefur ekki upplýsingar um hvernig nákvæmlega þetta nýja innheimtukerfi er hugsað þar sem talsverð leynd er yfir tilllögunum sem til umræðu eru á milli flokkanna þriggja.

Ljóst er hins vegar að Viðreisn og Björt framtíð hafa horfið frá þeirri uppstokkun á kvótakerfinu sem flokkarnir boðuðu fyrir kosningar, þeir hafa horfið frá innleiðingu uppboðskerfis og þeir virðast hafa sæst á útfærslu á innheimtu veiðigjalda sem felur ekki endilega í sér hærri gjaldtöku fyrir afnot af aflaheimildum í sjávarútvegi. Kvótakerfið verður því áfram til í nokkurn veginn sömu mynd og áður.

Ekki er ljóst hver lendingin er í Evrópumálum en Sjálfstæðismenn beita þeim rökum að viðræður við sambandið geti ekki hafist fyrr en eftir árið 2020. Þannig sé í raun ótímabært að ræða málið efnislega. Til greina komi þó að kjósa í lok kjörtímabils, en enn er deilt um það hvernig spurningin um Evrópusambandsaðild ætti að vera orðuð.

 

Valur Grettisson
valur@frettatiminn
Ingi Freyr Vilhjálmsson
ingi@frettatiminn.is

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.