Deila

Aldamótakynslóðin: Vill meira frí og minni vinnu

Íslenskar rannsóknir sýna að aldamótakynslóðin er með allt önnur viðhorf til atvinnu en fyrri kynslóðir.

Aldamótakynslóðin er sú kynslóð sem nú stígur sín fyrstu skref í heimi fullorðinna.
Það er svo sem ekkert auðvelt að skilgreina hvað felist í því að verða fullorðinn en samkvæmt hefðinni þýðir það að taka þátt í samfélaginu, fara út á vinnumarkaðinn með tilheyrandi launaseðli og aukinni neyslu, hvort sem í henni felst að kaupa sér mat og helstu nauðsynjar, föt, bíl eða íbúð.
Að finna sér maka og eignast börn fellur líka undir skilgreininguna að fullorðnast en aldamótakynslóðin fer sér hægar í þeim efnum og stofnar til fjölskyldu seinna en fyrri kynslóðir. Þetta er yngsta kynslóðin á vinnumarkaðinum, fólkið sem er á leið út í lífið, sumir fara snemma af stað á meðan aðrir fullorðnast ekki fyrr en seint og síðar meir. Almennt virðist þessi kynslóð fullorðnast aðeins seinna en X-kynslóðin og mikið seinna en kynslóðin þar á undan, uppgangskynslóðin, oft kölluð Baby boomers-kynslóðin. Sérfræðingarnir segja þessa seinkun að hluta til skýrast af minni áherslu á efnishyggju, þessi kynslóð er sögð vilja upplifa hluti í stað þess að eignast hluti, en að minni ráðstöfunartekjur spili sennilega stórt hlutverk líka.

Dekraða velmegunarkynslóðin

Aldamótakynslóðin, eða millenials, hefur líka verið kölluð Y-kynslóðin, velmegunarkynslóðin og selfí-kynslóðin. Stimplunum fylgir óneitanlega ákveðinn hroki en hann virðist vera náttúrulegur fylgifiskur eldri kynslóðarinnar, sem í þessu tilfelli horfir í forundran á þessi óstýrilátu og freku snjallsímabörn sem finnst þau eiga rétt á öllu með einum smelli án þess að sá né plægja í nokkurn akur.
Töluvert hefur verið rætt um það hversu mikið Y-kynslóðin skilji sig frá fyrri kynslóðum, ekki síst vegna þeirra miklu samfélagsbreytinga sem aukin tölvunotkun hefur haft í för með sér. Þetta er kynslóðin sem ólst upp við snjallsíma og niðurhal, sem kaupir bækur og föt á internetinu, borðar minna af kjöti og kaupir sanngjarnar vörur vegna vakningar á samfélagsmiðlum, deilir bílum í stað þess að kaupa sinn eigin og gerir íbúðaskipti á netinu í stað þess að gista á hótelum.
Þessi kynslóð er alin upp við velmegun og sögð upp til hópa vera meðvitaðir neytendur sem láti ekkert óréttlæti yfir sig ganga, en þau eru líka sögð vera stefnulausasta og sjálfhverfasta kynslóð sem uppi hefur verið, ofvernduðu börnin sem foreldrarnir hrósuðu fyrir það eitt að vakna á morgnana, ólíkt fyrirrennurunum, X-kynslóðinni sem ól sig víst meira og minna upp sjálf með lyklana um hálsinn. Sjálfhverfa selfí-kynslóðin er sögð hugsa lítið um að sá fræjum til framtíðar heldur vilji hún frekar fá viðurkenninguna um leið, like-ið þarf að koma strax í dag.

Auglýsing

Y-kynslóðin setur vinnuna ekki í fyrsta sæti, heldur fjölskyldu og önnur persónuleg mál.
Y-kynslóðin setur vinnuna ekki í fyrsta sæti, heldur fjölskyldu og önnur persónuleg mál.

Nýtt vinnusiðferði Y-kynslóðarinnar

Ólík viðhorf kynslóðanna til lífsins hafa mikið verið rannsökuð erlendis, sérstaklega viðhorf þeirra til atvinnu og neyslu. Simon Sinek er bandarískur sérfræðingur á sviði vinnustaðamenningar og stjórnunar auk þess að vera vinsæll samfélagsrýnir. Eftir að hafa fylgst með Y-kynslóðinni og unnið með stjórnendum víðsvegar um Bandaríkin er hans niðurstaða sú að þetta unga fólk sé erfitt viðureignar. Þau eru sjálfhverf, löt, ófókuseruð og tilætlunarsöm. Hugsa meira um næsta frí en hag fyrirtækisins. Hann vill þó ekki kenna þeim sjálfum um hvernig fyrir þeim er komið, heldur ofverndun foreldra þeirra, tækninni, óþolinmæði og vinnustöðunum sjálfum því stjórnendur þeirra skilji ekki hvernig unga kynslóðin hugsi.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent á félagsvísindasviði HÍ, vill ekki taka jafn djúpt í árinni og Sinek en tekur undir það að stjórnendur vinnustaða þurfi að laga sig að breyttum hugsunarhætti Y-kynslóðarinnar, annars sé hætta á árekstrum. Gylfi, sem hefur sérhæft sig í vinnustaðamenningu og rannsakað upplifun íslenskra stjórnenda af því að vinna með ólíkum kynslóðum, segir það allt annað að stjórna Y-kynslóðinni en fyrri kynslóðum og að með henni eigi eftir að koma fram ný gildi og nýtt vinnusiðferði.

Setja vinnuna ekki í fyrsta sæti

Í rannsóknum Gylfa og nemenda hans kemur fram að stjórnendur íslenskra fyrirtækja segja Y-kynslóðina leggja mikla áherslu á ýmis fríðindi og sveigjanlegan vinnutíma. Ólíkt fyrri kynslóðum setur Y-kynslóðin vinnuna ekki í forgang, heldur fjölskyldu og önnur persónuleg málefni. Kynslóðin hefur alist upp við miklar samfélagsbreytingar, tækniframfarir, aukna menntunarmöguleika, fjölbreytt fjölskyldumynstur og foreldrar hennar hafa lagt mikið upp úr því að einstaklingarnir finni að þeir skipti máli og séu færir í flestan sjó. Þetta er fólk sem hefur vanist mikilli endurgjöf og því er hvatning á vinnustöðum þeim mjög mikilvæg. Gylfi segir mikilvægt að stjórnendur endurskoði fyrri stjórnunarhætti því aldamótakynslóðin setji vinnuna ekki í fyrsta sæti.

Y-kynslóðin vill að það sé gaman í vinnunni. Einstaklingar af kynslóðinni eiga erfitt með að vinna sjái þeir ekki tilgang með vinnunni og þeir eru óþolinmóðir, vilja sjá árangur erfiðis síns strax og fá mikið hrós fyrir.
Y-kynslóðin vill að það sé gaman í vinnunni. Einstaklingar af kynslóðinni eiga erfitt með að vinna sjái þeir ekki tilgang með vinnunni og þeir eru óþolinmóðir, vilja sjá árangur erfiðis síns strax og fá mikið hrós fyrir.

Þurfa mikla endurgjöf

„Það þarf að samræma vinnu og einkalíf í ríkara mæli en nú er gert, gullúrið er ekki lengur markmið í sjálfu sér,“ segir Gylfi. „Það þarf að vera gaman í vinnunni, skemmtilegur mórall er ef til vill mikilvægari en góð laun. Stjórnendur þurfa að koma fram við Y-kynslóðina eins og jafningja og þeir þurfa að kunna að veita endurgjöf, leggja sig fram um að leiðbeina, vera styðjandi og góður hlustandi.“
„Y-kynslóðin er frábær og það er ekkert að óttast svo sem, en á vinnustöðum getur orðið núningur þegar ólíkar kynslóðir mætast og þess vegna er það mikilvægt, sérstaklega fyrir stjórnendur sem eru af uppgangs- og X-kynslóðinni að skilja væntingar og þarfir Y- kynslóðarinnar, vita og þekkja hvernig eigi að stjórna henni, huga betur að endurgjöfinni og átta sig á því að fyrri stjórnunarhættir eiga kannski ekki lengur við.“

Kynslóðir togast alltaf á

Samkvæmt þessu ættu vinnustaðir því að reyna að brúa kynslóðabilið og hlusta á kröfur sjálfhverfu kynslóðarinnar. Y-kynslóðin lætur illa að stjórn, vill vinna minna og fara meira í frí en skiptir það einhverju máli? Hafa eldri kynslóðir ekki alltaf talið þá yngri vera lata og óstýriláta? Gylfi bendir einnig á að, að einhverju leyti sé þetta einmitt hlutverk kynslóðanna, að togast á. Kannski er það hlutverk þeirra yngri að efast um allt sem forverar þeirra sögðu og gerðu? Nú sýna aðrar rannsóknir að ungt barnafólk á Íslandi er undir allt of miklu álagi og nauðsynlegt sé að samræma betur atvinnu- og fjölskyldulíf. Hugmyndir dekruðu Y-kynslóðarinnar um betri vinnustaðamenningu, sveigjanlegri vinnutíma og styttri vinnuviku hljóma því alls ekkert svo illa.

 

Aldamótakynslóðin á vinnustaðnum, samkvæmt íslenskum rannsóknum:
-Vill minnka vinnuálag og stytta vinnuvikuna
-Vill sveigjanleika til að taka launalaust leyfi
-Vill fara fyrr á eftirlaun
-Sýnir minni hollustu við vinnustað og yfirmenn
-Sýnir minni virðingu fyrir valdi
-Sýnir frumkvæði
-Er óþolinmóð
-Þorir að kvarta
-Þarf mikla endurgjöf og viðurkenningu
-Vill vaxa í starfi
-Vill sjá ávöxt vinnunnar strax

Reynda kynslóðin (1922-1943) Reglur eru til að fara eftir
Uppgangskynslóðin (Baby Boomers) (1946-1960) Lét reyna á reglurnar
X-kynslóðin (1960-1980) Breytti reglunum
Y-kynslóðin (1980-2000) Vill búa til nýjar reglur
Z-kynslóðin (fædd eftir 2000)

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.